Vinstrimenn setja neyðarhemilinn á

Nú þegar vinstrimenn geta ekki lengur kennt Davíð Oddssyni um allt sem aflaga fer í Seðlabankanum hljóta menn að hugsa um hvað hafi gerst á vakt Seðlabankans síðustu dagana. Krónan súnkar niður og allt er í voða. Hverjum ætla vinstrimenn að kenna um nú? Vandi er um að spá. Varla fara þeir að kenna sjálfum sér um þetta, sem þó væri ansi rökrétt túlkun á því sem gerist þessa dagana. Og þó.

Frumvarpið í þinginu er neyðarhemill á alla lykilþætti. Við erum að stefna í haftatíma á fullum krafti. Allt í boði vinstrimanna. Þetta er ekki beysin framtíðarsýn, ofan í skattatalið og hugleiðingar um höftin. Kannski ættu menn að fara að rifja upp hvernig Ísland var á tímum haftanna.

mbl.is Brýnt og óumflýjanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurlaunin hennar Evu - ábyrgð Jóhönnu

Eftir mikla andstöðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, við ofurlaun og mörg orð gegn því verklagi er eilítið sérstakt að sjá þau færa Evu Joly slík ofurlaun í ráðgjafahlutverki sínu. En kannski þarf ekki að undrast. Jóhanna, sem hefur talað fyrir pólitískri ábyrgð og gegnsæi í pólitísku starfi, hefur verið dæmd fyrir að brjóta stjórnsýslulög og fara á svig við stjórnarskrána þegar norski aðgerðarlausi seðlabankastjórinn, sem er ekki að standa sig, var skipaður í embætti.

Mér finnst þeir oftast hlægilegir sem tala fyrir siðferði og breyttum vinnubrögðum en falla í forarpyttinn sjálfir þegar mest á reynir. Mér finnst verklagið við ráðningu Evu og einkum vörnin fyrir ofurlaunum hennar minna mig einna helst á pópúlisma sem einkennt hafa Össur Skarphéðinsson og suma Samfylkingarmenn sem hafa verið í liðsveit hans fyrr og nú. Jóhanna fellur kylliflöt í þessa sömu gryfju nú. Mun heiðarlegra væri að hún predikaði ofurlaunastefnu sína í verki en ekki bara orði. Annars verður hún auðvitað ómarktæk.

Ekki svo að skilja að ég sé á móti Evu Joly og því að fá hana til verka. Hef margoft stutt þá ákvörðun í skrifum hér. Vil allt upp á borðið og bind vonir við að niðurstaða málsins verði sú að öll minnstu smáatriði í bland við stóru punkta aðdraganda bankahrunsins verði gerð opinber, allt verði opinbert. En stjórnmálamenn þurfa að vera samkvæmir sjálfum sér, alveg sama hvað þeir heita, hvort það er heilög Jóhanna eða einhver annar.

Ég heyrði ekki betur en alþýðukonan Jóhanna messaði að tími ofurlauna væri liðinn á landsfundi Samfylkingarinnar. Gott og blessað. Sömu helgina kvittar hún hinsvegar upp á ofurlaun handa fransknorsku Evu. Ekki fara saman orð og gjörðir.

Vonandi hefur þjóðin vit á að hafna svona hentistefnu í kosningunum. Við þurfum að fá stjórnmálamenn til valda sem meina það sem þeir segja og segja það sem þeir meina.


mbl.is Dapurlegar fréttir af Samson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæpsamlegir peningaflutningar til Tortola

Fyrir nokkrum mánuðum vildi Jón Ásgeir Jóhannesson ekki kannast við eyjuna Tortola í Silfursviðtali við Egil Helgason. Nú er ljóst að helstu auðmenn landsins og aðilar tengdir þeim hafa skotið fé undan til þessarar eyju. Ekki þarf rannsókn til að sjá þetta þegar fleiri hundruð félög hafa verið stofnuð þar af Íslendingum gagngert til að geyma fé. Þetta þarf að kanna og flétta hulunni ofan af öllu dæminu.

Þeir tímar eiga að vera liðnir að þjóðin láti bjóða sér hálfkveðnar vísur og snúning í lygahringekjunni hjá þessum mönnum. Staðreyndir tala sínu máli nú þegar og í raun ljóst að þarna hefur óeðlilega verið staðið að málum og þjóðin verið höfð að fífli með ómerkilegum útúrsnúningum líkt og fyrrnefndu Silfursviðtali.

Stóra spurningin nú er hvort þessir menn muni hjálpa þjóðinni á þessum örlagatímum eða stinga af til Tortola með allan sinn auð endanlega. Velji þeir seinni kostinn verða þeir landflótta ræflar sem missa endanlega allan trúverðugleika hér heima. Þá verður Tortola þeirra föðurland.

mbl.is Samson greiddi fé til Tortola
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjarnan Emiliana



Emiliana Torrini hefur verið uppáhaldssöngkonan mín árum saman, eiginlega síðan ég heyrði hana fyrst syngja. Hún er einfaldlega algjörlega í sérflokki - frábær rödd og traustur persónuleiki. Hún er ekki að þykjast vera neitt nema hún sjálf. Hefur alltaf verið trú sínu og ekki breytt sér fyrir frægðina eða eitthvað stjörnulúkk, hefur einfaldlega komist áfram af eigin verðleikum og skapað sína ímynd, ekki ósvipað Björk.

Ég er ekki fjarri því að mér hafi fundist hún ná traustum stalli í sínum bransa á síðustu árum, ekki aðeins hérna heima heldur um víða veröld. Lagið hennar Jungle Drum þótti mér sérstaklega gott og það var ekki hægt annað en hrífast með. Algjörlega magnað lag. Hitti beint í mark.



Emiliana ávann sér sess í huga og hjarta þjóðarinnar með plötunum sínum um miðjan tíunda áratuginn. Þær eru urðu báðar feykivinsælar hér heima og stjarna var fædd. Af öllum frábæru lögunum sem hún söng þá finnst mér The Boy who giggled so sweet algjörlega í sérflokki. Yndislegt lag.



Gollum song úr kvikmyndinni Lord of the Rings: The Two Towers frá árinu 2003 er traust lagasmíð. Yndislegt lag, með dökkum og sorglegum undirtón en yndislega fallegt samt sem áður. Nær að fanga tóninn í myndinni, sálarflækjur og innri baráttu Gollums, sem er margklofinn og andlega bugaður.



Ekki má svo gleyma túlkun Emiliönu á Simon og Garfunkel-smellinum Sounds of Silence úr sýningunni frábæru Stone Free á árinu 1996. Ógleymanleg sýning fyrir alla þá sem hana sáu. Yndisleg og sætt.

mbl.is Emilíana fær góða dóma í NYT
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margeir teflir traust - reisir við fallið veldi

Mér líst vel á að Margeir Pétursson hafi reist við fallna merki Spron og eigi að byggja eitthvað á rústunum. Alltaf verður jákvætt og gott þegar einhverjum tekst að byggja upp þar sem allt er hrunið og nái að horfa fram á veginn. Margeir var löngum þekktastur fyrir útsjónarsemi í skáklistinni og mikla seiglu.

Margeir hefur á undanförnum árum sannað seiglu sína og útsjónarsemi í viðskiptum og kemur nú fram sem maðurinn sem rífur Spron upp úr því feni sem vissir menn komu því með því að vera djarfir og spiluðu rangt. Margeir var þekktur fyrir að vera ekki djarfastur skákmanna en spila traust.

Nú þegar útrásarjólasveinarnir hafa spilað öllu sínu í strand, mennirnir sem þóttu svo djarfir og risu sem hálfguð í augum sumra, kemur Margeir fram á sviðið. Honum hefur tekist að spila sína skák til sigurs á meðan hinir djörfu enduðu úti í skurði.

mbl.is MP banki eignast SPRON
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband