Tveir fyrrum formenn SUS kjörnir á Alþingi

Jón Magnússon Tveir fyrrum formenn Sambands ungra sjálfstæðismanna, Jón Magnússon og Ellert B. Schram, náðu kjöri á Alþingi í kosningunum í gær. Þeir hafa þó eins og flestir vita fyrir löngu yfirgefið Sjálfstæðisflokkinn og haldið til vistar í aðrar áttir. Það er vissulega mjög merkileg staða að þeir hafi báðir komist inn á þing í þessum kosningum og eflaust var það svona það helsta sem stóð eftir er kosningarnar voru gerðar upp.

Það eru tveir áratugir síðan að Ellert B. Schram átti sæti á Alþingi og þá fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ellert var fyrst kjörinn á þing í alþingiskosningunum 1971, eða fyrir 36 árum, og þá var hann fulltrúi ungliða innan Sjálfstæðisflokksins á framboðslista. Hann sat með hléum allt til ársins 1987. Ellert gekk til liðs við Samfylkinguna fyrir kosningarnar 2003 og verið varaþingmaður í Reykjavík norður á síðasta kjörtímabili. Kaldhæðnislegt er að nú fer Ellert aftur á þing, orðinn 68 ára gamall, og klárlega fulltrúi eldri borgara.

Jón Magnússon hefur verið mjög umdeildur í stjórnmálum og vakið athygli á þessum vettvangi í áraraðir. Eins og flestir vita væntanlega er Jón Magnússon forveri Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, á formannsstóli Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þeir félagar þekkjast því vel þegar að þeir mætast á þingi eftir kosningar. Jón var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1983-1991. Eins og flestir vita var Jón um nokkuð skeið tengdasonur Jónasar Rafnar, fyrrum alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, og því svili Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins og fyrrum forsætisráðherra. Jón var á ferli sínum forðum daga bæði formaður Heimdallar (1975-1977) og SUS (1977-1981).

Jón hefur talsvert umdeildur verið í seinni tíð og flestir telja innkomu hans og félaganna úr Nýju afli, sem gárungarnir hafa nefnt Hvítt afl, hafa orðið upphaf klofnings Frjálslynda flokksins. Sverrisarmurinn sem leiddur er af Margréti Sverrisdóttur yfirgaf flokkinn með hvössum hætti. Það var athyglisvert að sjá Jón Magnússon, alþingismann, og Margréti Sverrisdóttur, borgarfulltrúa, takast á um málin í Silfri Egils í dag. Margréti mistókst aðrar kosningarnar í röð að ná kjöri á þing og Íslandshreyfingin náði engu flugi eins og skoðanakannanir hafa sýnt æ ofan í æ. Úrslitin hljóta að vera Margréti áfall.

Jón Magnússon og Ellert B. Schram eiga merka sögu að baki innan Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa fyrir margt löngu horft til annarra átta á vegferð sinni. Það er mjög athyglisvert að sjá þá báða hljóta kjör á þing í þessum sömu kosningum. Kaldhæðnislegt svo sannarlega. Og það verður fróðlegt að sjá til verka þeirra á þingi á næstu fjórum árum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jamm. Við vorum þarna þríeykið, Jón Magg, Jón Ormur og ég. Var ekki Vilhjálmur Egilsson á milli Nonna og Geirs? Annars góðar óskir til ykkar með góðan árangur. Koma tímar. ;-)

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 13.5.2007 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband