Boris hálfnaður í mark - ráðherraslagur um sæti í einvíginu

Boris-rest

Tvennt hefur skýrst að lokinni þriðju umferð í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins nú síðdegis - afmælisbarnið Boris Johnson hefur nú nærri hálfan þingflokkinn að baki sér og kominn ansi nálægt ráðandi stöðu í baráttunni, getur ráðið með taktískum hætti hverjum hann mætir, með 143 atkvæði, 90 fleiri en næsti maður, forveri hans á utanríkisráðherrastóli Jeremy Hunt, og skrautlegri vegferð Rory Stewart lýkur nú eftir óvænta sveiflu í annarri umferð. Greinilegt var að slátturinn á Stewart stuðaði æði marga og frammistaða hans í kappræðunum í gær gaf til kynna að nýliðinn á ráðherrabekknum væri of reynslulaus, með of umdeilda sýn fyrir grasrót flokksins og rembingurinn fældi líka.

Eins og ég spáði réttilega í gær var sótt fast að bæði Boris Johnson og Rory Stewart í umræðu- þættinum. Johnson stóð af sér atlöguna með stæl, greinilega undirbjó sig vel, hvorki gekk í gildrur né lét espa sig upp á meðan Stewart þótti rembingslegur með stellingum á sínum háa stól og þegar hann tók bindið af í umræðu meðframbjóðendanna. Bæði Hunt og Gove voru öryggið uppmálað - þeir eru nú líklegir til að berjast æ meir um bakland Stewarts sem missti 10 atkvæði milli umferðanna.

Sajid Javid hélt velli í þriðju umferðinni og bætti eflaust við sig taktískum stuðningi frá Boris- liðinu sem vildu losna við Stewart auk þess sem einhverjir úr baklandi nýliðans hafa orðið sannfærðir um að reynslumeiri kandidat þyrfti gegn Johnson. Baráttan um sæti í einvíginu er enn galopin milli Hunt og Gove. Báðir fóru þeir nú yfir 50 atkvæði en enn 90 atkvæðum á eftir risanum í slagnum. Nú reynir á hvert May-kjarninn hallar sér - May hefur átt gott samstarf við Jeremy Hunt og ekki ósennilegt að hann taki nú sveiflu þó óvarlegt sé að telja Gove af.

Stewart gæti nú orðið kingmaker í baráttunni um einvígið - sá sem hreppir stuðning hans fer langleiðina í lokaslaginn með Boris Johnson. Ekki má heldur gleyma Sajid Javid sem gæti átt enn stærri rullu í lokarimmunni um einvígið.

Á morgun ráðast úrslitin - þá verða tvær umferðir til að fá úr því skorið hverjir fara í lokaslaginn: einvígið í póstkosningu meðal almennra flokksmanna um lyklavöldin í Downingstræti 10.


Bloggfærslur 19. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband