Boris Johnson og Jeremy Hunt berjast um Downingstræti 10

Jeremy Hunt hafði naumlega betur í baráttunni við Michael Gove um sæti í einvíginu við Boris Johnson um lyklavöldin í Downingstræti 10 nú síðdegis - skvísaði sig áfram í kosningu meðal 130.000 félagsmanna með aðeins tveggja atkv. mun. Boris Johnson bætti litlu sem engu við milli umferða í dag - aðeins þrír þingmenn fóru yfir til hans. Plottið varð því greinilega ofan á - afgerandi staðfesting um örugg tök arkitekta Boris í öllu ferlinu bakvið tjöldin eins og komið var inn á í fyrri grein minni í dag.

Gavin Williamson, sem fimlega stýrði baklandi Theresu May í leiðtogaslagnum og sat við skör hennar sem meirihlutasvipa í þinginu og síðar sem varnarmálaráðherra þar til hann féll í ónáð í vor þegar Maísól May blóðroðnaði, stýrði af talnafimi og klókindum kosningabaráttu Boris í þingferlinu af miklu öryggi. Engin feilnóta var þar slegin - ferlið umferð af umferð var eins og listilega skrifuð, leikstýrð og leiktjaldahönnuð leiksýning frá upphafi til enda. Ferlið allt féll allt með Boris Johnson.

Blóðugt örlagafall Michael Gove í lokarimmu þingferlisins áberandi hönnuð og unnin bæði af persónulegri og pólitískri hefnd á lykilmómenti eftir fræga svikastungu gegn Boris Johnson. Þetta er eiginlega snilldar lokaspil í löngum og harðvítugum átökum. Gove fer afar sár af velli í þessu tapi og óvíst um hvert hann ber næst niður í pólitísku plotti til að halda velli. Gove tók stóran skell eftir svikin við Boris 2016, tekinn úr ráðherrasveitinni af May en fann glufu inn eftir að May mistókst að halda þingmeirihluta 2017 - þótti betra að hafa sverð hans á vísum stað. Nú þarf hann að hefja sömu endurreisn aftur.

Óvarlegt er að útiloka að Jeremy Hunt eigi séns í baráttunni um atkvæði í grasrótinni næstu vikurnar þó Boris Johnson hafi flesta þræði fimlega í höndum sér. Með honum fylgir mjög mikilvægur kjarnastuðningur - aftur á móti mistókst honum á eigin forsendum að tryggja sig í lokaslaginn langa. Boris hefur afgerandi stuðning í grasrótinni og útlit fyrir að hann vinni með yfirburðum. Maskína hans er vel smurð og til í átök næstu vikur - þingslagurinn sem áður var talinn vegatálmi á leiðinni varð glansferð hin mesta og vel skipulögð.

Fimm vikur er langur tími í pólitík - slagurinn á milli utanríkisráðherranna í valdatíð Theresu May um hver verði eftirmaður hennar verður þó miklu settlegri og rólegri með Jeremy Hunt sem keppinaut Boris Johnson en hefði orðið í sálfræðiþrillerstríði við Gove. Boris virðist því á sigurbraut - án stórra mistaka er nokkuð öruggt að hann verði næsti forsætisráðherra Bretlands og taki hið blóðuga kefli May í Brexit-málinu, hinn þunga pólitíska kaleik í fangið.


Boris með fullnaðartök í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins

Boris Johnson gnæfir æ meir yfir leiðtogaslag Íhaldsflokksins eftir fjórðu umferð í kjörinu um næsta húsbónda í Downingstræti 10 í morgun - hefur nú hlotið meirihlutastuðning þingmanna, með tæp 100 atkvæði á næsta mann. Michael Gove komst nú uppfyrir Jeremy Hunt þó ekki muni nema tveimur atkvæðum. Í nokkrar vikur hefur blasað við að slagurinn um farmiðann við hlið Boris standi á milli Hunt og Gove. Fjórða umferðin boðar því engin stórtíðindi, enda var Sajid Javid ólíklegur til að komast framfyrir þá.

Eftir að Hunt mistókst að stinga félaga sína af í ráðherrahópnum í baráttunni um lykilstuðning andstæðra afla í flokknum til að stöðva Boris hefur maskínan í framboði hans hökt mjög og átt erfitt með að ráða við spunann til að efla stöðu Hunt og ná að smala á bakvið tjöldin svo ná megi nægilegu frumkvæði í baráttunni. Gove er rammklókur og hefur unnið fimlega við að fylkja liði Rory Stewart með sér. Þó hann nái nú öðru sætinu eru blikur á lofti um hvort hann nái stuðningsmönnum Sajid Javid nægilega í sitt lið.

Hunt-liðið reynir nú fyrir á lokasprettinum að vinna sér fylgi með því að vara við einvígi Boris Johnson og Michael Gove - sálfræðitryllinum á milli fjandvina sem eiga jú bæði pólitískra og persónulegra harma að hefna. Boris Johnson mun seint fyrirgefa svik Michael Gove sumarið 2016 í aðdraganda síðasta leiðtogakjörs þegar hann stakk Brexit-félaga sinn og skólabróður í bakið með kaldrifjuðum hætti með framboði sínu gegn honum. Boris hætti þá við hasarinn sem í uppsiglingu var - hefur þó síðan brýnt alla sína hnífa og safna liði í átökin sem nú standa, og það mjög fimlega í ráðandi stöðu.

Með þeirri stöðu hefur hann getað skipulagt hvaða egó lifa og deyja í átökunum. Hávær er orðrómurinn um að hann hafi lánað atkvæði til að velja úr hverjir detti út og á hvaða tímapunkti - mikið er skrafað um að slagurinn sé allur þaul- skipulagt pólitískt leikrit um hverjum best sé að mæta út á akrinum á meðal grasrótarinnar í flokknum. Boris Johnson vilji forðast sálfræði- stríð við Gove á þeim akri og frekar mæta Hunt í rólegri átökum sem betur sé við ráðið - vilji því losna við Gove nú síðdegis.

Úrslit lokaslagsins í þingflokknum munu svara þeirri spurningu hversu taktískt hafi verið unnið - bæði hversu nálægt stuðningi Theresu May í lokaumferðinni 2016 Boris fari (um 200 atkv.) og hversu hörð rimman verði næstu 30 daga í einvíginu. Þar vilji hann vera einn fulltrúi harðs Brexit og forðast óþarfa blóðugt sálfræðistríð með því að lána Hunt nokkur atkvæði.


Bloggfærslur 20. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband