Aukin spenna í einvíginu um Downingstræti 10

Aukin spenna hefur færst í leiðtogaslag breska Íhaldsflokksins eftir aðra umferðina í kjörinu nú síðdegis. Boris Johnson bætti við afgerandi forystu sína - með 80 atkvæði umfram næsta mann, utanríkisráðherrann Jeremy Hunt. Stóru tíðindin felast þó í því að nýliði á ráðherrabekk flokksins, Rory Stewart - sem að mörgu leyti er óskrifað blað og nýtt andlit í forystukapalnum, tekur átján atkvæða sveiflu milli umferða og er kominn í seilingafjarlægð frá reynsluboltunum í ráðherrasveitinni, Hunt og Gove. 

Baráttan um annað sætið, farmiðann í póstkjör meðal almennra flokksmanna við hlið Johnson, er galopin. Greinilegt er að vatnaskil hafa orðið síðustu daga - Theresa May og lykilsveit hennar í D10 styður Stewart. Stuðningsfirlýsing Lidingtons, varaskeifu May, við Stewart um helgina færði honum klárlega sveiflu auk þess sem hann kom líka best út í gloppóttri kappræðu um helgina auk Boris sem mætti reyndar ekki. Johnson er aftur á móti líklegur til að smala í sína sveit öllu stuðningsliði Dominic Raab sem datt út í dag.

Panikk í herbúðum Hunt hefur líka aukist eftir að honum mistókst þrátt fyrir kjarnastuðning að komast yfir fimmtíu atkvæða múrinn í fyrstu umferð. Enn tekst honum það ekki - segir ansi margt um í hvaða segl byrinn blæs. Hunt bætti við sig þremur og Gove fjórum. Það gerir lítið fyrir þá - allt í einu þurfa þeir nú að berjast við að halda sinni sveit saman í stað þess að líta fram á veginn. Sajid Javid skvísaði sig mjög naumlega í gegn og dettur líklega út næst og verður barist hart um atkvæði hans.

Annars er enginn af þeim fjórum óhultur og enn innistaða til mikilla breytinga. Kappræðurnar í kvöld hafa líklega nokkur áhrif - þá mætir risinn í slagnum til leiks og þarf þá að takast á við ráðherrana fjóra. Allir munu þeir reyna að ná höggi á hann og máta sig í einvígið með honum - verður áhugavert að sjá þann slag. Greinilegt er að kjarnastuðningurinn leitar til Stewart - þar hafa orðið vatnaskil í þá átt að Hunt eigi ekki séns í Boris og setja sitt pund undir á nýliðann.

Einvígi milli Boris Johnson og Rory Stewart yrði reyndar ansi leiftrandi enda mikill munur bæði á reynslu þeirra og veganesti fari svo að þeir taki slaginn saman á landsvísu í flokknum. Þó er margt á huldu um Stewart, hávær orðrómur um að hann hafi verið njósnari MI6. Pressan á honum vex við velgengnina og eflaust munu Hunt og Gove taka hann fyrir líka eigi þeir ekki að falla afturfyrir nýliða í goggunarröðinni.

Svo er reyndar stóra spurningamerkið hvort stuðningslið Johnsons fái einhverja til að kjósa taktískt til að halda frekar Javid í slagnum og reyni að veikja Stewart - velji með því að lokum hver fer í einvígið með honum.


Bloggfærslur 18. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband