Smáralind í ríkiseigu

Táknrænt er það fyrir ástandið í samfélaginu að Smáralindin, ein stærsta verslunarmiðstöð landsins, sé komin í ríkiseigu. Þetta eru enn ein táknrænu tímamótin sem eru að eiga sér stað. Staða fyrirtækjanna er ekki beysin um þessar mundir og ekki að sjá að neitt sé að rætast úr því, aðeins að fara á verri veg. Ekki fögur teikn á lofti allavega.

Nafnið á nýja eignarhaldsfélaginu er samt ansi skondið, Icarus. Kaldhæðni í þessu nafnavali. Er verið að segja að það hafi verið varhugavert að fljúga of hátt? Annars hef ég ekki notið þess að versla í Smáralindinni á síðustu árum.

Farið þangað frekar sjaldan og valið frekar Kringluna ef ég hef farið í verslunarmiðstöðvar. Annars leiðist mér fátt meira en að fara í stórar verslunarmiðstöðvar. Nýt þess meira að fara í litlar verslanir með örlítið meiri sál.

mbl.is Saxbygg í gjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brenglað siðferði klappstýru útrásarvíkinganna

Mér finnst það algjör brandari að klappstýra útrásarvíkinganna og ferðalangur þeirra í einkaþotunum sé að leggja öðrum siðareglur í kjölfar efnahagshrunsins og sé eins og hvítþveginn siðapostuli í ræðustól þingsins. Kanntu annan betri? Staðreyndin er sú að sameiningartákn þeirra sem hafa lagt þjóðina í rúst situr enn eftir á stóli sínum. Siðferði hans er brenglað. Hann er ekkert leiðarljós fyrir þjóðina í vandræðum hennar.

Veit ekki hvort einhverjir láta glepjast af frasablaðrinu og ruglinu í þessum tækifærissinna. Byltingarandarnir beindust aldrei að þessu andliti útrásarinnar. Hann situr enn eftir á sínum stóli. Þó er ekki þar með sagt að hann hafi haldið haus í kjölfarið. Þetta er umboðslaus maður með stórlega skaddaðan sess - farandgrínisti á ofurlaunum.

mbl.is Þjóðin tók valdið í sínar hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirring og miðstýrðar ákvarðanir

Mér finnst það flott hjá Neytendasamtökunum og Samtökum atvinnulífsins að taka slaginn við Ögmund Jónasson vegna sykurskattsins. Fádæma heimska er að halda að skattlagning lagi tannskemmdir barna. Þetta rugl ætti að vera blaður úr fortíðinni en ekki stefnumótun til framtíðar. Trúir því einhver að miðstýrðar ákvarðanir geri það að verkum að neyslumynstrið breytist. Hættir fólk að kaupa sér gos vegna skattlagningar? Trúir því einhver að það lagi einhvern vanda með tannskemmdir?

Hvernig er það annars; hefur ekki Ögmundur heyrt um sykurlausa gosdrykki? Eða Aspartam? Ég held að Ögmundur greyið verði að líta út fyrir glerkúluna sína til að sjá heildarmyndina. Er þessi ráðherra virkilega svo einfaldur að kenna eingöngu sykruðum gosdrykkjum um hrakandi tannheilsu? Er þetta ekki þá bara vandamál foreldranna? Eigum við kannski að setja á sérstakan foreldraskatt til að tryggja að þeir fari nú að ala upp börnin sín?

Svona svo alveg öruggt sé að þau fari nú ekki gegn miðstýrðu valdi ríkisins...

mbl.is Gagnrýnir hugmyndir um sykurskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Samfylkingin að múrast inni með ESB-tillöguna?

Ef marka má yfirlýsingar Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eru hverfandi líkur á því að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur muni samþykkja drög utanríkisráðherra að þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að ESB. Þeir hafa málið í höndum sér, enda er varla þingmeirihluti fyrir málinu hjá vinstristjórninni þar sem allavega fimm, gott ef ekki nokkuð fleiri, þingmenn vinstri grænna munu greiða atkvæði á móti. Borgarahreyfingin hefur fjögur þingsæti en ólíklegt er að þau ráði úrslitum í kosningunni.

Líklegast er að stjórnarandstaðan sé að sækja sér meiri áhrif í tillöguna eða sé einbeitt í að niðurlægja ríkisstjórnina, skilja Svarta Pétur eftir hjá þeim að hafa ekki náð fullri samstöðu um tillöguna. Þeir eru að leita til stjórnarandstöðunnar því þau hafa ekki þingmeirihluta í þessu máli og verða að semja. Vinstri grænir seldu hugsjónir sínar og sannfæringu fyrir ráðherrastólana og það er óneitanlega mjög mikill vandræðabragur á verklagi þeirra í málinu öllu. Lítið fer fyrir hugsjónatali þeirra sem var auglýst út um allt fyrir kosningar.

Ríkisstjórnin er sködduð í þessu máli. Nú reynir á hversu langt hún muni ganga að auki. Enda eru skilaboð stjórnarandstöðuflokkanna tveggja þau að ekki sé nógu langt gengið og þeir vilji annað hvort heilsteyptari samstöðu eða hafa meira með orðalag og umgjörð þingsályktunartillögunnar að segja. Með öðrum orðum; þeir eru að sækja sér þau áhrif að stjórna málinu í gegnum klofning stjórnarinnar.

mbl.is Rökstuðninginn skortir ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband