Birgir Ármannsson sestur á forsetastól Alþingis

Birgir Ármannsson Birgir Ármannsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, hefur nú tekið við störfum forseta Alþingis, þar til að nýr forseti verður kjörinn á þingsetningarfundi á næstu vikum. Sólveig Pétursdóttir hefur látið af þingmennsku og er því ekki lengur forseti Alþingis. Svo vill til að næstu tveir varaforsetar Alþingis, Rannveig Guðmundsdóttir og Jón Kristjánsson, eru ekki lengur þingmenn. Það er því Birgir, sem þriðji varaforseti Alþingis, sem nú verður forseti Alþingis.

Mér telst til að af þeim sjö einstaklingum sem hafa gegnt forsetaembætti Alþingis og varaforsetastöðunum séu aðeins þrír þeirra enn á Alþingi. Það eru Birgir Ármannsson, Þuríður Backman og Jóhanna Sigurðardóttir. Auk fyrrnefndra er Sigríður Anna Þórðardóttir ekki lengur alþingismaður. Það hefur því svo sannarlega orðið mikil uppstokkun á Alþingi, reyndar sú mesta frá árinu 1934, og kristallast það vel af forsætisnefnd Alþingis skv. þessu.

Birgir hefur verið á þingi aðeins í fjögur ár og verður eflaust öflugur fulltrúi í þessu embætti. Ólíklegt verður að teljast að Birgir verði kjörinn forseti þingsins á þingsetningarfundi en embættið er í góðum höndum altént fram að því.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Bíddu aðeins við Stefán! Er búið að kalla saman þingfund eftir kosningar og kjósa í embætti?

Ef ekki, hefur Birgir Ármannsson ekki umboð frekar en aðrir til að teljast þingforseti hefði ég haldið!

Kristján H Theódórsson, 15.5.2007 kl. 23:00

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Birgir er þriðji varaforseti Alþingis. Sólveig er ekki lengur alþingismaður og er því auðvitað ekki lengur forseti Alþingis. Fyrsti og annar varaforseti Alþingis eru ekki lengur alþingismenn. Þriðji varaforseti Alþingis er því starfandi forseti Alþingis til þingsetningarfundar, þar sem að hann er enn alþingismaður.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.5.2007 kl. 23:02

3 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Ég tel þetta misskilning hjá þér Stefán. Það er búið að kjósa nýtt þing og umboð fráfarandi þings er fallið niður. Birgir gegnir því ekki nokkrum trúnaðarstörfum fyrir hið nýkjörna þing , umboð hans sem slíks féll niður á kjördag.

Starfsaldursforseti nýja þingsins, sem örugglega er ekki Birgir Ármannsson ,er sá eini sem e.t.v. gæti haft það hlutverk þar til nýir forsetar hafa verið kjörnir.

Þetta er allavega minn skilningur á lögunum um alþingi!

Kristján H Theódórsson, 15.5.2007 kl. 23:20

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Nei, þetta er enginn misskilningur. Frétt um þetta er á vef Alþingis. Forseti Alþingis og varaforsetar halda umboði sínu til þingsetningarfundar séu þeir enn alþingismenn. Umboð þeirra forseta eða varaforseta sem ekki eru þingmenn er auðvitað fallið niður. Hinsvegar verður alltaf að vera forseti Alþingis til staðar, það er mjög einfalt mál, enda er um að ræða handhafa forsetavalds.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 16.5.2007 kl. 00:29

5 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Hvernig ætti þá að leysa þetta ef sú staða kæmi upp að enginn fráfarandi forseta næði endurkjöri? Þetta er held ég eitthvað nýtt, minnist þess ekki að hafa heyrt þetta áður.

Kristján H Theódórsson, 16.5.2007 kl. 09:30

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það hefur aldrei gerst að allt í senn forseti Alþingis og sex varaforsetar hætti allir í einu, Kæmi sú staða upp myndi starfsaldursforseti Alþingis gegna embættinu. Þetta er allt mjög skýrt grundigt séð. Það er enginn vafi á því að varaforsetalistinn færist upp við tilfelli sem þetta. Það er reyndar skýrt tekið fram að þing verður að koma saman innan tíu vikna frá kjördegi og því er ljóst að þing kýs nýjan forseta fljótt eftir kosningar og þetta er því tímabundin ráðstöfnun. Alþingi hefur oftast komið saman í síðustu viku maímánaðar eftir kosningar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 16.5.2007 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband