Össur valtur í sessi - öflug skilaboð

Pólitísk staða Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, getur varla talist sterk eftir útstrikanirnar í kosningunum um síðustu helgi. Niðurstaða prófkjörsins var niðurlægjandi fyrir hann, en fall úr leiðtogasætinu hefði verið nálægt pólitískum endalokum hans. Hefði Össur fengið skellinn og misst bæði leiðtogastöðuna og fyrsta þingsæti kjördæmisins hefði nýliðinn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir komið í hans stað - varla hefði Össur verið ráðherraefni áfram eftir slíkan rassskell. Þvílík niðurlæging!

Greinilegt er að Össur er í mjög vondri stöðu. Kjósendur Samfylkingarinnar vantreysta honum greinilega mjög fyrir leiðtogahlutverki. Ekki aðeins rétt marði hann sigur í prófkjöri heldur fékk hann skell í kosningunum frá baklandinu í flokknum. Ætli þetta sé ekki síðasta kjörtímabilið hjá Össuri á þingi?


mbl.is Össur var næstur falli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgleg leiðarlok hjá Líf

Sögulokin hjá Líf blessaðri fyrir austan eru óneitanlega mjög tragísk og ömurleg. Eftir alla baráttuna eru leiðarlokin erfið fyrir þá sem börðust fyrir því að hafa hreindýrskálfinn hjá sér, tóku slaginn við kerfið ópersónulega og kuldalega. Mér fannst mjög ómerkilega að verki staðið og vildi sýna stuðning í verki með skrifum hér um daginn.

Þannig er það með dýrin að hægt er að þykja jafnvænt um þau og nánustu fjölskyldumeðlimi. Böndin verða oft mjög sterk. Þau á Sléttu geta verið stolt af baráttunni við kerfið, þau vöktu athygli á innsta þankagangi í kerfinu og hversu mikilvægt er að láta það ekki yfir sig ganga baráttulaust.

mbl.is Dagar Lífar taldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur fella Guðlaug Þór af leiðtogastóli

Mér finnst kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður senda mjög sterk skilaboð með því að fella Guðlaug Þór Þórðarson af leiðtogastóli í kjördæminu og lækka hann í tign í kjölfar styrkjamálsins. Milliliðalaust hafa flokksmenn og kjósendur listans látið skoðun sína í ljós í kjörklefanum. Þetta hlýtur að teljast milliliðalaust lýðræði allavega.

Sjálfstæðismenn gera betur en Samfylkingarmenn sem þorðu ekki að lækka Steinunni Valdísi eða Helga Hjörvar í tign eftir styrkjaumræðuna. Ég fagna því mjög að siðferði í stjórnmálum séu stóru skilaboðin frá þeim sem kusu Sjálfstæðisflokkínn í Reykjavík á kjördag.

mbl.is Guðlaugur Þór niður um sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klaufaleg og ómerkileg framkoma hjá forsetanum

Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, varð illa á í messunni þegar hann snupraði og sveik sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi um fálkaorðuna þegar hún var á leið til Bessastaða til að veita henni viðtöku. Vinnubrögðin eru viðvaningsleg og klaufaleg - ekki sæmandi manni sem hefur verið á forsetastóli í þrettán ár og er embættinu til háborinnar skammar.

Þetta eru enn ein klúðurslegu mistökin hjá Ólafi Ragnari á skömmum tíma. Rifrildi forsetahjónanna fyrir framan fjölmiðla, misvísandi skilaboð til erlendra blaðamanna um viðkvæm málefni eftir bankahrunið og viðvaningsleg og klaufaleg ummæli á fundi með erlendum sendimönnum hafa skaðað embættið.

Auk þess er forsetinn illa skaddaður vegna þess hvernig hann dansaði í kringum auðmennina sem settu þjóðina á hausinn. Trúverðugleiki hans er stórlega skaddaður og ekki undrunarefni að stór hluti landsmanna vilji að hann fari frá sem fyrst.

mbl.is Svikin um Fálkaorðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband