Skiptar skoðanir á viðtalinu við Jónínu Bjartmarz

Jónína Bjartmarz í Kastljósi Það er víst alveg óhætt að fullyrða að skiptar skoðanir hafi verið á viðtali við Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, í Kastljósi á föstudagskvöldið. Þar hreinlega rifust ráðherrann og frændi minn, Helgi Seljan, þáttastjórnandi, eins og frægt er orðið. Það var líflegt móment. Það er greinilegt að sumum fannst Jónína fara yfir strikið. Aðrir tala um að Helgi hafi gert það.

Ef marka má lífleg kommentaskrif á vefnum hjá mér um málið eru heitar skoðanir í báðar áttir. Ég hafði satt best að segja mjög gaman af þeim skoðanaskiptum. Þau voru í svo tvær gjörsamlega ólíkar áttir að athyglisvert var að sjá. Það er þó að mínu mati alveg fyrir neðan allar hellur að kenna Helga um umfang umfjöllunar málsins. Hann er ekki ritstjóri Kastljóss og tók engar ákvarðanir um umfang umfjöllunar. Þórhallur Gunnarsson, yfirmaður Sjónvarpsins, tók þær ákvarðanir.

Vissulega er umdeilt að birta slíkar upplýsingar svo skömmu fyrir kosningar. Get ekki betur séð en að þetta sé frétt. Það stendur eftir að þetta er umdeilt mál, mál sem vekur mikla athygli. Þetta er auðvitað vandræðalegt mál fyrir ráðherrann í umræðunni sem verður auðvitað harkaleg þegar á lokasprett kosningabaráttunnar. Bloggarar hafa verið iðnir að ráða í gáturnar í heildarmyndinni. Talað er um ástæður þess að tengdadóttir Jónínu fékk undanþáguna umdeildu og jafnvel rætt um hver hafi lekið þessu til fjölmiðla. Það eru margar spekúlasjónir í gangi.

Fyrst og fremst verður fylgst með hvort og þá hvaða áhrif málið hafi á stjórnmálaumræðuna næstu dagana. Skiljanlega fara framsóknarmenn, spunameistarar þeirra og frambjóðendur, til varnar fyrir ráðherrann. Hún er að berjast tvísýnni baráttu fyrir endurkjör og flokkurinn slær skjaldborg um hana í vondri stöðu. Það verður athyglisvert að sjá kannanir og dóm kjósenda í Reykjavík er á hólminn kemur eftir hálfan mánuð. Þá ræðst pólitísk framtíð Jónínu. Hún sækir sér umboð í kosningunum til borgarbúa og þar ráðast örlögin fyrst og fremst.

Það gerir það svosem ekki í rifrildi ráðherra í vanda og þáttastjórnanda sem er að vinna sína vinnu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salka

Hvernig væri að hjálpa okkar fólki?'  Ég er ekki að FATTA AF HVERJU VIÐ GETUM hjálpa ÖLLUM NEMA OKKUR ?'

Salka

Salka, 29.4.2007 kl. 02:59

2 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Hafi þetta upphlaup gegn Jónínu og fjölskyldu átt að koma henni í koll í komandi kosningum sem viðrist hafa verið tilgangurinn; þá er eins víst að það verði ráðherranum fremur ávinningur þar sem ég hef hitt fólk á förnum vegi, ekki framsóknarfólk. Bara venjulegt fólk sem getur ekki skilið árás á erlenda stúlku sem hitti  mann sem hún vil hafa sem lífsförunaut. Ef Jónína hefði ekki verið móðir piltsins hefði það ekki orðið stórfrétt.

Sjónvarðið sem ríkisfjölmiðill þótt einkarekið sé hefur sett mjög ofan með slíkum fréttaflutningi.

Með kveðju

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 29.4.2007 kl. 05:37

3 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Það verður að taka þessa nefnd frá stjórnmálamönnum, færa hana til sýslumanns viðkomandi sveitafélags.  Afhveru er ekki hægt að upplýsa eftir hvaða reglum alsherjarnefndin starfar.  Þessi þögn og þumbaraháttur gagnvart fjölmiðlum bendir til þess að þeir vinni ekki eftir neinum reglum, heldur duttlungum og eiginhagsmunum.  Eðlilegt að almenningur sé ósáttur.

Ég skil ekki það viðhorf að Jónínu leyfist að vera dónaleg þar sem Helgi var dónalegur.  Mér fannst hún mest dónaleg við okkur þjóðina að upplýsa okkur ekki um það eftir hvaða reglum er starfað við veitingar á undanþágum, hún hefur starfað í nefndinni og þessar upplýsingar gat hún veitt án þess að draga fram persónulegar upplýsingar um ástmey sonar hennar. 

Ester Sveinbjarnardóttir, 29.4.2007 kl. 06:23

4 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Sæll Stefán

Varð ekki var við þetta rifrildi sem þú nefnir. Það sem ég sá var að fréttamaður var að spyrja sífellt sömu spurningar og fá sama svar enn og aftur. Það blasir við að þetta er fréttamennska af sorpblaðataginu og manni lá við að hlæja þegar Helgi neitaði að svara hverjir væru hans heimildamenn eftir að hafa sjálfur þráspurt út í efni sem nýtur persónuverndar og Jónínu var hvort eð er ekki kunnugt um varðandi aðstæður fólks sem sækir um ríkisborgararétt. Mér fannst Jónína á engann hátt vera dónaleg og efast um að þeir sem tjá sig hvað harðast um þetta mál hefðu getað setið rólegir og yfirvegaðir undir svona tilraun til mannorðsmorðs. 

Það er síðan alsherjarnefndar að gera grein fyrir sínum störfum og starfsháttum en ekki Jónínu og Helga hefði verið í lófa lagið að tala við nefndarmenn til að fá þær upplýsingar eða kynna sér málið sjálfur. Slíkt hafði hann ekki gert sem er til vitnis um á hversu lágu plani umfjöllun Kastljóss var.

Sveinn Elías: Þeir sem sjá spillingu í hverju horni eru venjulega á kafi í henni sjálfir

Kv. 

Guðmundur Ragnar Björnsson, 29.4.2007 kl. 09:23

5 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ég dreg það í efa að þetta mál og viðtalið í Kastljósi eigi eftir að auka vinsældir Jónínu og framsóknar.

Óðinn Þórisson, 29.4.2007 kl. 10:31

6 Smámynd: Jóhannes Freyr Stefánsson

Það er verst að þetta mál er farið að snúast um það hvort hafi verið vitlausara í Kastljósi, Seljan eða Bjartmarz. Þau voru hvorugt mjög gáfuleg.

Það virist ekki vera hægt að fá rætt um málið sjálft, heldur bara hvort fólki þyki eðlilegt að þegar  ráðherra fær á sig ávirðingar af þessu tagi, að hann standi öskrandi enni í enni á móti fréttamönnum. Fréttamenn þurfa líka að tala mikið nánar við nefndarmenn í allsherjarnefnd. Það fólk þarf að útskýra margt, sérstaklega hvernig þau ætla ekki að líta á þetta mál sem fordæmi fyrir önnur. Sérstaklega þarf formaður nefndarinnar að vera með það á hreinu.

Ríkisstjórnin er með þetta mál á sinni ábyrgð, einnig Byrgismálið, hvar Birkir Jón og allmargir ráðherrar leyndu gögnum fyrir Alþingi. Hvort fyrir sig væri nóg í siðuðum þjóðríkjum til þess að ráðherrar öxluðu ábyrgð á gerðum sínum eða sinna undirmanna.

En í ríki íhalds og íhaldsleppa; Ó nei.

Jóhannes Freyr Stefánsson, 29.4.2007 kl. 11:30

7 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Af og til hafa menn velt upp þeirri spurningu, hvers vegna Framsókn fær betri útkomu í kosningum heldur en í undanfarandi skoðanakönnunum.  Ég hef haldið því fram að andstæðingar Framsóknar fari offari í aðförum sínum að flokknum, einmitt á síðustu dögum fyrir kosningar, og það færi flokknum "vorkunnarfylgi".  Stór hluti óákveðinna fái meðaumkun með Framsóknarflokknum, eða einstökum frambjóðendum, á síðustu stundu og kjósi flokkinn þess vegna.   Ég veit um dæmi þessa en veit ekki hversu mikið er um þetta.

Varðandi Kastljósþáttinn, sem ég horfði sérstaklega á eftir að ég las pistilinn hans Stefáns, þá varð ég ekki var við neitt riflildi.  Þarna var um að ræða samræður fólks sem hafði ólíkar skoðanir.  Það er nokkuð athyglisvert að mínu mati því að annar aðilinn átti að vera hlutlaus starfsmaður hlutafélags í ríkiseigu.

Helgi Seljan spurði Jónínu Bjartmarz um ástæður fyrir tiltekinni afgreiðslu Allsherjarnefndar Alþingis.  Ég fletti því upp á vef Alþingis og fékk það staðfest þar að Jónína átti ekki sæti í allsherjarnefnd á þessum tíma.  Hvernig átti hún þá að geta sagt Helga eða þjóðinni ástæðu fyrir afgreiðslu nefndarinnar.  Þá hefur það komið fram í fréttum að m.a.s. flestir nefndarmenn koma hvergi að afgreiðslu umsókna um undanþágur um ríkisborgararétt.   Það er verkefni þriggja nefndarmanna að fara yfir umsóknirnar og mæla með því við Alþingi annað hvort að veita ríkisborgararétt eða synja um hann.

Mér finnst athyglisvert að Helgi Seljan lætur sífellt að því liggja í fréttunum að allsherjarnefnd hafi veitt þessa undanþágu og spyr Jónínu, sem ekki situr í nefndinni, hvers vegna nefndin hafi mælt með því að Alþingi veitti ríkisborgararéttinn.  Hvers vegna segir hann ekki frá því að ríkisborgararétturinn er veittur með lögum frá Alþingi og fer yfir það hverjir greiddu atkvæði með tillögu allsherjarnefndar?   51 þingmaður greiddi atkvæði með frumvarpinu og enginn á móti.  12 voru fjarstaddir.  Þetta voru mennirnir og konurnar sem tóku endanlega ákvörðun í málinu.

Ég hef fylgst nokkuð með fréttamönnum og þróun starfsaðferða þeirra á undanförnum árum.  Mér finnst sífellt meira bera á því að fréttamenn myndi sér fyrst skoðun á málum og leiti síðan svara í samræmi við þá skoðun.  Þessi fréttamennska skilar litlu.  Auðvitað skilar þetta einhverskonar "frægð" fréttamannsins í ákveðnum "kreðsum" því að hann virkar "harður" og "óvæginn" við ráðamenn eða aðra viðmælendur sína.  En sem fréttamennska skilar þetta litlu.  Ég sem borgari er engu nær um málið þótt Helgi spyrji ráðherrann aftur og aftur um ástæður afgreiðslu nefndar sem ráðherrann situr ekki í.

Ég veit ekki hvort það er hægt að leggja fólki það til lasts þótt það verjist árásum fréttamanna líkt og Jónína gerði.  Ég vil meina að fólk eigi ekki að vera berskjaldað, leiksoppur þess sem fréttamanni dettur í hug að halda fyrir rétt eða finnast að eigi að vera rétt, eða hvaða aðrar ástæður sem hann hefur þegar kveikt hefur verið að myndavélunum.  Mér fannst Jónína standa sig afar vel í þættinum og reyndar Helgi Seljan líka, sérstaklega þegar tekið var tillit til þess að hann var þarna með rangan viðmælanda.  Hann spurði líka viðeigandi spurninga, um afskipti Jónínu af málinu, og fékk greið svör við þeim.   Viðtalið bar allt merki þess að þetta var "ekki frétt" þ.e. að fréttamaðurinn hafði fengið upplýsingar um eitthvað sem leit óeðlilega út, reyndist svo ekki óeðlilegt en fréttamaðurinn var að reyna að "bjarga fréttinni" eða gera úr þessu stjórfréttina sem þetta var ekki.

Auðvitað er það alltaf grunsamlegt þegar svona afgreiðslur fara fram, sérstaklega þegar fréttastofur matreiða það þannig að þetta hafi verið eina umsóknin sem Útlendinastofnun hafi lagst gegn eða að þetta hafi verið eini umsækjandinn sem ekki hafði búið á Íslandi í 7 ár.   Það er fullkomlega eðlilegt að kanna málið og leita svara.   En ef maður leitar svara hjá fólki sem ekki er í aðstöðu til að svara þeim, þá er ekkert grunsamlegt við að fólkið svari ekki skýrt og afdráttarlaust.

Veiting Alþingis á ríkisborgararétti er í eðli sínu veiting andstæð gildandi lögum.  Þess vegna er það Alþingi sem veitir ríkisborgararéttinn með sérstökum lögum.  Þar með er hún lögmæt.   Þetta kerfi verður grunsamlegt þegar einhver, sem tengist stjórnmálamönnum eða stjórnmálaflokkum, fær ríkisborgararétt.  Þá vakna spurningar um hvort það hafi verið tengslin við stjórnmálamanninn sem réði úrslitum um veitingu ríkisborgararéttarins. 

Til eru fleiri tilvik þar sem reynt hefur verið að gera ákvarðanir handhafa ríkisvaldsins tortryggilegar þegar þær hafa snúið að aðilum sem tengjast stjórnmálamönnum.  Ég minni á ákvörðun Björns Bjarnasonar um að skipa Ólaf Börk í embætti hæstaréttardómara.  Sú ákvörðun þótti grunsamleg og reyndist auk þess ólögmæt samkvæmt stjórnsýslulögum og jafnréttislögum.  Einnig komu upp svona raddir varðandi skipun Jóns Steinars Gunnlaugssonar í stöðu hæstaréttardómara.   Í hvorugt skiptið sneru þessi mál um Framsóknarflokkinn og lutu að mun meiri hagsmunum en hvort 20 ára stúlka fær íslenskan ríkisborgararétt.

Um hina flokkana er það að segja að þeir eru ungir að árum í núverandi mynd.  Með kennitölubreytingum hafa þeir þannig skilið við pólitíska fortíð sína og geta þannig haldið því fram að þeir hafi hreinan skjöld.  En þegar litið er á bak við leiktjöldin eru þetta gamli Alþýðuflokkurinn og gamla Alþýðubandalagið og hafa því ærna ástæðu til kennitöluskipta og til þess að skipta um leiktjöld og búninga.

Hreiðar Eiríksson, 29.4.2007 kl. 11:37

8 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Afsakaðu, þetta varð greinilega ansi langt.

Hreiðar Eiríksson, 29.4.2007 kl. 11:38

9 Smámynd: E.Ólafsson

Skrifaði færslu sjálfur um þetta málefni Jónínu á blogginu mínu

E.Ólafsson, 29.4.2007 kl. 12:23

10 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Sæll Stefán,

Það sem mér þykir skipta mestu í þessu máli er að þeir sem að þessum gjörningi koma og voru á þingi þegar útlendingalögum var breytt fyrir réttum þremur árum síðan, Bjarni Benediktsson, formaður alsherjarnefndar og Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra, þá greiddu þau atkvæði gegn breytingartillögu þar sem lagt var til að afnema 24 ára aldursregluna. Síðan studdu þau lögin í þeirri mynd sem þau eru nú.

Það verður því ekki annað séð en að með veitingu ríkisborgararéttar til þessarar stúlku þá hafi formaður alsherjarnefndar gengið þvert á eigin skoðanir og að Jónína Bjartmarz hafi leiðbeint stúlkunni þvert á eigin skoðanir á því hvort hún ætti að fá íslenskan ríkisborgararétt.

Það verður því fróðlegt að sjá hvort einhver af þeim umsækjendum, sem ekki fengu íslenskan ríkisborgararétt vegna þess að viðkomandi var of ungur eða hafði ekki búið sjö ár á Íslandi, kæri úrskurði sína sem brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Kveðja,

Sigurður Ingi Jónsson, 29.4.2007 kl. 12:39

11 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Ég verð nu að segja að mér fannst Jónina ferlegur dóni. Hvaða rétt hefur hún á að svara ekki spurningum sem hún var spurð um. Hún er kosin af þjóðinni og er í vinnu hjá þjóðinni. Ég hef hitt einstaklinga sem að hafa sótt um ríkisborgararétt í mörg ár og eru afar reiðir, að sjálfsögðu. Auðvitað er þetta spilling af versta tægi sem að einkennir bæði framsók og sjálfstæðismenn í þessarri ríkisstjórn.

Mér hefur lengi fundist Jónina vera einn af skástu kostum framsóknar en svo bregðast krosstré sem aðrir raftar.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 29.4.2007 kl. 12:48

12 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin og góðar pælingar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.4.2007 kl. 02:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband