Söguleg ákvörðun Ólafs Ragnars

Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að sækjast eftir forsetaembættinu fimmta kjörtímabilið er söguleg, því enginn forseti hefur setið lengur á Bessastöðum en 16 ár. Auk þess vekur mikla athygli að Ólafur, sem verður sjötugur í maí 2013, opnar opinskátt á þann möguleika að hann víki af forsetastóli á næsta kjörtímabili, en því mun ekki ljúka fyrr en í júlílok 2016.

Með þessu höfðar Ólafur Ragnar greinilega til þess að hann sé traustur valkostur í forsetaembætti meðan Alþingi, sem er rúið trausti og virðingu, klárar sitt kjörtímabil og spilin stokkuð upp í landsmálum. Held að þessi punktur ráði mestu um bæði ákvörðun Ólafs að fara fram og hann hafi fengið fjölda áskorana og stuðning í skoðanakönnunum.

Þegar á reyndi í Icesave-málinu og rúin trausti vinstristjórn hlustaði ekki á þjóðina var Ólafur Ragnar sá sem stóð í lappirnar og varði hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi. Þetta er óumdeilt að mínu mati. Margir þeirra sem höfðu áður gagnrýnt Ólaf harkalega og almennir kjósendur virtu það framlag hans.

Í ljósi þess er hann fulltrúi stöðugleika í pólitískri upplausn. Við þær aðstæður þarf öflugan forseta. Á þessum forsendum fer Ólafur Ragnar fram og segist tilbúinn að sinna verkum á forsetastóli meðan hægist um og stöðugleiki færist yfir. Auk þess opnar hann á að víkja fyrr en síðar.

Þetta er söguleg ákvörðun að öllu leyti, heiðarleg yfirlýsing um vilja til verka takmarkaðan tíma. Ólafur Ragnar kann öll þessi trix og hefur vissulega nokkuð til síns máls. Hver hefur trú og traust á því þingi sem nú situr? Veikleiki Alþingis styrkir forsetann og festir hann í sessi.


mbl.is Ólafur Ragnar gefur kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stritast við að sitja. Látum Jónas Kristjánsson hafa orðið.

"Ólafur Ragnar Grímsson hyggst stritast við að sitja, þótt þátttaka í áskorun hafi verið minni en hann vonaði. Hann er einnig orðinn að stjórnmálaflokki, sem hyggst hafa gætur á pólitíkusum næstu árin. Telur það munu ganga vel í lýðinn. Hefur löngum verið óþolandi, en nú tekur steininn úr. Jafnvel Ástþór er skárri en hann, hefur þó hugsjón. Nú þarf ábyrgt fólk að taka sig saman í andlitinu og finna farsælt mótframboð. Það ætti að vera framkvæmanlegt gegn umdeildum forseta, sem veit ekki, hvenær tími hans er liðinn. Ólafur Ragnar er af tagi Davíðs Oddssonar, pólitískur bófi, sem spilar með fávísan lýð."

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 4.3.2012 kl. 16:06

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mikið erum við sammála þarna Stefán Friðrik.///Kveðja

Haraldur Haraldsson, 4.3.2012 kl. 20:57

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vel ígrundað, Stefán Friðrik, og áberandi sönn þessi lokaályktun þín.

Jón Valur Jensson, 4.3.2012 kl. 22:01

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sammála.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 5.3.2012 kl. 11:48

5 identicon

ÓRG varði enga hagsmuni Íslands í Icesave-málinu, enda hefur hann ekkert vald til þess. Hann nýtti sér aftur á móti réttláta reiði fólks, m.a. til þess að dreifa athygli þess frá því að um árabil þjónaði hann sem sérstök klappstýra þess sama liðs og stofnaði Icesavereikninga, og flutti málið úr samningaferli yfir til dómstóla. Þar er málið nú og þar hefur ÓRG ekkert með málið að gera það -- enda óábyrgur af gerðum sínum. Þessu fylgir gríðarleg áhætta, sem yfirgnæfandi meirihluti Alþingis (allir þeir sem komu nálægt samningum um málið) var ekki tilbúin til að taka. Alls óvíst er hvernig það mál fellur; íslenska ríkið gæti verið sýknað af allri ábyrgð, og þá hefur ÓRG sparað okkur eitthvað fé (fer reyndar eftir því hvernig heimtur verða úr búi Landsbankans), það gæti verið dæmt til að greiða innistæðutryggingar með vöxtum, eða það gæti verið dæmt til að greiða alla upphæðina. Við skulum bíða með að þakka ÓRG greiðann þar til að málið verður gert upp að lokum. 

Pétur (IP-tala skráð) 5.3.2012 kl. 14:20

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það þurfti sannarlega stefnufastan mann og engan kveif til að fylgja því eftir að gefa almenningi úrslitavald í málinu. Valdstéttin hamaðist hneyksluð í Ólafi, að hann skyldi voga sér að taka sér frest til að taka ákvörðun um synjun eða samþykkt Icesave-laganna, og tjúllaðist nánast, þegar hann fór ekki að kröfum þeirra valdstéttar, heldur vísaði málinu til upprunalega valdsins.

Með höfnun Buchheit-samningsins hefur Ólafur þegar sparað okkur yfir 50 milljarða óendurkræfa vexti. Þetta er ekki lítð fé.

Pétur hinn feimni er sennilega á snærum Samfylkingarinnar ...

Jón Valur Jensson, 5.3.2012 kl. 19:37

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

ENGA kveif !

Jón Valur Jensson, 5.3.2012 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband