Nauðaómerkilegar spjallsíður nafnleysis

Ég er kominn á þá skoðun að málefnin.com sé jafnómerkilegur spjallvettvangur og Barnalandið hefur verið síðustu árin. Það hefur verið vægast sagt athyglisvert að sjá inn í innstu kviku ógeðis og mannorðsníðs sem þar blómstrar síðustu dagana. Umræða var um mig persónulega þar eftir helgina, ekki í fyrsta skiptið svosem. Hinsvegar gekk sú umræða út yfir öll mörk. Það sýnir sig vel í því tilfelli sem og fleirum að það er mjög lítil stjórn á þeim vef og hann flæðir áfram eins og stjórnlaus á í vorvindunum. Ekki geðslegt og í raun sorglegt að sjá svona ógeð í nærmynd.

Ég hef áður vikið að þeirri umræðu sem þar var í gangi. Þar vildi ég fá fram afsökunarbeiðni frá vefstjóranum fyrir að breiða út kjaftasögu sem átti við engin rök að styðjast. Seint og um síðir bað vefstjórinn, Ásthildur Cesil, mig afsökunar og það virði ég við hana. Hinsvegar stendur eftir hversu ómerkilegt var af henni að hefja þessa umræðu. Hún varð sem olía á eld gegn mér þarna. Nafnlaust lágmenningarlið hversdagsins kom þar fram og leyfði sér svo til að segja hvað sem er ógeðfellt um mig og vega að mér og minni persónu. Það var vægast sagt lítilfjörlegt.

Ég hef skoðað þennan vef frá fyrsta degi og stundum komið með innlegg þar inn. Þeir dagar eru að baki. Ég tók þá ákvörðun um leið og vefstjórinn kom með þessar ósönnu kjaftasögur og braut eigin málverjaboðorð að þar vildi ég ekki skrifa lengur. Oft hef ég tekið mér pásur og ákveðið að horfa á úr fjarlægð en oft komið þar aftur með komment. Ég ber ekki traust til þessa spjallvefs og þeirra sem stjórna honum og tel því ekki viðeigandi að ég noti hann sjálfur. Hinsvegar vildi ég svara fyrir mig í því ógeði sem beint var að mér. Annað var ekki hægt.

Þetta er stjórnlaus spjallvettvangur fjölda nafnleysingja sem fá útrás út úr því að tala illa um náungann og vega að öðru fólki. Því miður er það svo að þeir eru mest áberandi sem svo láta. Inn á milli er sómakært fólk sem kemur þar aðeins til að tjá skoðanir sínar og er mjög málefnalegt, þrátt fyrir nafnleynd. Það fólk sekkur í ósómanum sem þar svífur oft yfir. Það er mjög leitt. En því verður varla breytt. Lágkúra sumra hefur því miður stimplað þennan vef sem nauðaómerkilegan í huga mér. Við það situr.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband