Er Hillary Clinton að missa tökin á stöðunni?

Hillary Rodham Clinton Fram til þessa hefur það verið metið nær öruggt að Hillary Rodham Clinton yrði frambjóðandi demókrata á næsta ári og myndi eiga auðvelt með að næla í útnefninguna í forkosningum. En það er ekki tekið út með sældinni að vera lengi í forystu svona kapphlaups og það getur snúist upp í öndverðu sína er á hólminn kemur að lokum. Það er öllum ljóst að Barack Obama hefur sótt mjög á Hillary og eygir alvöru möguleika á því að jafnvel sigra hana er á hólminn kemur.

Fyrir forsetakosningarnar 2004 var mikið skorað á Hillary Rodham Clinton að gefa kost á sér gegn George W. Bush. Þá hefði hún getað snúið allri samkeppni upp bara með því að blikka augunum til flokksmanna. Hillary fór ekki fram enda vildi hún standa við loforð til íbúa í New York um að klára kjörtímabil sitt. Hún var hyllt sem sigurhetja væri á flokksþinginu í Boston árið 2004 og þau hjónin voru stjörnur þingsins þar sem krýna átti John Kerry sem forsetaefni flokksins í heimaborg sinni. Stjörnumáttur þeirra var þar yfirgnæfandi allt þingið, þó sérstaklega væri gætt upp á að þau kæmu saman fram bara fyrsta þingdaginn.

Það verða mikil tíðindi ef Hillary myndi tapa fyrir t.d. Barack Obama eða einhverjum öðrum. Barack Obama hefur saxað mjög síðustu vikurnar á forskot Hillary Rodham Clinton í baráttunni. Það er greinilegt að æ fleiri líta á hann sem raunverulegan valkost. Ljóst er nú að blökkumenn eru í æ ríkari mæli að horfa til hans og segja skilið við Hillary og þeir hópar sem voru síður að gefa sig upp áður horfa nú frekar til blökkumannsins frá Illinois sem vonarstjörnu en Hillary. Þetta eru vissulega mikil tíðindi - þessi mæling sýnir vel að Hillary er fjarri því örugg um útnefningu flokksins og framundan er hörð barátta. Obama virðist hafa veðjað á rétt.

Obama hefur enda engu að tapa með framboðinu og mun aðeins styrkja sig hvernig sem fer, ólíkt Hillary sem hefur miklu að tapa nái hún ekki útnefningunni, sem flestir hafa talið hennar eftir ósigur John Kerry í forsetakosningunum 2004. Obama er ekki í ólíkri stöðu nú og John Edwards við síðustu forsetakosningar, sem maður er tekur áhættuna vitandi að hann tapar engu hvernig sem fer. Hann mun aðeins eflast og það verulega - stimplar sig inn. Það hlýtur að fara um Clinton-hjónin í þessari stöðu. Það er alveg ljóst að tapi Hillary mun ekki aðeins hún veikjast verulega á þessari áhættu sem fylgdi framboðinu heldur líka eiginmaður Hillary, Bill Clinton, 42. forseti Bandaríkjanna.

Þau munu leggja allt sitt í framboðið og sækja bæði alla peninga sem þau geta safnað og leita í allar áttir stuðningsmanna sem þau telja mögulega geta styrkt framboðið. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Hillary að stjörnurnar í Hollywood og peningamenn í Kaliforníu eru í æ ríkari mæli að horfa til Obama. Til dæmis hefur áhrifamaður í Hollywood á borð við Steven Spielberg, sem ávallt hefur fylgt þeim hjónum til þessa, veðjað á Obama. Bill og Hillary Rodham Clinton lögðu grunn að þessu framboði með forsetatíðinni 1993-2001 og eiga víða vini og kunningja. Þau stóla nú á að það muni tryggja forsetafrúnni á þeim tíma vist í Hvíta húsinu nú.

Þau munu sækja inni alla greiða sem þau mögulega geta tryggt og leita víðar en það. Það sem eitt sinn var talið sigurganga Hillary gæti nú orðið þyrnum stráð og verulega erfið. Þetta gæti orðið þrautaganga og öllum er ljóst að Hillary skaðast verulega sem sterkur stjórnmálamaður og stjörnuljómi innan flokksins með tapi. Clinton forseti veit líka hvað er í húfi. Tap fyrir nýja vonarneistanum gæti orðið þungt til lengri tíma litið. Þetta verður því verulega harður slagur - óvæginn og hvass.

Obama þykir hafa sjarmann og útgeislunina sem t.d. John F. Kennedy hafði fyrir hálfri öld og virðist maður nýrra tíma meðal demókrata, ekki ósvipað því sem Bill Clinton var á sínum tíma. Fram að þessu hefur Hillary þótt stjarna á sviði flokksins. En er Hillary búin að missa sinn sjarma? Er hún að missa tökin á stöðunni? Þetta eru stórar spurningar óneitanlega. Margir hafa nefnt að sterkt væri að þau yrðu leiðtogapar flokksins. Það hefur hinsvegar breyst, enda hefur staða Obama styrkst mjög síðustu vikurnar og hann virðist geta komist langt án allrar hjálpar. Hann hefur þegar útilokað með afgerandi hætti að verða varaforsetaefni framboðs Hillary.

Við þetta hljóta Clinton-hjónin að vera hrædd, enda hefur Hillary verið markaðssett sem stjarna flokksins og með hinn fullkomna pólitíska maka sér við hlið. Þær sögusagnir ganga svo að Clinton forseti gæti orðið varaforsetaefni eiginkonu sinnar. Það er ekkert í lögum sem bannar það, en sögulegt yrði það næði Hillary útnefningunni. Það er reyndar ólíklegt en það er ekki þaggað á stórt hlutverk Clintons forseta, skv. þessari moggafrétt hér neðst. Þar er talað um að hann verði jafnvel farandsendiherra í nafni Bandaríkjanna. Ekki skortir honum reynsluna en við blasir að Hillary ætlar að reyna að nota til fulls vinsældir hans meðal þjóðarinnar.

En þetta verða bæði sögulegar og áhugaverðar forsetakosningar. Þetta verða fyrstu forsetakosningarnar frá árinu 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti eru í kjöri og miklar breytingar blasa við. Persónulega taldi ég alltaf að Hillary myndi vinna hjá demókrötum og við myndum fá að ári eftir forkosningar að sjá loksins sögulega öldungadeildarslaginn í New York sem stefndi lengi vel í að yrði aðalslagurinn í kosningunum 2000 en varð svo aldrei af vegna veikinda annar þeirra; semsagt keppni milli Hillary Rodham Clinton og Rudolph Giuliani.

En maður er farinn að efast nú. Mun Obama stela sviðsljómanum af sjálfri Hillary, taka af henni tækifæri ferilsins? Jahérna, það yrði rosaleg frétt færi svo. Það er allavega ljóst að fáir spá nú afgerandi sigri Hillary og þetta gæti orðið mjög jafnt, jafnvel svo að forsetafrúin fyrrverandi sæti eftir með sárt ennið.

mbl.is Vill nýta vinsældir Clintons til að bæta ímynd Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Reynir Jóhannesson

Fín grein, og já Obama er málið! ;) En margir eru ennþá að kynnast Obama, það sýna alla vega nýjustu kannanir. Sem er kannski eðlilegt. Bill Clinton til dæmis var ekkert spes celeb þarna útí þegar hann fór í framboð. Hann var á mörgum stöðum bara einhver John Doe sem ætlaði sér að verða forseti.

Margir segja að Obama sé reynslulaus... og að það sé eitthvað neikvætt. Get til dæmis ekki séð hvernig reynsla hefur gert Bush að betri forseta? :P Obama þarf bara að vera duglegur núna næstu mánuði og kynna sig vel.. ef hann gerir það, þá verður hann pottþétt næsti forseti Bandaríkjanna. www.barackobama.com og www.myspace.com/barackobama 

Reynir Jóhannesson, 22.4.2007 kl. 14:00

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Reynir og góð orð um greinina. Já, Obama er greinilega að sækja í sig veðrið. Það verður alvöru barátta um forsetaútnefningu demókrata. Það blasir við. Þetta verða mjög spennandi kosningar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.4.2007 kl. 17:51

3 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Sæll Stefán

Fyrir mann sem er tiltölulega nýkominn inn í spilið þá er velgengni Obamas ótrúleg. Sá reyndar viðtal við hann um daginn hjá Lettermann og það er augljóst hversvegna hann er á uppleið. Persónutöfrar og skynsemi í málflutningi er banvæn blanda og ég hef trú á því að hann muni skjóta Hillary ref fyrir rass í forkosningunum. Þá væru síðan forsetakosningarnar eftir og "The religious rigth" myndi eflaust láta einskis ófreistað til að klekkja á honum. En eins og Reynir segir að ofan þá hefur Obama alla möguleika á að verða forseti 2009.

Kv. 

Guðmundur Ragnar Björnsson, 23.4.2007 kl. 17:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband