Er upplýsingum haldið leyndum fyrir kjósendum?

Það er mjög alvarlegt mál ef rétt reynist að stjórnvöld hafi stungið undir stól skýrslu sem leiði í ljós að framundan sé algjört hrun íslensks efnahagskerfis að óbreyttu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, gerir hið eina rétta og vekur athygli á vinnubrögðunum, þó hann beri reyndar mikla ábyrgð á vinnubrögðunum. Stjórnin situr í hans umboði.

Séu þetta opnu og gegnsæju vinnubrögðin sem vinstriflokkarnir lofuðu okkur við myndun þessarar gagnslausu ríkisstjórnar er ekki von á góðu og vonandi að kjósendur hugsi sinn gang áður en kosið verður um helgina. Vinnubrögðin eru skólabókardæmi um að logið hafi verið að þjóðinni.

Sigmundur Davíð ber alla ábyrgð þó á því að hafa leitt þetta fólk til valda sem virðist hafa brugðist algjörlega, einkum ef rétt reynist að verið sé að afvegaleiða þjóðina til að kjósa yfir sig vinstristjórn um helgina án þess að heildarmyndin liggi ljós fyrir.

Hann hefur skapað þetta skrímsli sem er á vaktinni, úrræðalausa ríkisstjórn sem reynir að forðast að segja fólkinu í landinu sannleikann um stöðuna og fer marga hringi í þeim hráskinnaleik.


mbl.is Sigmundur Davíð spáir öðru hruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur til fortíðar - Steingrímur J. í klóm drekans

Mér finnst það mjög óábyrgt hjá Steingrími J. Sigfússyni að bjóða kjósendum upp á fortíðarhyggju af því tagi sem felst í ummælum hans um Icelandair á fundi austur á Egilsstöðum. Enn undarlegra er að neita þeim orðum, sem hafa farið um allt og eru algjörlega skýr. Ekki þýðir að fara í feluleik með þá afstöðu og þau óábyrgu ummæli sem hann lét falla. Slíkt talar sínu máli mjög vel.

Enn undarlegra var að hlusta á útúrsnúninga Steingríms J. um Drekasvæðið í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem spyrja þurfti hann fimm eða sex sinnum út í afstöðu vinstri grænna til olíuborana án þess að nokkru sinni fengist eitthvað svar. Aumt var það. Er ekki Steingrímur J. í klóm drekans?

mbl.is Tilhæfulaust að ríkið taki Icelandair yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarkveðja

Sumarblóm

Ég vil óska lesendum vefsins gleðilegs sumars og þakka fyrir góð samskipti á liðnum vetri. Þetta hefur verið sviptingasamur vetur, sviptingar í veðri, pólitík og ýmsu mannlegu svosem. Þetta hefur líka verið mjög skemmtilegur vetur í skrifum hér.

Dagurinn var notalegur og góður hér á Akureyri. Ég fór í vöfflukaffi með sjálfstæðismönnum á Kaffi Akureyri og fór svo á tónleika hjá kór eldri borgara í Akureyrarkirkju kl. 17:00. Amma mín, Hanna Stefánsdóttir, hefur verið í kórnum frá stofnun og mjög virk í starfi hans alla tíð. Yndislegir tónleikar - flott lagaval og góð stemmning.

Vonandi verður sumarið okkur öllum svo gjöfult og gott.

Össur veit ekkert í sinn haus með Bakka



Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, kom vægast sagt skelfilega út úr borgarafundi Sjónvarpsins í gærkvöldi. Maðurinn vissi ekkert í sinn haus og hljómaði eins og hann væri algjörlega tómur. Svör hans um Bakka voru sérstaklega áhugaverð, en hann vildi greinilega allt gera og rann svo á rassinn með það og sagðist ekkert vilja gera. Þvílík þöngulhausataktík!

Útgáfa á ævistarfi nóbelskáldsins tryggð

Ég fagna því að útgáfa á hinu merka ævistarfi Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness sé tryggð og samið hafi verið um hana. Ekki er um það deilt að Halldór er sannkallað þjóðarskáld, einn merkasti Íslendingur og rithöfundur 20. aldarinnar. Hef jafnan borið mikla virðingu fyrir bókum hans og þeirri ritsnilld sem einkennir þær. Halldór sjálfur var auðvitað um margt stórmerkilegur maður og áhugavert að lesa bækur um ævi hans og verk.

Ekki aðeins opinberu ævisögurnar heldur, og ekki síður, ævisögu Halldórs eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, sem var vel gerð og unnin, einkum annað bindið sem er stórfenglegt. Þó fyrsta bindið sé umdeilt og mikil læti hafi verið vegna þess er heildarverkið mjög vel gert, sérstaklega annað bindið, sem er með betri ævisögum sem ritaðar hafa verið síðustu ár að mínu mati, þar sem umdeildum kafla á ævi Halldórs er lýst opinskátt.

Einn og hálfur áratugur er liðinn síðan að ég keypti allar bestu bækurnar hans Halldórs. Verk hans höfðuðu mjög til mín og ég las þær upp til agna. Var á þeim aldri að það mótaði mig talsvert og ég held að öllum unglingum sé hollt að lesa verkin hans Halldórs. Allavega gaf það mér mikið.

Ólafur heitinn Ragnarsson vann gott verk við að gefa út bækurnar aftur og gera þær vinsælar að nýju, kynna yngri kynslóðum þetta heildarsafn. Og fáir rituðu skemmtilegar og einlægar um Halldór en einmitt Ólafur.

mbl.is Framtíð Laxness tryggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolbrún reynir að bæta fyrir klúðrið sitt

Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, reynir að bæta fyrir pólitískt sjálfsmark sitt með vandræðalegri yfirlýsingu þar sem gerð er tilraun til að draga í land með ummæli sem koma sér mjög illa fyrir vinstri græna og gera þá mjög óábyrga, svo vægt sé til orða komið. Skoðun Kolbrúnar var þó algjörlega skýr, hún situr sem umhverfisráðherra í skjóli síns flokks og Samfylkingarinnar og átti að gera sér grein fyrir að orð hennar sem ráðherra umhverfismála myndi vekja athygli og merkja afstöðu flokksins hennar.

Kannski hefur Kolbrún ekki áttað sig á því að hún sem ráðherra er ekki bara að tala fyrir prívatskoðunum sínum heldur verða ummæli hennar merkt þeim flokki sem hún er í fararbroddi fyrir. Þetta vandræðalega sjálfsmark hennar verður því um leið sjálfsmark flokksins. Ég efa ekki að vinstri grænir hafi fengið hörð viðbrögð í kvöld eftir heimskulega yfirlýsingu Kolbrúnar, sérstaklega hér í Norðausturkjördæmi þar sem formaðurinn eygir von á að fá mest fylgi um helgina.

En oft talar innsta eðlið þegar fólk talar og ég held að sú sé raunin með Kolbrúnu í því sem hún sagði. Þetta er innsta eðlið hjá VG sem talar þarna.


mbl.is Kolbrún segir þingflokk VG ekki hafa lagst gegn olíuleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt sjálfsmark hjá vinstri grænum

Ég man í seinni tíð ekki eftir öðru eins sjálfsmarki hjá nokkrum stjórnmálaflokki í aðdraganda kosninga eins og því þegar Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra vinstri grænna, lagðist gegn olíuleit á Drekasvæðinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í nafni flokksins. Þeir verða lengi að bíta úr nálinni með þetta heimskupar og eðlilegt að leitað sé viðbragða Steingríms J. og annarra forystumanna um hvort þetta sé virkilega skoðun VG.

Ekki er það björgulegt ef þessi flokkur fær forystusess hér í Norðausturkjördæmi eða á landsvísu með þessa skoðun sem kemur sér illa, einkum fyrir þá á Vopnafirði. Enn fjölgar málum sem skilur að vinstriflokkanna og vandséð hvernig slík stjórn getur verið trúverðug komist hún á lappirnar á næstu dögum án Framsóknar.

Ekki er auðvelt að sjá hvernig muni ganga að ná slíkri stjórn saman þegar hún talar sig í sundur í hverju lykilmálinu á eftir öðru.

mbl.is VG gegn olíuleit á Drekasvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband