Jacques Chirac kveður - Sarkozy tekur við á morgun

Jacques Chirac Jacques Chirac, forseti Frakklands, kvaddi frönsku þjóðina og forsetaembættið í tilfinningamikilli kveðjuræðu frá Elysée-höll fyrir stundu. Chirac lætur af forsetaembætti á morgun eftir tólf ára forsetaferil. Chirac hefur verið einn af mest áberandi stjórnmálamönnum Frakklands í áratugi og á að baki litríkan stjórnmálaferil.

Hann hefur alla tíð verið umdeildur stjórnmálamaður og verið áberandi í sínum verkum og telst einn af lykilmönnum franskra stjórnmála alla tíð síðan á valdadögum Charles De Gaulle. Kynslóðaskipti verða í forystusveit með brotthvarfi hans af hinu pólitíska sviði. Eftirmaður hans, Nicolas Sarkozy, tekur við embættinu með sterku umboði eftir forsetakosningarnar 6. maí sl.

Ég fór yfir stjórnmálaferil Chiracs í ítarlegum pistli í mars, þegar að hann lýsti því yfir að hann gæfi ekki kost á sér að nýju. Bendi á þau skrif. Chirac hefur verið áhrifamaður áratugum saman. Hann varð tvívegis forsætisráðherra Frakklands, var borgarstjóri í París í tvo áratugi og tapaði tvennum forsetakosningum fyrir Francois Mitterrand, forvera sínum, áður en hann náði loks sigrinum mikla árið 1995 og hljóta lyklavöld að Elysée-höll.

Heilt yfir boða forsetaskiptin mikil þáttaskil fyrir Frakka. Chirac hefur verið lykilmaður í stjórnmálaflóru Frakka áratugum saman. Forsetakosningarnar fyrir nokkrum vikum voru umfram allt uppgjör við Chirac-tímann. Báðir frambjóðendur boðuðu nýja tíma og litu frá Chirac-tímanum með mjög áberandi hætti. Það verður nú verk Sarkozy að halda utan um franska hægriarminn og framundan eru brátt þingkosningar þar sem reynir á nýja forsetann.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða hlutverk pólitíski klækjarefurinn frá Correze muni nú leika eftir lok valdaferilsins.

mbl.is Chirac hvetur Frakka til að standa saman í kveðjuávarpi sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband