Áfall Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi

Lára Stefánsdóttir Það fer ekkert á milli mála að úrslit þingkosninganna um síðustu helgi voru áfall fyrir Samfylkinguna í Norðausturkjördæmi. Láru Stefánsdóttur, bloggvinkonu minni, mistókst aðrar kosningarnar í röð að ná kjöri og flokkurinn missti þriggja prósenta fylgi frá alþingiskosningunum 2003. Þessi úrslit eru um leið nokkuð pólitískt áfall fyrir Kristján L. Möller, alþingismann og leiðtoga flokksins, sem hafði frekar viljað stefna að fylgisaukningu og eygja von á að vinna kjördæmið.

Þess í stað tapaði flokkurinn fylgi og það merkilega gerðist að Framsóknarflokkurinn vann bæði VG og Samfylkinguna með mjög afgerandi hætti. Lengst af í kosningabaráttunni stefndi í að bæði Kristján L. Möller og Steingrímur J. Sigfússon myndu komast ofar í þingmannatölu Norðausturkjördæmis en Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og skáka Framsókn verulega fylgislega séð. Þvert á allar skoðanakannanir lengst af kosningabaráttunnar náði Framsóknarflokkurinn yfir 24% fylgi og að verða næststærst en það blasti við nær alla baráttuna að Sjálfstæðisflokkurinn myndi sigra í kjördæminu.

Ég er ekki í vafa um það að það veikti stöðu Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi verulega að Lára Stefánsdóttir varð ekki í öðru sætinu á framboðslista flokksins í prófkjörinu á síðasta ári. Hún sóttist eftir öðru sætinu en varð þriðja. Einar Már Sigurðarson, alþingismaður, var mjög lítið áberandi í kosningabaráttunni hér og ég man hreinlega ekki eftir því að hafa séð hann í baráttunni nema í einhverjum málefnaþætti hjá Ríkissjónvarpinu fyrir nokkrum vikum og það á Ísafirði af öllum stöðum. Einar Már fer inn á þing en Lára situr eftir aðrar kosningarnar í röð með sárt ennið.

Það er kaldhæðnislegt að í bæði skiptin tapaði Lára þingsæti í baráttu við framsóknarmenn. Fyrst í baráttu við Birki Jón um kjördæmasæti vorið 2003 og svo jöfnunarsætinu í baráttu við Höskuld Þórhallsson. En svona er það bara. Þetta er auðvitað hringekja og þeir sem einu sinni komast inn í tæpustu sætin á kosninganótt eru aldrei öruggir fyrr en síðasta atkvæðið í síðasta kjördæminu hefur verið talið. Hringekjan var óvenju hraðskreið þetta árið og ekkert ljóst í neinu fyrr en Norðvestrið var búið.

Mér skilst á Láru að hún ætli nú að fara í skóla til að læra ljósmyndun. Ég vona að henni gangi vel í því og öðrum þeim verkefnum sem hún tekur sér á hendur eftir þessi úrslit. Hinsvegar er öllum ljóst að Samfylkingin fer frekar vængbrotin frá þessum kosningum hér. Væntingarnar voru miklar en vonbrigðin eru enn meiri við leiðarlokin.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband