Rússneskt klapp fyrir Steingrími J. og Katrínu

Steingrímur J. Forysta vinstri grænna var kosin með rússneskum hætti fyrir stundu. Steingrímur J. og Kata Jakobs voru einfaldlega bara klöppuð upp - rússneskara verður það varla. VG er einfaldlega flokkurinn hans Steingríms J. Þegar að VG var stofnaður sem stjórnmálaflokkur árið 1999 töldu margir það óráð hjá Steingrími J. Sigfússyni og það væri algjört hálmstrá manns sem hafði tapað formannsslag í Alþýðubandalaginu árið 1995 og yfirgefið flokkinn þrem árum síðar.

Lengi vel mældist flokkurinn varla og talin mikil bjartsýni að hann næði fótfestu. Í háðstóni var talað um Steingrím og hóp hans til vinstri sem talíbana snemma í kosningabaráttunni. Er á hólminn kom fékk flokkurinn sex þingmenn í kosningunum 1999 en missti svo einn í kosningunum fjórum árum síðar. Nú virðist hann mælast í hæstu hæðum og fróðlegt verður að sjá næstu mælingar, hjá Gallup og Fréttablaðinu á næstu dögum. Síðasta könnun Gallups gaf VG 13 þingsæti. Færi svo yrði það stórsigur Steingríms J. og hann kominn jafnvel í oddastöðu við myndun ríkisstjórnar, enda væri þá núverandi stjórn eflaust fallin.

Steingrímur J. hefur verið allt í öllu innan þessa flokks og byggt hann upp til allra verka. Enginn hefur komist nálægt honum innan flokksins og það myndi engum óra fyrir að fara gegn honum til formennsku. Ég hugsaði reyndar um daginn hvernig hefði farið fyrir VG hefði Steingrímur J. annaðhvort dáið eða slasast svo illa í bílslysinu í Húnavatnssýslu að hann hefði ekki getað snúið aftur á hið pólitíska svið. Þá hefði Katrín Jakobsdóttir staðið eftir sem formaður VG. Það hefði verið athyglisvert í meira lagi. Reyndar finnst mér öflugasti stjórnmálamaður VG vera Svandís Svavarsdóttir, Gestssonar. Þar fer kjarnakona sem mun eflaust halda í landsmálin í næstu þingkosningum.

Sumar kannanir hafa verið að sýna VG stærri en Samfylkinguna að undanförnu. Hverjum hefði órað fyrir er VG kom til sögunnar að hann myndi jafnvel eiga möguleika á eða takast að toppa Samfylkinguna? Þrátt fyrir að VG hafi náð vissum yfirburðum á árinu 2001 og mælst þá stærri en Samfylkingin hélst það fylgi ekki í kosningum, er á hólminn kom. Nú eru tæpir tveir mánuðir til kosninga og VG er að mælast í gríðarlegri uppsveiflu, aldrei minna en verandi á pari við Samfylkinguna. Það yrði sögulegt fengi VG uppsveiflu af því tagi sem Gallup sýndi fyrir um mánuði, sérstaklega ef hann toppar Samfylkinguna í Reykjavík.

Fannst merkilegt að heyra um leiðtogakjör VG... og þó, kannski á maður varla að vera hissa. Engin kosning fór fram um forystuna – flokksmönnum var ekki veitt tækifæri á að kjósa um forystuna í leynilegri kosningu. Þetta er merkilegt af flokki sem vill á pappírnum kalla sig nútímalegan - kostulegt allt saman. Hjá okkur sjálfstæðismönnum er kosning um öll forystuembætti, jafnvel þó aðeins einn sé yfirlýst í kjöri - í raun eru allir landsfundarfulltrúar í kjöri. Landsfundarfulltrúar fá afhentan auðan kjörseðil og verða þeir að skrifa nafn á hann og skila svo í atkvæðakassa.

En hjá VG eru allir bara klappaðir upp. Er nokkuð nema furða að fólk brosi yfir þessu fyrirkomulagi? Það á aldrei að vera sjálfgefið að hljóta embætti af þessu tagi. Það virðist þó vera hjá VG. Annars hef ég marga heyrt hlæja að þessu afdankaða rússneska kosningafyrirkomulagi þeirra – engin undur með það.

mbl.is Steingrímur endurkjörinn formaður og Katrín varaformaður VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Kæri Stefán, það bauð sig enginn annar fram í embætti ritara eða gjaldkera. Það buðu sig hinsvegar 18 fram í 7 manna stjórn og þar var þá auðvitað kosið leynilega og nú er verið að telja. Takk annars fyrir fögur orð í okkar garð:) Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 24.2.2007 kl. 18:13

2 identicon

Hvernig má annað vera að  hann fái  forustuhlutverkið??? Á svona sovéskri skosningu??

 En hann getur ekki stjórnað landinu. Maður sem getur ekki staðið á eigin fótum og skapar engum manni vinnu. Og þarf alltaf að vera í vinnu hjá hinu opinbera. Hverju skilar slíkur maður samfélaginu?? Útgjöldum.

klakinn (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 00:32

3 identicon

Athugaðu samt eitt Þórir, ef Sjálfstæðismenn eða þessvegna Samfylkingarmenn á landsfundi vilja sýna óánægju sýna með forystuna í verki geta þeir skilað auðu eða veitt öðrum einstaklingi atkvæði sitt og það eru afar mikilvæg skilaboð til forystunnar. Ég held það sé fullkomlega ljóst að það er stór hluti af lýðræðinu að geta sýnt vanþóknun sína með núverandi forystu, jafnvel þótt andstaðan sé ekki nægilega mikil til að einhver ákveði að bjóða sig fram gegn viðkomandi forystumanni; eins og Geir Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu eða jú Steingrími J.
Slíkt er ennfremur nauðsynlegt fyrir forystu flokksins sem þá hefur betri möguleika að skynja óánægju ákveðins hluta flokksmanna og, ef hann svo kýs, aðlagað stefnu sína til að laga þetta missætti. Þetta er hinsvegar ekki hægt hjá Vinstri Grænum - allavega ekki með núverandi fyrirkomulagi.

Það eru að sjálfsögðu kostir og gallar við slíkt lýðræði, til að mynda er það stórt atriði að andstaða við forystuna getur veikt flokkinn, sbr. t.d. Samfylkinguna núna undir forystu Ingibjargar Sólrúnar sem fékk hvað rétt rúmlega 70% fylgi í síðustu formannskosningum og stendur veikar fyrir vikið. Á móti kemur að það er mun lýðræðislegra að geta gefið þessa andstöðu í ljós og þá er bara spurningin, eru Vinstri Grænir jafn lýðræðislegur flokkur og t.d. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn? Segð þú mér?!

Andri Thorstensen (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 05:48

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg verð að segja það sem mina meiningu að Það væri sjónarsviftir af honum Steingrimi/Eg kys hann ekki en vil hafana þarna á Alþingi ræðurnar hans eru oft snild!!!!!Kveðja Halli XD

Haraldur Haraldsson, 25.2.2007 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband