Snjókorn falla

AkureyriÞað var alhvít jörð hér á Akureyri þegar að ég vaknaði í morgun. Meiri snjór og meiri kuldi en á sjálfum jólunum, en það var nærri snjólaust öll jólin. Frekar napurt, miðað við að í gærkvöldi var snjólaust og gott veður. Var að koma af fundi sem var gagnlegur og góður - alltaf gaman að hitta gott fólk og ræða málin.

Þetta hefur verið snjóléttur og góður vetur hérna á Akureyri að mínu mati, það sem af er. Það kom leiðinlegur kuldakafli snemma vetrar en hefur síðan verið gott. Jólin voru yndisleg... en enginn snjór. Ég er nú þannig gerður að einu dagarnir á hverju ári þar sem nauðsynlegt er að hafa smásnjó eru sjálf jólin. Það er allt svo miklu jólalegra með smáögn af snjó.

Það var smá hríðarfjúk núna þegar að ég kom heim. Það falla snjókorn fyrir utan gluggann minn. Mörgum finnst snjókoman vera rómantísk og notaleg, ég er svo sannarlega ekki einn af þeim. Það er hinsvegar oft gaman að fara á skíði og njóta vetraríþróttaaðstöðunnar upp í fjalli. Það hef ég þó alltof lítið gert á seinustu árum. Sennilega er þessi sæla of nálægt manni til að maður meti hana eins vel og rétt sé.

Það er allavega gott að vera kominn heim og inn úr kuldanum. Það er mjög notalegt að fá sér kakóbolla og lesa fréttirnar. Svo ætla ég að fara í það að skrifa Óskarsverðlaunaspána mína. Óskarinn er á morgun - mikilvægt að skrifa niður pælingarnar sínar um það og fara yfir. Þetta er ómissandi partur á hverju ári. Ég hef alltaf verið mikill kvikmyndafíkill og hef gaman af svona pælingum.

Þannig að nú tekur það við. Er búinn að vera viss nokkuð lengi um hvernig helstu flokkarnir muni fara og skrifa betur um það á eftir hvað ég held að muni gerast. Svo er mikill rómans yfir því að horfa á verðlaunaafhendinguna sjálfa, vaka alla nóttina. Það er ómissandi fyrir alla kvikmyndafíkla... enginn vafi á því. Get ekki hugsað mér að missa af þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband