Obama velgir Hillary - Giuliani eykur forystuna

Barack Obama og Hillary Rodham Clinton Barack Obama hefur saxað mjög síðustu tvær vikurnar á forskot Hillary Rodham Clinton í baráttunni um það hver verði útnefndur frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum í nóvember 2008. Það er greinilegt að æ fleiri líta á hann sem raunverulegan valkost. Ljóst er nú að blökkumenn eru í æ ríkari mæli að horfa til hans og segja skilið við Hillary og þeir hópar sem voru síður að gefa sig upp áður horfa nú frekar til blökkumannsins frá Illinois sem vonarstjörnu en Hillary.

Þetta eru vissulega mikil tíðindi - þessi mæling sýnir vel að Hillary er fjarri því örugg um útnefningu flokksins og framundan er hörð barátta. Obama virðist hafa veðjað á rétt. Hann hefur engu að tapa með framboðinu og mun aðeins styrkja sig hvernig sem fer, ólíkt Hillary sem hefur miklu að tapa nái hún ekki útnefningunni, sem flestir hafa talið hennar eftir ósigur John Kerry í forsetakosningunum 2004. Obama er ekki í ólíkri stöðu nú og John Edwards við síðustu forsetakosningar, sem maður er tekur áhættuna vitandi að hann tapar engu hvernig sem fer. Hann mun aðeins eflast og það verulega - stimplar sig inn.

Það hlýtur að fara um Clinton-hjónin í þessari stöðu. Það er alveg ljóst að tapi Hillary mun ekki aðeins hún veikjast verulega á þessari áhættu sem fylgdi framboðinu heldur líka eiginmaður Hillary, Bill Clinton, 42. forseti Bandaríkjanna. Þau munu leggja allt sitt í framboðið og sækja bæði alla peninga sem þau geta safnað og leita í allar áttir stuðningsmanna sem þau telja mögulega geta styrkt framboðið. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Hillary að stjörnurnar í Hollywood og peningamenn í Kaliforníu eru í æ ríkari mæli að horfa til Obama. Til dæmis hefur áhrifamaður í Hollywood á borð við Steven Spielberg, sem ávallt hefur fylgt þeim hjónum til þessa, veðjað á Obama.

Bill og Hillary Rodham Clinton lögðu grunn að þessu framboði með forsetatíðinni 1993-2001 og eiga víða vini og kunningja. Þau stóla nú á að það muni tryggja forsetafrúnni á þeim tíma vist í Hvíta húsinu nú. Þau munu sækja inni alla greiða sem þau mögulega geta tryggt og leita víðar en það. Það sem eitt sinn var talið sigurganga Hillary gæti nú orðið þyrnum stráð og verulega erfið. Þetta gæti orðið þrautaganga og öllum er ljóst að Hillary skaðast verulega sem sterkur stjórnmálamaður og stjörnuljómi innan flokksins með tapi. Clinton forseti veit líka hvað er í húfi. Tap fyrir nýja vonarneistanum gæti orðið þungt til lengri tíma litið. Þetta verður því verulega harður slagur - óvæginn og hvass.

Giuliani Á meðan að þessu stendur er Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóri í New York, að stinga af öldungadeildarþingmanninn John McCain á meðal repúblikana. Hann er kominn með gríðarlegt forskot og virðist á góðri leið með að tryggja sér farmiða í aðalslaginn ef fram heldur sem horfir. Það skyldi þó ekki fara svo að Giuliani feti örugga sigurbraut að farmiða flokksins í baráttuna um Hvíta húsið. Það yrði mjög athyglisvert myndi fara svo.

En þetta verða bæði sögulegar og áhugaverðar forsetakosningar. Persónulega taldi ég alltaf að Hillary myndi vinna hjá demókrötum og við myndum fá að ári eftir forkosningar að sjá loksins sögulega öldungadeildarslaginn í New York sem stefndi lengi vel í að yrði aðalslagurinn í kosningunum 2000 en varð svo aldrei af; semsagt keppni milli Hillary Rodham Clinton og Rudolph Giuliani. En maður er farinn að efast nú.

Mun Obama stela sviðsljómanum af sjálfri Hillary, taka af henni tækifæri ferilsins? Jahérna, það yrði rosaleg frétt færi svo. Það er allavega ljóst að fáir spá nú afgerandi sigri Hillary og þetta gæti orðið mjög jafnt, jafnvel svo að forsetafrúin fyrrverandi sæti eftir með sárt ennið.

mbl.is Barack Obama saxar á forskot Hillary Clintons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hillary og Giuliani munu slást um forsetaembættið. Það er næsta víst, eins og Bjarni Fel myndi segja.

Steini Briem (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 00:07

2 identicon

Ég bý hér í Bandaríkjunum og heyrði einmitt í Obama í útvarpinu í dag.  Það eru allir ferlega uppteknir af því hvort að hann geti brúað bilið milli svartra og hvítra, ég vona svo sannarlega að svo sé.  Varðandi Hillary þá er hún náttúrulega geysilega öflug, en hitt þarftu að athuga, að c.a. helmingur þjóðarinnar elskar að hata Hillary.  Bjartasta von republikana er í raun að Hillary verði í framboði fyrir demókrata.  Hún er líka farin að fara allverulega í taugarnar á mörgum demókrötum vegna afstöðu hennar til stríðsins.  Hún sækir stíft inn á miðjuna og þarf að vanda sig og pæla nánast í hverju einasta orði sem hún segir.  Á endanum gæti slíkt leitt til þess að hún yrði að nokkurs konar John Kerry sem ekki stendur fyrir neitt.  En er þjóðin tilbúin að kjósa konu eða blökkumann?  Það er stóra spurningin.  Heyrði í tveimur köllum í útvarpinu í gær og sá sem mælti fyrir munn republikana sagði eftirfarandi um þau Obama og Hillary.  "Við Republikanar vitum hvernig sigurstranglegir demókratar líta út.  Þeir líta út eins og Bill Clinton og Jimmy Carter" (þ.e. hvítir suðurríkjakarlar).  Ég vona að þeir hafi rangt fyrir sér.

Oddur Ólafsson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 00:14

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Steini: Við sjáum til, þetta verður allavega spennandi. Að öllu eðlilegu ætti Hillary að hafa þetta. En það sem er öruggt á þessum tímapunkti getur verið glatað að ári. Howard Dean þekkir þetta vel.

Oddur: Þakka þér kærlega fyrir gott komment frá Bandaríkjunum. Notalegt að fá skrif að vestan, eins og við segjum.  Er sammála þessari greiningu þinni. Stríðið er að veikja hana, hún gæti endað eins og Kerry, svona einstaklingur sem er eins og hol tunna. Kerry tapaði 2004 á þessu, enginn vafi á því. Repúblikanar spiluðu allt upp sem hann sagði. Ráku afstöðu hans til Íraks og sýndu flip-flop-ið. Merkilegt. En ég er viss um það að margir vilja miðaldra suðurríkjakall. Þar er Edwards sterkastur. Ekki viss um það. Held að annað þeirra fái útnefninguna, allavega núna séð. En kannski fer Gore aftur? Hver veit. Þetta er mjög opið og spennandi núna.

Verðum endilega í bandi Oddur og vertu ófeiminn að kommenta á bandarísku pælingarnar mínar. Gaman að heyra frá þér.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 1.3.2007 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband