Trúverðugleiki Gylfa í molum

Ég held að flestir geti verið sammála um að Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, hafi komið afleitlega út í Kastljósi kvöldsins. Get varla séð hvernig hann getur setið áfram í ríkisstjórn, hann er algjörlega landlaus og rúinn trausti eftir nýjustu vendingar.

Þetta eru raunaleg endalok hjá utanþingsráðherranum sem sóttur var sérstaklega í viðskiptaráðuneytið til að ljá vinstristjórninni trúverðugleika og vera henni akkeri á þeim vettvangi þar sem hún væri veikust fyrir.

Nú er Gylfi orðinn dragbítur á löskuðu vinstristjórnina. Get ekki séð hvernig hann getur varið sig með útúrsnúningum öllu lengur. Hann var lengi meðhöndlaður með silkihönskum en þeir dagar eru sannarlega liðnir.

Nema að vinstriflokkarnir ætli að verja lengur ráðherrann umboðslausa sem situr í þeirra umboði. Spurning hvort þeir leggi í það eins og komið er málum. Efa það.


mbl.is Mátti ekki dreifa minnisblaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spaugstofan hættir - stofnun í svelti

Að vissu leyti er mikil eftirsjá af þáttum Spaugstofunnar. Þetta er einn langlífasti þáttur íslenskrar sjónvarpssögu og skipar óumdeilanlega mikinn sess í sögu gamanefnis hérlendis. Spaugstofan hefur þorað að vera gagnrýnin og oft fetað ótroðnar slóðir, verið ögrandi og ófeimin við að vega mann og annan viku eftir viku á kjörtíma í sjónvarpi. Þeir hafa bæði styrkt stjórnmálamenn og slátrað þeim pólitískt með kómík sinni. Flestir muna eftir hvernig Pálmi fór með Halldór Ásgrímsson.

En endalokin koma ekki að óvörum. Ríkisútvarpið er í miklu peningasvelti og þar er horft í hverja krónu, þó deila megi hvort allt sé skynsamlegt í ákvörðun yfirstjórnarinnar þar. Sú ákvörðun að slátra svæðisstöðvunum, eyðileggja þar með áratugastarf í miðlun fréttaefnis af landsbyggðinni, og kippa eina fréttaskýringarþættinum í sjónvarpi úr sambandi var umdeild, enda röng og afleit. Mun betra hefði verið að kippa Rás 2 úr sambandi, stöð sem hefur litla sem enga sérstöðu.

Spaugstofan lifir áfram, hvort sem hún fær nýjan stað í sjónvarpi eða verður til í öðru formi gamantúlkunar. Hún hefur markað sér sess í huga þjóðarinnar.

mbl.is Spaugstofan lifir áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vissi Gylfi ekki hvað gerðist í ráðuneyti hans?

Þegar Gylfi Magnússon var fenginn í ríkisstjórn sem utanþingsráðherra í viðskiptaráðuneytið var það undir yfirskini þess að hann væri fræðimaður sem hefði mikið fram að færa, sérfræðiþekkingu og umfram allt þann trúverðugleika sem skorti í viðskiptaráðuneyti Björgvins G. Sigurðssonar sem flaut sofandi að feigðarósi.

Eftir að hafa setið í ráðuneytinu í eitt og hálft ár eru flestir farnir að efast um sérfræðiþekkinguna sem þótti svo mikilvægt fararnesti og trúverðugleikinn er svo gott sem farinn. Eftir stendur strípaður utanþingsráðherra með ekkert bakland. Hann er orðinn algjört rekald í því lánlausa hrói sem þessi vinstristjórn er.

Hver getur trúað því að viðskiptaráðherra með svo mikla þekkingu á málum og þá yfirsýn sem skorti hjá Björgvini G. Sigurðssyni viti ekkert hvað er að gerast í hans húsi. Er það virkilega svo að hann sé svo sljór og slappur að hafa algjörlega brugðist eða er hann einfaldlega að ljúga að þjóðinni?

Pressan hlýtur að rekja þá slóð vilji hún standa undir nafni. Eða er Gylfi kannski jafn slappur viðskiptaráðherra og Björgvin greyið? Hver ætlar að bera ábyrgð á þessum landlausa ráðherra öllu lengur? Ætla VG og Samfylkingin að senda björgunarþyrluna eftir honum?

mbl.is Vissi ekki af áliti Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband