Sterk staða Geirs - fleiri vilja Steingrím en ISG

Geir H. HaardeTæpur helmingur landsmanna vill að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, verði áfram forsætisráðherra að loknum þingkosningunum í vor skv. könnun Fréttablaðsins. Athygli vekur að mun fleiri vilja að Steingrímur J. Sigfússon verði forsætisráðherra en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og hefur hann um 10% meira fylgi. Stóru tíðindin hvað varðar minnkandi mælingu Ingibjargar Sólrúnar er þó án nokkurs vafa það að aðeins 20,5% kvenna vilja að hún verði forsætisráðherra, en hinsvegar örlitlu færri karlar, eða 16,7%.

Geir hefur meira fylgi nú en í sambærilegri könnun í nóvember. Nú vilja tæp 49% að hann verði áfram forsætisráðherra; 51,4% karla en 45,6% kvenna. Sterk staða Geirs á meðal kvenna vekur sérstaka athygli og hlýtur að boða gott fyrir sjálfstæðismenn að svo miklu fleiri konur í úrtakinu vilji Geir frekar en Ingibjörgu Sólrúnu. Þessi staða hlýtur að teljast góð tíðindi fyrir Geir á þessum tímapunkti, þegar að rétt rúmir 70 dagar eru til þingkosninga, en Geir hefur nú verið forsætisráðherra í tæpa níu mánuði, eða allt frá 15. júní sl. er Halldór Ásgrímsson hætti í stjórnmálum.

Steingrímur J. Sigfússon hefur tæplega tíu prósentum meira í könnuninni en Ingibjörg Sólrún. Rúmur fjórðungur, eða 25,8 prósent, segist vilja að Steingrímur J. verði næsti forsætisráðherra. Lítill munur er á afstöðu eftir kyni, en 26,8% íbúa á höfuðborgarsvæðinu nefna Steingrím og 24,3% íbúa á landsbyggðinni. Í könnun blaðsins í nóvember sögðust 16,6% vilja að Steingrímur verði næsti forsætisráðherra en 22% vildu þá Ingibjörgu Sólrúnu. Staða hennar virðist því halda sífellt áfram að veikjast.

Áhyggjuefni hlýtur að vera fyrir Framsóknarflokkinn að Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður flokksins, mælist ekki í þessari könnun. Það er greinilegt að honum hefur ekki tekist að stimpla sig inn þrátt fyrir að hafa verið formaður Framsóknarflokksins í rúmlega hálft ár og ráðherra í um níu mánuði. Þessi staða hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir Framsókn því að Halldór Ásgrímsson mældist jú alltaf þó hann hafi orðið óvinsæll undir lok stjórnmálaferilsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Ætli Ingibjörgu takist að tala Samfylkinguna niður í ekkert.

Jón Sigurgeirsson , 1.3.2007 kl. 11:32

2 identicon

Það var aðeins spurt um þessi 3, þ.e.a.s. GHH, SJS og ISG.  7% svarenda nefndu einhvern annan.   

Annars er ótrúlegt hvað SJS fær mikið fylgi þarna m.v. alla forræðishyggjuna og stöðnun atvinnuuppbyggingar (= kreppa), sem hann boðaði á landsfundi VG.  Ég tel það líklegt að Fréttablaðið hafi hringt út fyrir landsfundinn, því ég hef hingað til talið að u.þ.b. 90% þjóðarinnar sé frelsiselskandi fólk, sem hefur óbeit á forræðishyggju.

Sigurður J. (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 13:52

3 identicon

Óperan er ekki búin fyrr en feita daman hefur sungið. Og feitasti strákurinn fer ekki alltaf heim með sætustu stelpunni. Hún á það líka til að verða ólétt af minnsta tilefni.

Steini Briem (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 14:58

4 identicon

Það að flestir vilji GHH sem forsætisráðherra ætti ekki að koma neinum á óvart. Mjög traustur og vandaður maður sem er rétt að byrja sem forsætisráðherra.
Sú niðurstaða að færri vilji formann sf sem næsta forsætisráðherra en formann forræðishyggjuflokksins er enn eitt áfyllið fyrir þennan fyrrverandi borgarstjóra.
Kanski að forræðishyggjuflokkurinn verði stærri en sf.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband