Sterk staða Sjálfstæðisflokks - Guðjón Arnar úti

Könnun í NorðvesturkjördæmiSkv. kjördæmakönnun Gallups í Norðvesturkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn með þrjá kjördæmakjörna þingmenn og rúmlega 33% fylgi. Frjálslyndi flokkurinn nær ekki þingmanni, mælist aðeins með 8% og því eru bæði Guðjón Arnar Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson utan þings. VG minnkar mjög frá síðustu kjördæmakönnun en mælast 8% yfir kjörfylginu hinsvegar en eru við það að missa annan manninn.

Bæði Framsókn og Samfylking bæta við sig frá síðustu kjördæmamælingu og nálgast kjörfylgið. Mikla athygli vekur að aðeins ein kona mælist inni; Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir frá Tálknafirði, hjá VG. Mjög stutt er þó í að Herdís Sæmundardóttir frá Sauðárkróki nái inn fyrir Framsóknarflokkinn á kostnað Ingibjargar Ingu. Aðeins munar 0,1% á flokkunum.

Sjálfstæðisflokkur: 33,2% (29,6%)
Samfylkingin 20,5% (23,2%)
VG: 18,4% (10,6%)
Framsóknarflokkur: 18,3% (21,7 %)
Frjálslyndi flokkurinn: 8% (14,2%)
Íslandshreyfingin: 1,1%

Þingmenn skv. könnun

Sturla Böðvarsson (Sjálfstæðisflokki)
Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Oddur Kristjánsson

Guðbjartur Hannesson (Samfylkingu)
Karl V. Matthíasson

Jón Bjarnason (VG)
Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir

Magnús Stefánsson (Framsóknarflokki)

Fallin skv. könnun

Guðjón Arnar Kristjánsson
Kristinn H. Gunnarsson
Anna Kristín Gunnarsdóttir

Þetta er merkileg mæling vissulega. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin tapa eins og fyrr segir enn fylgi í Norðvesturkjördæmi, þó tap flokkanna sé að verða óverulegt. Mjög stutt er eins og fyrr segir í að Framsókn haldi sínum tveim mönnum og fari í kjörfylgið. Samfylkingin fékk eins og Framsókn mjög vonda mælingu á kjördæmadegi Rásar 2 fyrir nokkrum vikum en er að sækja í sig veðrið. VG byrjaði mjög vel í Norðvesturkjördæmi og mældist lengst af með tvo örugga inni en virðist vera að missa það góða flug hægt og bítandi.

Þessi könnun er mikið áfall fyrir Frjálslynda flokkinn. Það eru mikil tíðindi að Guðjón Arnar mælist utan þings aðeins hálfum mánuði fyrir þingkosningar. Mjög mjótt er þó á mununum með stöðu hans, en hinsvegar er greinilegt að Kristinn H. Gunnarsson er kolfallinn af þingi ef miðað er við þetta. Frjálslyndir eru að missa umtalsvert fylgi, fimm prósentustig, frá síðustu kjördæmakönnun. Það er óhætt að segja að þeim vestfirsku félögum Guðjóni og Kristni sé að ganga mun verr en að var stefnt miðað við þetta, en fylgið virðast ekki streyma til þeirra.

Þessi mæling er mjög góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og er mjög góð tíðindi fyrir forystumenn flokksins. Einar Oddur er mjög sterkur í sessi sem kjördæmakjörinn þingmaður miðað við þetta. Það yrðu mjög gleðileg tíðindi fengi hann afgerandi kosningu inn og flokkurinn jafnvel yfir 30% mælingu. Það yrði stórsigur eftir allt talið sem gengið hefur um að staða þeirra hafi mögulega veikst. Það er alveg ljóst að þetta eru traustir forystumenn. Sérstaklega hefur Einar Kristinn verið að standa sig vel sem ráðherra og það er greinilegt að fólk í kjördæminu vill tryggja kjör Einars Odds með glæsilegum hætti. Þessi könnun er að því leyti afgerandi hvað það varðar.

Íslandshreyfingin virðist ekki vera að fá neitt alvöru start og virðist vandræði flokksins vera að sjást vel í fylgisleysi. Það voru líka nokkur vandræði sem urðu í því að fyrirfram ákveðinn leiðtogi datt úr skaftinu með athyglisverðum hætti. Kynnt var til sögunnar leiðtogaefni í kjördæmaþætti Stöðvar 2 í Hólminum en hún er þar hvergi á listanum sem kynntur var. Hinsvegar er Pálína Vagnsdóttir traust og öflug kona sem er úr Bolungarvík og ætti að hafa sterkar tengingar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að henni tekst að snúa vörn í sókn fyrir flokkinn. Hinsvegar er öllum ljóst að mælingarnar eru hver á eftir annarri áfall fyrir þennan nýja flokk.

Var að horfa áðan á kjördæmaþáttinn. Það er greinilegt að atvinnu- og samgöngumál gnæfa þar yfir, rétt eins og hér. Sturla kemur fram af öryggi, varla við öðru að búast í svona góðri stöðu. Guðbjartur er að vinna á, sama má segja um Magnús sem verður sífellt traustari sem leiðtogi. Jón er ekki mjög sterkur, er honum mjög erfitt að tala um áherslur og lausnir VG í stórum málaflokkum. Guðjón Arnar er reyndur en hann er ekki að upplifa sína bestu kosningabaráttu greinilega, væntanlega er þetta hans síðasta í framlínupólitík. Pálína er kjarnakona sem sker sig úr sem eina konan í forystu framboðslista - sannkölluð kjarnakona þar á ferð.

En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna. Margir eru þó óákveðnir og spennandi hálfur mánuður sannarlega framundan í kosningabaráttunni þar. Staðan virðist mjög opin og þarna gætu orðið stórtíðindi, sé litið á þessa könnun sem fyrirboða um stöðu mála.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Sammála ýmsu sem þú segir um þessa skoðanakönnun. Sjálfsstæðisflokkurinn er að mælast þarna stærri en ég hefði átt von á. Listi flokksins, er að mínu mati, sá slakasti af listum flokksins, og atvinnu- og samgöngumál í lamasessi á stórum svæðum.

Sturla finnst mér slakur, svarar engu og grípur frammí þegar aðrir talar. Þó ekki eins mikið og Jón Bjarnason, sem ég skil ekki hvað er að gera í þessu. Talar og talar um ekki neitt, gagnrýnir og hefur sjálfur ekkert til málanna að leggja. Magnús er ágætur, fínn náungi og er að standa sig vel. Guðjón Arnar hefur að mínu mati ekkert sérstakt verkefni í stjórnmálum lengur. Guðbjartur er að koma fram sem fullskapaður stjórnmálamaður. Málefnalegur, kurteis, gagnrýninn með fullt af hugmyndum. Guðbjartur hefur byggt upp Grundarskóla á Akranesi, í 25 ára starfi sem skólastjóri, og hefur komið skólanum í fremstu röð. Hann verður örugglega frábær þingmaður og vonandi ráðherraefni.

Eggert Hjelm Herbertsson, 28.4.2007 kl. 16:35

2 Smámynd: Óðinn Þórisson

Eins og alltaf flott samantekt hjá þér Stefán.

Það yrðu vissulega gríðarleg pólitísk tíðindi ef Guðjón Arnar nær ekki inn.
Sammála Eggerti varðandi Jón Bjarnason - hef reyndar aldrei verið einn af hans áköfustu stuðningsmönnum eða hans flokks.
Sturla var traustur og kom vel frá þessu - átti ekki von á neinu öðru frá þessum reynda stjórnmálamanni.
Magnús hefur vaxið mjög sem stjórnmálamaður og kom vel frá þessu - fylgi flokksins þarna mjög ásættanlegt - ég held þeir nái þarna inn tveimur mönnum, ekki myndi það skemma það ef það væri frá vg.
Íslandshreyfingin mætti bara einfaldlega allt of seint til leiks en það má þó hrósa Pálínu fyrir hennar frammistöðu.

Óðinn Þórisson, 28.4.2007 kl. 16:56

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Eggert: Það er alveg greinilegt á könnunum að efstu þrír menn Sjálfstæðisflokksins njóta trausts þarna. Tel að margir vilji halda Einari Oddi inni á þingi. Annars er Sturla ekki fullkominn, sjálfur hef ég stundum verið ósáttur við hans verk, en hann er samt mjög laginn í umræðuþáttum. Finnst hann vera að standa sig betur núna en fyrir kosningarnar 2003, sem voru mjög erfiðar fyrir hann eftir þungt og vont prófkjör. Samt sem áður var það eina kjördæmið þar sem flokkurinn hélt fylgi sínu í annars frekar vondum kosningum. Á þeim grunni varð Sturla áfram ráðherra. Einar Kristinn hefur mikinn þunga sem stjórnmálamaður og hefur styrkst mikið með ráðherradómi. Mér finnst Guðbjartur fínn og fannst hann bera af í prófkjörinu ykkar í vetur. Hann er mjög heiðarlegur maður, grandvar og vandaður. Mér finnst hann besti frambjóðandinn þarna utan Magnúsar og auðvitað þeirra sjálfstæðismanna sem ég met mest. Jón er skelfilegur stjórnmálamaður, gjörsamlega tómur. Skil ekki í þeim að hafa ekki sett Ingibjörgu efsta á lista, enda virkar það kjarnakona.

Óðinn: Takk kærlega fyrir góð orð um skrifin. Erum greinilega sammála að öllu leyti um greiningu og hugleiðingar. Tel að Íslandshreyfingin eigi eftir að bæta sig eitthvað. Myndi allavega frekar vilja Pálínu á þing frekar en annan mann vinstri grænna. Efast samt um að hún nái inn, nema þá kannski sem jöfnunarmaður nái flokkurinn fótfestu í rvk. Þetta er mikið kjarnafólk. Þekkti vel Valgerði Hrólfsdóttur, frænku þeirra systkina, en hún var bæjarfulltrúi okkar sjálfstæðismanna hér á Akureyri í fimm ár. Mikil kjarnakona og gríðarlega sterk í öllu sínu, leiddi til dæmis breytinguna yfir í Norðurorku sem síðasti formaður orkufyrirtækjanna með gamla laginu og fyrst í forystu Norðurorku. Það var okkur mikið áfall þegar að hún lést langt fyrir aldur fram af krabbameini. Það hvernig hún gegndi sínum verkum í bæjarstjórn nærri allt fram í andlátið í erfiðri krabbameinsbaráttu gleymist mér ekki. Einstök kona. Þær Soffía og Pálína minna mig mjög á Valgerði.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 28.4.2007 kl. 17:37

4 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Ég heyri af Sjálfstæðismönnum að þeir ætli að kjósa listann þrátt fyrir Sturlu og ekki með bros á vör. Einar K er greinilega vel liðinn, og tel ég hann sterkan frambjóðanda. nafni hans hins vegar hefur að mínu mati ekkert á Alþingi að gera. Þú verður líka að athuga það að þetta er með veikari mælingum sem Sjálfsstæðisflokkurinn er að fá á landsvísu.

Mér var að berast til eyrna að þessi könnun Capacent Gallup sé 800 manna úrtak á landsvísu, og aðeins ca 80 svör í þessu kjördæmi, á reyndar bágt með að trúa því, það væri algjörlega ábyrgðarlaust að koma slíku í loftið.

Samfylkingin var að mælast í stórri könnun sem er gerð yfir viku tíma og endar á sama tíma og þessi byrjar með tæp 25% - þannig að það getur margt gerst í þessu kjördæmi..

Eggert Hjelm Herbertsson, 28.4.2007 kl. 17:48

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þessi könnun er bara gerð í Norðvesturkjördæmi. Hinsvegar birtist í vikunni Capacent Gallup könnun um allt land og þar var sundurliðað sér úr henni. Þetta er nokkuð stórt úrtak á einu svæði. Þetta er nákvæmlega sami pakki og var keyrður á kjördæmadegi RÚV fyrir nokkrum vikum.

Hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn er ég viss um það að þetta er síðasta kosningabarátta Sturlu. Það blasir við öllum að það eru afgerandi líkur á því. Einar er sá eini af þrem efstu að mínu mati sem mun fara fram næst. Þá verður mikil endurnýjun. Sjálfstæðisflokkurinn er að mínu mati að fara vel úr könnunum þarna miðað við þann orðróm sem gengur víða um að listinn sé veikur. En þetta eru auðvitað tveir ráðherrar stórra málaflokka og reyndur þingmaður sem leiða þarna. En nú kemur allavega mæling á þá.

Það er ekkert búið fyrr en það er búið. Það gildir um þennan slag eins og annað. Ein könnun er aðeins ljósglampi í göngunum og fjarri því ljóst hverjir komast heilir út úr þessari vinnu allri. Það er þingsæti að fara fyrir borð no matter what og sérstaklega fróðlegt hver tapar kjördæmakjörnu sæti í takt við það.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 28.4.2007 kl. 17:58

6 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Þessi könnun sýnir auðvitað ekki "sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins" Stebbi, góður greinir eins og þú ættir að vita það. Held að nú sé kominn kosningaskjálfti í þig. Sjálfstæðisflokkurinn beið auðvitað afhroð fyrir 4 árum og að skríða yfir kjörfylgi er ekki merkilegt. Sérstaklega þegar maður tekur tillit til þess að D er alltaf ofmetið í könnunum.

Annars kemur mér mest á óvart hversu litlar breytingar eru hér frá kosningunum fyrir 4 árum. Eina sem virðist gerast er að F hrynur og V nær tvöfaldar fylgið. Framsóknarflokkurinn er skelfilega sterkur í þessari könnun, vona að flokkurinn sé ekki að takast að blekkja kjósendur til sín enn einu sinni. Ekki meir, ekki meir.

Guðmundur Auðunsson, 28.4.2007 kl. 18:07

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Jú, mér finnst þetta sterk staða hjá Sjálfstæðisflokknum, verandi með óbreytta skipan í þrem efstu sætum; þrír karlmenn, allir yfir fimmtugt og yfirbragðið er að mínu mati þungt þó allt séu þetta hinir mætustu menn. Ég tel enn að það hafi átt að boða til prófkjörs þarna. Það var mjög áberandi afleitt að ekki hafi verið haft prófkjör þar í takt við öll önnur kjördæmi. Þetta er sterk staða miðað við allt og miðað við skoðanir margra á listanum. En það er greinilegt að þessir menn njóta trausts á lykilstöðum. Það er einfalt mál.

Um leið er þetta auðvitað áfall fyrir Samfylkinguna. Flokkurinn er ekki að mælast neinsstaðar í alvöru uppsveiflu eftir áralanga stjórnarandstöðuveru og mjög langan tíma undir forystu nýs formanns til að byggja sig upp. Þegar að hálfur mánuður er til kosninga blasir annað ekki við en að Samfylkingin sé að fara að tapa fylgi og engin könnun hefur birst í kosningabaráttunni sem er fyrir alvöru séð jákvæð fyrir þá.

Stefán Friðrik Stefánsson, 28.4.2007 kl. 18:28

8 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Varðandi Samfylkinguna þá er niðurstaðan í NV kjördæmin vel ásættanleg, flokkurinn tapar sáralitlu. Landstölurnar eru hins vegar slakar, sérstaklega virðast tölurnar úr Reykjavík slakar, því þar vinnur VG mest á. En á móti bendi ég á að Samfylkingin vann stórsigur í Reykjavík fyrir 4 árum og því ekki óeðlilegt að flokkurinn tapi þónokkuð nú, sérstaklega yfir til VG því það er nú einu sinni svo að nær fimmtungur Reykvíkinga eru harðir vinstri og umhverfissinnar sem eru að mörgu leiti að fara "heim" til VG eftir daður við Ingibjörgu Sólrúnu fyrir 4 árum.

Annars stend ég við það að þetta er slök niðurstaða D í kjördæminu. Spái flokknum undir 30%, sem er auðvitað lélegt. 

Guðmundur Auðunsson, 28.4.2007 kl. 18:44

9 Smámynd: Hlynur Kristjánsson

Mér finst nú ótrúlegt sá Eggert sem að virðist vera stuðningsmaður XS tala um að XD hafi slæma stefnu í samgöngumálum þegar XS hafði ekki dug í sér að taka ákvörðun í því máli á landsþingi sínu og á síðuflokksins xs.is er ekkert að finna um samgöngustefnu flokksins, ekki neitt, ekki einu sinni undir liðnum kosningarstefna. 

Hlynur Kristjánsson, 30.4.2007 kl. 22:57

10 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir mjög gott innlegg Hlynur.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.4.2007 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband