Þingmaðurinn sem Samfylkingin hafnaði

Guðrún Ögmundsdóttir Ég horfði á hádegisviðtalið á Stöð 2 fyrir stundu. Þar var rætt við Guðrúnu Ögmundsdóttur, alþingismann, um hið skelfilega Breiðavíkurmál. Hún talaði með skeleggum hætti um þau mál og stóð sig vel, ég var sammála henni í þeim efnum og eflaust er okkur landsmönnum öllum hrollur í huga þegar að hugsað er til þessa ömurlega máls, sem því miður hefur of lengi legið í þagnarhjúpi. Það er almenn reiði í samfélaginu vegna málsins - stjórnvöld verða að mínu mati að biðja þá sem urðu fyrir þessari grimmd opinberlega afsökunar.

Það haustar nú að hinsvegar á stjórnmálaferli Guðrúnar Ögmundsdóttur. Þessi kjarnakona í Samfylkingunni mun láta af þingmennsku eftir þrjá mánuði og halda til annarra verka. Stjórnmálaferli Guðrúnar lauk með falli hennar í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík í nóvember; hún fékk vondan skell, féll niður í ellefta sætið, og ákvað í kjölfar þess dóms að taka ekki sæti á framboðslista flokksins í komandi alþingiskosningum. Guðrún hefur verið nokkuð lengi í stjórnmálum; hún hefur setið á Alþingi frá árinu 1999 en var áður borgarfulltrúi árin 1992-1998; fyrir Kvennalistann 1992-1994 og síðar fulltrúi Kvennalistans innan R-listans eitt kjörtímabil 1994-1998.

Guðrún hefur á Alþingi verið talsmaður margra málaflokka og vakið athygli á sér fyrir að þora að fara gegn straumnum í fjölda málaflokka. Það var að mínu mati nokkuð óverðskuldað hvaða útreið hún fékk meðal eigin flokksmanna og hafi ekki fengið brautargengi þar áfram. Hafði mig vissulega lengi grunað fyrir prófkjörið að hún gæti orðið sá þingmaður flokksins sem færi verst úr prófkjörinu, en taldi þó að hún hlyti að sleppa frá falli, enda verið lengi með sterkan stuðningsmannahóp, hóp ólíks fólks. Frægt varð þegar að allt var reynt til að koma henni af þingi til að losa um þingsæti fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir, þegar að hún stóð eftir án hlutverks í stjórnmálum.

Mér fannst áhugavert að heyra hádegisviðtalið við hana á Stöð 2 í dag. Hún talaði þar fumlaust og af ábyrgð og tilfinningu um þetta umdeilda mál, sem hiklaust er mál málanna þessa dagana. Var mjög sammála því sem hún sagði þar. Þó að ég hafi stundum verið ósammála Guðrúnu í stjórnmálum verð ég að viðurkenna að mér finnst Samfylkingin verða litlausari á þingi þegar að Guðrún Ögmundsdóttir stígur af hinu pólitíska sviði eftir að flokksmenn ákváðu að skipta henni út úr þingflokknum með þessum hætti í kosningu um hverjir skipi forystusveit Samfylkingarinnar að vori.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Guðrún hefur alltaf komið vel fyrir og verið málefnaleg. Hún deilir því með öðrum geðþekkum þingmanni Samfylkingarinnar, Jóni Gunnarssyni, að hafa sofnað á verðinum gagnvart markaðsstarfi fyrir prófkjör. Þau gleymdu því að það er ekki nóg að vinna þessa vinnu vel. Prófkjörin þau eiga það til að fella góða þingmenn sem hafa það eitt til óhelgi unnið að vera ekki áberandi með kjafthátt og gaspur.

Haukur Nikulásson, 7.2.2007 kl. 14:46

2 Smámynd: Vilborg Valgarðsdóttir

Ég segi nú bara eins og Einar Bárðarson; það er lögreglumál að Guðrún skuli vera að hætta á þingi. Hún hefur talað fyrir manneskjulegum málum sem ég er hrædd um að fáir haldi áfram með þegar hún er farin. Sjáið þið einhvern?

Vilborg Valgarðsdóttir, 7.2.2007 kl. 14:52

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góð komment, gaman að lesa þau.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.2.2007 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband