....að vakna eftir áralangan dásvefn

Reversal of Fortune Það er mjög sjaldgæft að heyra af því að fólk vakni úr dái eftir fjöldamörg ár. Það er t.d. stórfrétt að kona vakni eftir sex ára svefn, en hún féll svo aftur í dá eftir nokkra daga. Fannst merkilegt að sjá fréttina um þetta, enda sá ég í gærkvöldi kvikmyndina Reversal of Fortune. Það er rosalega sterk og öflug mynd. Hún fjallar um eftirmála þess er greifynjan Sunny Von Bulow féll í dá árið 1980. Hún liggur enn í dái á sjúkrahúsi í New York, hefur sofið í tæpa þrjá áratugi, tja svefninum langa skulum við segja bara.

Enn er því haldið fram að eiginmaður hennar, Claus, hafi reynt að drepa Sunny en hann vann fræg réttarhöld, þar sem reynt var að negla hann. Deilt var um hvort að Sunny hefði reynt sjálfsvíg eða verið reynt að drepa hana. Hún var sprautuð með of stórum skammti af insúlini, en hún var sykursjúk. Enn er stóru spurningunni ósvarað hvers eðlis þetta allt var. Myndin varð mjög rómuð, sérstaklega fyrir flashback-atriðin þar sem sett eru bæði tilfellin á svið, hvort um morðtilraun eða sjálfsvígstilraun var að ræða. Virkilega vandað allt og myndin býður lesandanum fjölbreytt sjónarhorn á málið.

Það sem er einna merkilegast við myndina er hiklaust að Sunny, í gríðarlega góðri túlkun Glenn Close er sjálf sett sem sögumaður við upphaf og endi myndarinnar. Þar eru engir dómar felldir yfir því hvort sé rétt heldur málið allt sýnt og áhorfandinn dæmir sjálfur. Ég man þegar að ég sá myndina fyrst í bíó fyrir sextan árum, mikil upplifun. Keypti mér hana svo fyrir nokkrum árum og upplifði hana aftur. Sterk mynd í frásögn og túlkun aðalleikaranna. Jeremy Irons átti stórleik ferilsins í hlutverki hefðarmannsins Claus sem bæði er sýndur sem snobbaður aðalsmaður og kuldalegur eiginmaður, en það er vægt til orða tekið að sambúð þeirra var við frostmark þegar að Sunny féll í dáið. Irons hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Claus á sínum tíma, sem var mjög verðskuldað.

Ég gerði mér ferð áðan á Wikipedia til að sjá hver örlög Sunny hefðu orðið. Hún var í dái er myndin var gerð, áratug eftir að hún fannst meðvitundarlaus. Skv. alfræðivefnum yndislega er allt nákvæmlega óbreytt. Henni er enn haldið lifandi af börnum sínum, sem vilja ekki að Claus erfi hana, enda eru þau auðvitað enn gift, eins merkilegt og það hljómar eftir 27 ára dásvefn og það að hjónaband þeirra var komið rækilega á endastöð. Það var gaman að sjá myndina aftur. Leikurinn er hreinasta afbragð og myndin eldist vel. Þetta er merkilegt mál allavega.

En hvernig tilfinning ætli það sé að vakna jafnvel úr dái eftir áralangan dásvefn? Það hlýtur að vera athyglisvert, sérstaklega ef heimsmyndin manns er gjörbreytt. Mikil upplifun, en þetta er vissulega sjaldgæft. En í sjálfu sér athyglisvert að heyra af svona.

mbl.is Kona vaknar upp úr dái eftir sex ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli það sé ekki svipað að vakna úr svona löngu dái og þegar Framsókn fékk unglingaveikina um daginn vegna auðlindanna okkar, Stebbi minn.

Steini Briem (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 15:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband