Vinstristjórnin að falla á tíma vegna kosninganna

Augljóst er að vinstristjórnin er að falla á tíma. Á rúmum mánuði hefur hún aðeins náð örfáum frumvörpum í gegnum þingið og ekkert gert í þeim lykilmálum sem hún var mynduð um. Nú er aðeins rúm vika þar til rjúfa þarf þingið til að hefja kosningabaráttuna. Ríkisstjórnin getur sjálfri sér um kennt að hafa ekki komið málum sínum áfram. Hún hefur haft öll tækifæri til að vinna málin hratt og örugglega en fallið á prófinu. Af rúmum 40 dögum til að koma fram með mál og fara með þau í þingið hefur hún sólundað rúmum 30 dögum í pólitískar hreinsanir frekar en málefnin.

Eðlilega bendir Framsóknarflokkurinn á það að þau verkefni sem ríkisstjórnin var mynduð um og Framsókn setti sem skilyrði fyrir stuðningi hafa ekki staðist. Ekkert hefur verið gert. Eftir rúma 30 daga er eins og landið hafi staðið í stað. Enginn er að leiða þjóðina af krafti, koma fram með framtíðarsýn og einhverja alvöru forystu. Við erum í einhverju furðulegu tómarúmi þar sem hugsað er aðeins um hentug mál stjórnmálamannanna við völd.

Greinilegt er að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ekki lært á minnihlutastjórnarformið. Þeir sem hæst töluðu um að auka þyrfti virðingu Alþingis hafa gengisfellt það með því að beita því sem afgreiðslustofnun. Hræsni þeirra er algjör.

Nú tala stjórnarflokkarnir svo um að ekki sé tími til að koma málum í gegnum þingið og gefa í skyn að fresta þurfi kosningunum. Sumir af þeim göluðu sem hæst í janúar um að kjósa þyrfti sem fyrst og færa umboðið til þjóðarinnar.

Nú þarf að festa kjördaginn 25. apríl í sessi og rjúfa þing - tryggja að starfhæf ríkisstjórn taki til starfa sem fyrst. Þessi vinstristjórn hefur fallið á prófinu, bæði með verklagi sínu og aðgerðarleysi.

mbl.is Stóru málin bíða í þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þessi stjórn var óðs manns æði. Hugarfóstur bóndans á Bessastöðum.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 3.3.2009 kl. 15:19

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ríkisstjórnin hefur ekki náð örfáum frumvörpum í gegnum þingið.  Hún hefur náð að fá samþykkt ein lög, þ.e. hefndarlögin gegn Davíð Oddssyni.  Ekkert annað frumvarp hefur verið samþykkt og örfá komin til nefnda.  Hvorki frumvarpið um úttekt séreignarlífeyrissparnaðar né frumvarpið um 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað hafa verið afgreidd.  Samkvæmt frumvörpunum áttu þau þó bæði að taka gildi frá og með 1. mars 2009. 

Axel Jóhann Axelsson, 3.3.2009 kl. 15:41

3 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Það verður áhugavert að sjá dóm sögunnar um þessa ríkisstjórn eftir einhver ár eða áratugi... lifi maður svo lengi.

Emil Örn Kristjánsson, 3.3.2009 kl. 17:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband