Brilljant hugmyndir og líflegar pælingar

AkureyriÍ gærkvöldi fór ég á áhugaverðan fund stjórnar Akureyrarstofu í Ketilhúsinu, þar sem kynnt var stefna og markmið hennar. Stofnun Akureyrarstofu hefur verið í undirbúningi síðustu mánuði og er á lokaspretti. Fyrst og fremst verður Akureyrarstofa markaðs-, menningar- og ferðamálaskrifstofa Akureyrarbæjar og mun aðallega einbeita sér að Akureyri en verða vissulega jafnframt þátttakandi í samvinnuverkefnum í nágrenninu og annars staðar.

Fundurinn hófst lóðbeint eftir leik Íslendinga og Dana og var visst spennufall í hópnum sem var samankominn, en þetta var fjölmennur og fínn fundur. Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður stjórnar Akureyrarstofu, stjórnaði fundi og stýrði umræðum um Akureyrarstofu í lok fundarins. Í upphafi flutti Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri og fyrsti formaður Akureyrarstofu og fyrrum formaður menningarmálanefndar, sem lögð var niður með stofnun Akureyrarstofu, grunnhugmyndir meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um það hvernig vinna skuli að verkefninu.

Eftir erindi Sigrúnar Bjarkar bæjarstjóra kynnti Þórgnýr Dýrfjörð Akureyrarstofu svo formlega af hálfu starfsmanna hennar. Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður, grunnhugmyndir og pælingar um það sem almennt gengur alþjóðlega undir heitinu "Slow city" eða "Cittaslow" en sú hugmynd hefur skotið upp kollinum að Akureyri skapi sér sérstöðu með markaðssetningu undir þeim hatti. Voru hugmyndir Hólmkels líflega fluttar og margir góðir punktar og pælingar í því. Hann allavega seldi mér hugmyndina gjörsamlega.

Ég varð skotinn í þessum pælingum alveg upp fyrir haus og vil hiklaust að bæjaryfirvöld feti þessa slóð, enda fannst mér lýsingarnar á rólegheitabænum sem Slow City segir frá passa nánast algjörlega við gömlu góðu Akureyri. Gárungarnir fóru reyndar hiklaust að kalla þetta Latabæ, eftir frægu konsepti Magnúsar Scheving, á fundinum að kalla þetta Latabæ en það mun nú ekki festast við svo glatt tel ég. Það var þó allavega mikið hlegið af þessu og léttur andi var yfir ræðu Hólmkels. 

Eftir kaffihlé þar sem tími gafst til líflegs og góðs spjalls um pólitík og boltann hófust svo umræður um Akureyrarstofu og þær hugmyndir sem voru í deiglunni á fundinum. Þetta var lifandi og góður fundur. Þarna komu fram margar hugmyndir og líflegar pælingar sem safnast í sarpinn. Er ánægður allavega og tel þetta vel heppnað, þó vissar efasemdir hafi verið í huga mér um Akureyrarstofu í grunnhugmyndum. En það hefur verið skerpt á hlutverki hennar og þetta verður velheppnað.

Mér hefur alltaf þótt vænt um Akureyri og viljað veg þessa sveitarfélags sem mestan. Ég er þess fullviss að Akureyrarstofa muni hlúa að þeim þáttum vel sem henni er ætlað og hún mun marka góðan grunn í menningar- og markaðsmálum hér í sveitarfélaginu. Það er allavega góð samstaða allra íbúa hér um þessar áherslur ef marka má fundinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán. Nafni þinn Gíslason umhverfisfræðingur sem stýrir Staðardagskrá 21 hefur þýtt þetta hugtak Citta Slow með orðinu "hæglætisbær". Það finnst mér ágætt, líka væri hægt að kalla þessa bæi "rólyndisbæi" á íslenskunni.

 Jón

Jón (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 12:49

2 Smámynd: Hlynur Hallsson

Þetta er afar áhugavert og fullkomlega í anda Vinstri grænna. Sem sagt gott mál og hvort sem Akureyri verður rólyndisbær eða hæglætisbær þá er ég kátur. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 1.2.2007 kl. 14:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband