3.3.2009 | 18:17
Brösug hjónabandssæla stjórnarflokkanna
Annað hvort ná flokkarnir þrír saman um að halda þingi áfram eða blása það af 12. mars. Framsókn hefur það í hendi sér. Það yrði neyðarlegt fyrir stjórnarflokkana ef Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fá saman í gegn tillögu um frestun þingfunda frá 12. mars. En kannski er það sem gerist. Nú reynir á hversu öflug Framsókn verður með sín mál.
![]() |
Fundað um stjórnarsamstarfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.3.2009 | 17:27
Össur talar niður og upp til Sigmundar
Þetta er svona í takt við það þegar ráðherraræðið í Stjórnarráðinu ætlaði að stilla Framsókn upp við vegg um daginn og reyna að tuska þá til með hótunum. Þar fór umhyggjan fyrir þingræðinu fyrir lítið, hjá þeim sem mest höfðu talað um það.
Minnihlutastjórnin hagar sér eins og hún sé meirihlutastjórn sérstaklega í fyrirskipunum í þingstarfinu. Ætli það sé ekki vandinn stóri sem blasir við öllum, ástæðan fyrir því að þessi stjórn er jafn veikburða og raun ber vitni.
![]() |
Sigmundi Davíð boðin sáttahönd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.3.2009 | 15:16
Vinstristjórnin að falla á tíma vegna kosninganna
Eðlilega bendir Framsóknarflokkurinn á það að þau verkefni sem ríkisstjórnin var mynduð um og Framsókn setti sem skilyrði fyrir stuðningi hafa ekki staðist. Ekkert hefur verið gert. Eftir rúma 30 daga er eins og landið hafi staðið í stað. Enginn er að leiða þjóðina af krafti, koma fram með framtíðarsýn og einhverja alvöru forystu. Við erum í einhverju furðulegu tómarúmi þar sem hugsað er aðeins um hentug mál stjórnmálamannanna við völd.
Greinilegt er að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ekki lært á minnihlutastjórnarformið. Þeir sem hæst töluðu um að auka þyrfti virðingu Alþingis hafa gengisfellt það með því að beita því sem afgreiðslustofnun. Hræsni þeirra er algjör.
Nú tala stjórnarflokkarnir svo um að ekki sé tími til að koma málum í gegnum þingið og gefa í skyn að fresta þurfi kosningunum. Sumir af þeim göluðu sem hæst í janúar um að kjósa þyrfti sem fyrst og færa umboðið til þjóðarinnar.
Nú þarf að festa kjördaginn 25. apríl í sessi og rjúfa þing - tryggja að starfhæf ríkisstjórn taki til starfa sem fyrst. Þessi vinstristjórn hefur fallið á prófinu, bæði með verklagi sínu og aðgerðarleysi.
![]() |
Stóru málin bíða í þinginu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.3.2009 | 13:10
Harkalegt uppgjör á stöðu Íslands
Höfum við kallað þetta yfir okkur sjálf? Vissulega höfum við gert það að mörgu leyti. Við létum spádóma erlendra sérfræðinga sem vind um eyrun þjóta og neituðum að horfast í augu við yfirvofandi vanda og efnahagslegt óveður sem var á leiðinni. Margir féllu með vísakortið í hendi og sumir eru enn að reyna að standa í lappirnar við að bjarga sér frá hruninu. Við lærðum vonandi okkar lexíu, stóra niðurstaðan er sú að við verðum að vera vakandi fyrir vandanum og vera raunsæ í hverju því sem gert er.
Raunsæi og veruleikaskyn tapaðist á síðustu árum. Mestöll þjóðin var með glampann í augunum fyrir þeim sem skuldsettu okkur upp í rjáfur og fyrst núna virðumst við vera að vakna upp við hversu illa var unnið. Myndin um Enron ætti að vera sýnd reglulega til að vekja þá sem enn trúa því að útrásarvíkingarnir hafi verið snjallir og skynsamir menn.
Eitt finnst mér þó vanta á þessum tímum. Okkur vantar sterka leiðtoga sem talar við fólkið í landinu, talar kjark og kraft í það við þessar erfiðu aðstæður. Enginn slíkur er á sviðinu núna. Ég held að fólkið í landinu sé ráðvillt því enginn talar til þeirra í lausnum og markmiðum. Við erum í mikilli þoku, ekki aðeins efnahagslega heldur pólitískt.
Staðan er kannski ekki þannig að allir hafi framtíðarsýn til langs tíma. En það er mikilvægt að þeir stjórnmálamenn sem vilja vera ábyrgir og traustir tali í lausnum og skapi framtíðarsýn, ef það sé ósátt við stöðu þjóðarinnar komið með einhvern vegvísi til framtíðar.
![]() |
Wall Street á túndrunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.3.2009 | 01:14
Blekkingarleikur á endastöð
Ég held að margir sjái hlutina í öðru ljósi eftir Kastljós kvöldsins, þar sem kom fram að margfrægar fullyrðingar Björgólfs Thors í Kompásviðtalinu í október standast ekki. Mér finnst merkilegt að það hafi tekið íslenska fjölmiðlamenn marga mánuði að komast að sannleikanum í þessu máli. Tilraun stjórnenda Landsbankans fyrir bankahrunið til að snúa hjólinu enn einn hring og halda útúrsnúningunum áfram er dæmd til að mistakast að mínu mati.
Þeir eru orðnir fáir sem trúa þessum mönnum. Trúverðugleikinn er löngu farinn og sumir reyna ekki einu sinni að halda uppi vörnum. Svikamyllan og blekkingarleikurinn hefur verið afhjúpaður. Mikil lexía var að horfa á Enron-myndina í gær. Þetta var eins og innsýn í íslenskan veruleika útrásartímans. Sukkið og græðgin í Enron er sá sami og einkenndi öll verk og viðskiptalega sýn útrásarvíkinganna hér á Íslandi.
![]() |
Fengu ekki fyrirgreiðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |