Króníkan öll - blaðamennirnir fara ekki á DV

Króníkan Það eru alltaf tíðindi þegar að fjölmiðill deyr, sérstaklega ef hann deyr langt um aldur fram. Króníkan dó í vikunni sem leið, aðeins sjö tölublöð komu út undir þeim merkjum. Háleitt markmið um öflugan fjölmiðil brást og eftir standa brostnar vonir og væntingar þeirra sem töldu þetta blað geta fyllt upp í blaðamarkaðinn. Það má reyndar hugsa sig um hvort að þessi markaður sé ekki orðinn mettur og muni jafnvel fara að sverfa að fleiri blöðum.

Er blaðamarkaðurinn enn í tísku? Er ekki netið að drepa blöðin hægt og rólega? Sérstaklega blað sem fókuserar á svona kreðsur eins og Krónikunni var ætlað að gera? Má vel vera. Ég persónulega er t.d. nær hættur að lesa blöð. Les reyndar alltaf Moggann og Fréttablaðið í bítið en þar með er það nær upptalið. Ég er ekki áskrifandi að neinum blöðum utan gamla góða Moggans, enda tel ég mig fá allan fróðleik dagsins meira og minna á Netinu. Það er sú upplýsingaveita sem er ferskust og áreiðanlegust á að uppfærast eftir nýjustu viðburðum. Á hana stóli ég fyrst og fremst.

Króníkan var metnaðarfullt blað. Ég keypti mér nokkur tölublöð af henni í lausasölu. Ég fer stundum á kvöldin í 10-11, er víst svona nútímamaður að því leyti að fara þangað þegar að vantar eitthvað. Fílaði sum blöðin, önnur ekki. Varð fyrir vissum vonbrigðum með fyrsta blaðið og fannst það ekki alveg nógu gott. Gaman að lesa, en heildarmyndin var þung. Sérstaklega fannst mér djarft útspil hjá þeim að veðja á Hannes Smárason, peningamaskínu og stórlax, sem forsíðu"stúlku". En það er oft gott að veðja miklu, held þó að þau hafi ekki veðjað þar á réttan hest.

Heillaðist meira af næstu blöðum og fannst tvö síðustu blöðin gríðarlega góð. Sérstaklega var gaman að lesa áhugavert viðtal við Bjarna Benediktsson, alþingismann, og vönduð skrif Örnu Schram klikkuðu ekki. Þetta blað dó áður en það gat sannað sig endanlega. En kannski var þetta vonlaust frá byrjun? Veit það ekki, allavega dó blaðið ungt. Það varð bensínlaust á viðkvæmasta hjallanum upp brekkuna og komst aldrei fyllilega alla leið upp. Ég sá t.d. blaðastabbann alltaf fullan af Króníku þegar að ég fór í 10-11 hverfisbúðina mína. Þar varð aldrei uppselt.

Sigríður Dögg, bloggvinkona og stjörnublaðamaður, ritstýrði blaðinu. Hún er nú farin yfir á DV. Þau sem með henni unnu ætla ekki að fylgja henni þangað. Enda sé ég ekki Aðalheiði Ingu, Kristján Torfa og Örnu Schram alveg fyrir mér þar undir ritstjórn Sigurjóns M. Egilssonar í sannleika sagt. En það er leiðinlegt að Króníkan dó. Held að þeim hafi mistekist sumt en gengið vel upp í öðru. Heildarmyndin var ekki að ganga og svo fór sem fór því miður.

En það er mikið verkefni að halda í svona bissness. Það er mikið sett undir og það er spilað djarft. Þetta gekk ekki upp. En kannski er þetta byrjun á hnignun í blaðabransanum? Hver veit. Það munu eflaust margir fylgjast með því hvort að DV gangi upp sem dagblað. Er þessi markaður ekki orðinn fullmettaður? Stórt er spurt vissulega - það fylgjast allir með hvort og þá hvaða fjölmiðill falli jafnvel næstur uppfyrir í hörðum bransa.

Survival of the Fittest, er kannski réttnefni á þennan bransa núna?

mbl.is Króníkufólk fer ekki á DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

AÐ KRÓNÍKAN YRÐI EKKI KRÓNÍSK var alltaf ljóst, því þjóðin er lítil og hugsandi fólk er lítill hluti af þjóðinni.

Steini Briem (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 05:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband