Vonbrigði Jóns Baldvins

JBH Það er öllum ljóst sem sáu Jón Baldvin Hannibalsson í litríku viðtali í Silfrinu í dag að hann er mjög vonsvikinn yfir pólitískri stöðu Samfylkingarinnar. Hann talaði hreint út og fór ekki leynt með skoðanir sínar á því hvað væri að hjá flokknum í aðdraganda þingkosninga, sem virðast dæmdar til að tapast fyrir flokkinn nú, enda mælist Samfylkingin nú aðeins með um eða rétt yfir 20% fylgi.

Vonbrigði flokksmanna eru að brjótast fram af krafti þessa dagana. Það er skiljanlegt, flokkurinn virðist enda heillum horfinn, með talsvert minna fylgi nú en á sama tímapunkti fyrir fjórum árum með núverandi formann flokksins sem sérstakt forsætisráðherraefni við hlið þáverandi formanns, frægt leiðtogatvíeyki sem síðar tókst á um formennskuna með snörpum hætti. Þá þótti formaðurinn sterkt leiðtogaefni en pólitísk staða hennar hefur veikst umtalsvert eftir því sem liðið hefur á kjörtímabil. Deilt er um afrek hennar sem formanns. Staða flokksins nú er erfið, sé litið á það að kosningar eru eftir aðeins 100 daga.

Það er skiljanlegt að Jón Baldvin sé innilega vonsvikinn með stöðu mála. Jón Baldvin hélt, að því er virðist, í pólitíska útlegð fyrir áratug, umfram allt til að liðka til fyrir stofnun Samfylkingarinnar. Hann varð sendiherra á erlendri grund. Talað var um þingframboð hans þrátt fyrir það í nafni flokksins í aðdraganda kosninganna 2003 og aftur nú við þingkosningarnar 2007. Það hlýtur að vera honum áfall að Samfylkingin sé ekki öflugri nú þegar að hann snýr aftur heim. Það virðist ekki þurfa minna en pólitískt kraftaverk til að skila flokknum og formanni hans heilum í höfn með vori.

Það skynjar enda Jón Baldvin og því eru vonbrigði hans skiljanlegri en ella. Hann virðist mjög ósáttur við framboðslista flokksins. Lítil endurnýjun varð; utan þess að nýjir kjördæmaleiðtogar án þingreynslu komu til sögunnar í Norðvestri og Kraganum. Ekki virðist JBH vera ánægður með liðsheildina sem að ISG heldur með til kosninganna og greinilega ósáttur með ásýnd flokksins. Vangaveltur hans um það hver sé talsmaður flokksins í efnahagsmálum voru mjög merkilegar og tók ég sérstaklega eftir því. Er það nema von að hann spyrji sig þeirrar spurningar.

Sérstaklega var merkilegt að hann viðraði möguleikann á nýjum flokki - hann var greinilega hundóánægður með Samfylkinguna og það sem þar er að gerast og eru hugmyndir hans um nýtt framboð sérstaklega athyglisverðar. Nefndi hann til sögunnar fjölda fólks sem orðað hefur verið við framboð. Svona einskonar all stars framboð á vinstrivængnum. Merkilegar pælingar.

Er kannski JBH að leggja drög að pólitískri endurkomu af versíón dr. Gunnars Thoroddsens, pólitíska leiksnillingsins sem sneri aftur úr pólitískri kyrrþey á gamals aldri og varð Nestor íslenskra stjórnmála um árabil eftir fyrri pólitísk endalok? Hann stóð á sjötugu er hann varð forsætisráðherra, elstur íslenskra stjórnmálamanna. Tja, það er ekki nema von að spurt sé.

Hann virðist allavega gefa skýr skilaboð um að hann vilji ekki sökkva til botns með pólitískum ferli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, svo mikið er víst. Skilaboðin virðast skýr - hann var hvass, reiður og innilega vonsvikinn allt í senn. Það er eitthvað mikið greinilega verið að pæla þarna úti í sveit hjá þeim mætu kratahjónum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill Óskarsson

Það sem mér finnst merkilegast er það að Jóni skuli detta í hug að það sem muni virkilega sameina jafnaðar- og vinstri menn á Íslandi sé enn eitt framboðið af þeim vængnum, og þá sérstaklega framboð sem sé runnið undan hans rifjum. Eru VG og þeirra stuðningsmenn eitthvað sérstaklega hrifnir af Jóni og hans pólitískur arfleið?

Egill Óskarsson, 29.1.2007 kl. 03:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband