Vænleg staða Sjálfstæðisflokksins - Jón ekki inni

Könnun í Reykjavík norður Skv. kjördæmakönnun Gallups í Reykjavík norður mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 5 kjördæmakjörna þingmenn og rúmlega 40% fylgi. Enn mælist Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, utan þings og er fylgi Framsóknarflokksins aðeins 7% í kjördæmi formannsins. Hann rær því pólitískan lífróður í kjördæmi sínu, rétt eins og sumir aðrir forystumenn Framsóknar.

Samfylkingin stendur þónokkuð fjarri kjörfylginu í Reykjavík norður vorið 2003, en þá varð flokkurinn sjónarmun stærri en Sjálfstæðisflokkurinn en fáir hafa átt von á að þeir næðu að halda velli. Fylgi VG er greinilega að síga þessa dagana og sést það vel á kjördæmakönnunum sem sýna flokkinn mun lægri en hann lengi vel var í kosningabaráttunni. Þetta sést líka vel í Fréttablaðskönnun í dag. Frjálslyndir og Íslandshreyfingin eru nokkuð frá því að ná inn manni. Þar berjast hin fornu frjálslyndu skötuhjú Magnús Þór og Margrét harðri baráttu.

Sjálfstæðisflokkurinn: 40,4% (35,5%)
Samfylkingin 26,3% (35,8%)
VG: 17,8% (9,7%)
Framsóknarflokkurinn: 7% (11,6%)
Frjálslyndi flokkurinn: 4,9% (5,5%)
Íslandshreyfingin: 3,6%

Þingmenn skv. könnun

Guðlaugur Þór Þórðarson (Sjálfstæðisflokki)
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Pétur H. Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson
Sigríður Ásthildur Andersen

Össur Skarphéðinsson (Samfylkingu)
Jóhanna Sigurðardóttir
Helgi Hjörvar

Katrín Jakobsdóttir (VG)
Árni Þór Sigurðsson

Fallnir skv. könnun

Magnús Þór Hafsteinsson
Guðjón Ólafur Jónsson

Það er auðvitað athyglisverðast að sjá enn og aftur vonda stöðu Framsóknarflokksins í Reykjavík. Jón Sigurðsson mælist enn utan þings, en er þó greinilega að bæta við sig á lokasprettinum miðað við aðrar kjördæmakannanir. Það eru mikil tíðindi að formaður Framsóknarflokksins standi jafnilla og raun ber vitni. Þetta hefur þó gerst áður. Kosningabaráttan 2003 var erfið í Reykjavík fyrir Halldór Ásgrímsson, sem lengst af baráttunni mældist ekki inni. Honum tókst með ævintýralegri lokasveiflu að fara inn við annan mann. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer nú.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig kjördæmakjörnum þingmanni í Reykjavík norður og er yfir 40% markinu, vel yfir kjörfylginu 2003, er Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra, leiddi flokkinn þar í sinni síðustu kosningabaráttu. Barist er fyrir því að tryggja stöðu Sigríðar Ásthildar Andersen - skv. þessari mælingu er hún nokkuð vel trygg inn. Óvíst er um hverjir yrðu jöfnunarmenn en skipting þeirra verður enn meira spennandi nái minnstu flokkarnir ekki kjördæmakjöri. En þetta er vissulega mjög góð staða fyrir sjálfstæðismenn, enda með ferskan lista. Ungur en reyndur stjórnmálamaður leiðir listann og þar eru tvær öflugar kjarnakonur í mikilvægum sætum.

Samfylkingin er að missa talsvert fylgi frá kosningunum 2003, en ég held að fáir hafi átt von á að flokkurinn næði jafngóðri kosningu og þá. Þarna eru kjördæmaleiðtogar flokksins í borginni; Össur og Jóhanna, efst á lista og með Helga Hjörvar og Steinunni Valdísi í næstu sætum. Það er greinilegt að Samfylkingin er farin að ná aftur til sín kvennafylginu sem þau voru farin að missa með svo áberandi hætti. Enda er greinilegt á vali Jóhönnu í kjördæmaþáttinn að það á að reyna að tala kvennafylgið í þessa átt með áberandi hætti. Talið um Steinunni segir líka sitt.

VG bætir við sig mjög miklu fylgi frá þingkosningunum 2003, en hefur lækkað skv. nýlegum kjördæmakönnunum eins og víða um land. Þarna mælist Árni Þór Sigurðsson inni sem kjördæmakjörinn, en gæti orðið mjög tæp í þeirri stöðu sem hefur sýnt sig vel síðustu dagana. Það er líka mjög afgerandi ljóst að VG er að taka af Framsókn. Vinstrafylgið sem hefur verið hjá Framsókn þarna er greinilega að fara yfir til Katrínar og hennar fólks. Það gæti farið svo að þetta yrði slagur milli Jóns og Árna Þórs um kjördæmasæti.

Frjálslyndir missa nokkuð fylgi frá síðustu kosningum. Magnús Þór Hafsteinsson virðist kolfallinn í þessari mælingu og virðist vera að missa fylgi á lokasprettinum. Margréti Sverrisdóttur gengur ekkert greinilega með Íslandshreyfinguna í því sem átti að vera besta kjördæmi flokksins. Það verða stórtíðindi ef hin fornu frjálslyndu skötuhjú slá hvort annað út eins og mælingin sýnir klárlega æ ofan í æ.

Þetta er athyglisverð staða í borginni vissulega. Þarna virðist allt geta gerst í raun hvað varðar tæpustu sætin en vond staða Framsóknar vekur mesta athygli. Það verða stórtíðindi fari úrslit á þennan veg og Jón nái ekki inn, þó líkur á kjöri hans aukist við hverja könnun. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer.

Það eru aðeins sex dagar til kosninga og spennandi lokasprettur framundan síðustu sólarhringana í baráttunni.

mbl.is Gallupkönnun: Formaður Framsóknar nær ekki kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband