Geir horfist í augu við sömu valkosti og Davíð

Davíð og Geir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, horfist nú í augu við sömu valkosti og forveri hans, Davíð Oddsson, eftir þingkosningarnar 1995; það er hvort að 32 þingsæta meirihluti sé nógu traustur til fjögurra ára eður ei. Fyrir tólf árum mat Davíð Oddsson það ótraust að halda til samstarfs við Alþýðuflokkinn í þessari stöðu, eftir ýmsa erfiðleika kjörtímabilið á undan, og leitaði eftir því samstarfi við Framsóknarflokkinn sem síðan hefur setið við völd.

Staða mála er mjög óviss að þessu sinni. Það er þó eðlilegt að tekinn sé góður tími til að velta fyrir sér stöðunni. Að mínu mati er þessi samstarfskostur mun traustari en sá sem blasti við Davíð Oddssyni fyrir tólf árum. Eftir yfirlýsingar Jóns Baldvins Hannibalssonar í Evrópumálum í aðdraganda alþingiskosninganna 1995 og fjölda annarra mála sem höfðu komið sér illa var það samstarf í raun dauðadæmt. Það kom í sjálfu sér fáum að óvörum, nema kannski ráðherrum Alþýðuflokksins, þegar að Davíð ákvað að segja skilið við samstarfið.

Að þessu sinni er spurt um tvennt; geta flokkarnir unnið traustir saman og er grunnur enn til staðar fyrir því að halda áfram? Að mínu mati er þetta tvennt enn til staðar. Ég sé enga áberandi farartálma til staðar að þessu sinni. Þetta eru tveir mjög vel mannaðir þingflokkar og þar ætti að geta haldist samhent verklag í þeim málum sem mestu skipta. Sé viljinn fyrir hendi er allt hægt. Þetta var hægt á viðreisnartímanum og gæti vel gengið núna. En þá verður verklagið að vera í lagi. Það var helst að ég væri hugsi yfir Bjarna Harðarsyni, alþingismanni, í Silfri Egils en ég hef þó í sjálfu sér engar efasemdir með að Bjarni vilji vinna vel.

Helst blasir nú við greinileg ólga innan Framsóknarflokksins um valkostina í stöðunni. Það er skiljanlegt að þar á bæ séu menn hugsi yfir þessari stöðu sem þeir horfast í augu við eftir þeirra svartasta dag, laugardaginn 12. maí. Þessi kosningaúrslit eru sögulegt afhroð fyrir Framsóknarflokkinn. Hann horfist í augu við grasrótina og spyr ráða í stöðunni. Þar eru skiptar skoðanir og ekkert eitt svar sem berst. Á höfuðborgarsvæðinu virðist vera helst talað fyrir því að setja punkt aftan við afhroðið, halda í stjórnarandstöðu og safna kröftum og kjarki til að reyna aftur.

Það er ekki undarlegt að hér í Norðausturkjördæmi vilji menn halda áfram, reyndar á landsbyggðinni allri svosem ef út í það er farið. Hér vann flokkurinn sinn besta sigur á kosninganótt og héðan koma þrír af sjö þingmönnum Framsóknarflokksins á landsvísu. Það vakti athygli í gær að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, hefur ekkert viljað segja og neitaði að kommenta á stöðuna eftir þingflokksfund í gær. Að mínu mati er enginn vafi á því að Valla er orðin lykilforystumaður innan flokksins, leiðandi kjördæmi sem mannar tæpan helming þingflokksins.

Þetta er í sjálfu sér frekar einföld staða. En Framsókn verður að fara á trúnaðarstigið innan sinna raða og gera upp úrslitin og gera það upp við sig hvort þar sé neisti til að halda áfram. Greinaskrif, bloggpælingar og talandi grasrótarinnar fá sjálfstæðismenn til að hugleiða stöðuna. Framsóknarmenn virðast ráðvilltir og ekki feta allir sama stíg til verkanna.

En er á hólminn kemur er það Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sem hefur úrslitavaldið. Þó að hann hafi ekki náð kjöri á Alþingi er hann í lykilstöðu innan sinna raða, verandi með umboð flokksþings til að leiða starf flokksins á komandi árum. Það verður Jón sem að lokum verður að taka af skarið eftir að hafa litið yfir það sem eftir stendur.

Á meðan halda vangaveltur um stöðuna áfram og ljóst að fjarri því hafa aðrir valkostir verið teknir úr umræðunni. En það er heiðarlegt og sjálfsagt að reynt verði á það hvort að ríkisstjórn sem hlaut umboð til stjórnarsetu verði endurmynduð. Það er fyrsti kosturinn í stöðunni, enda engin stjórnarkreppa í stöðunni.

Kannski hringir Geir H. Haarde í Seðlabankann og spyr ráða. Þar er staðsettur maður sem þekkir vel valkostina í sömu stöðunni og blasir við stjórnmálamönnum - hann hefur líka tekið afdrifaríkar ákvarðanir í slíkri stöðu og verið maður áhrifa og valda. Hann hlýtur að hafa mörg ráð í stöðunni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tjörvi Dýrfjörð

Fínn pistill hjá þér Stefán ! ég reyndar held að það sé ein staðreyndarvilla í honum hjá þér.Ef ég man rétt þá baðst Jón Baldvin lausnar fyrir sýna ráðherra eftir slæma útreið úr kosningunum og batt þar með enda á ríkistjórnarsamstarf Sjálfstæðis og Alþýðuflokks.og því kom aldrei til kasta Davíðs að rjúfa stjórn, í því liggur munurinn, skilaboðin frá kjósendum voru skýr bæði þá og núna, stóra spurningin er hvort Framsókn gefi skít í það eða ekki.

Tjörvi Dýrfjörð, 15.5.2007 kl. 17:51

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góð orð.

Nei, þeir gerðu það ekki. Stjórnin sat sem starfsstjórn áfram. Davíð sagði af sér fyrir hönd stjórnarinnar 18. apríl 1995, daginn eftir annan í páskum, en þann dag hafði Davíð tilkynnt Jóni Baldvin að viðræðum við Alþýðuflokkinn væri slitið. Þá vildi JBH prófa vinstrimöguleika en viðræður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru þegar hafnar á fullu. Aðeins fimm dögum eftir afsögn stjórnarinnar tók ný stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við völdum, 23. apríl 1995.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.5.2007 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband