Björn Bjarnason verður að halda sinni stöðu

Björn BjarnasonSíðustu daga hefur mikið verið rætt um stöðu Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, vegna útstrikana í Reykjavík suður. Enn er engin niðurstaða fengin í þau mál. Það er þó alveg ljóst í mínum huga að hafi Björn fallið niður um sæti í kjölfar auglýsingar Jóhannesar Jónssonar, auðmanns í Bónus, síðustu daga er mikilvægt að staðinn verði vörður um að Björn haldi stöðu sinni í því ljósi.

Mér fannst auglýsing Jóhannesar lágkúruleg og tók afstöðu gegn henni með sama hætti og níðauglýsingu í garð Ólafs Ragnars Grímssonar árið 1996, sem var jafnlágkúruleg og þessi. Ég lít svo á að þetta mál sé allt mjög sorglegt. Mér finnst það umfram allt sorglegt þegar að auðmenn þessa lands birta auglýsingu degi fyrir kjördag og beina því til almennings hvernig þeir eigi að greiða atkvæði sínu eða komi með tilskipanir um hvað skuli gera með einum hætti eða öðrum.

Persónulega hef ég alla tíð borið mikla virðingu fyrir Birni Bjarnasyni. Þar ræður mjög miklu eljusemi hans og kraftur í stjórnmálastarfi - ennfremur því að hann var fyrsti forystumaður Sjálfstæðisflokksins sem sýndi skrifum mínum og flokksstarfi einhvern áhuga og sýndi í verki að hann mæti það. Í því ljósi vil ég skrifa til stuðnings Birni og lýsa yfir þeirri skoðun minni að það væri Sjálfstæðisflokknum til vansa að útdeila embættum eða áhrifastöðum og horfa ekki til langra starfa Björns í stjórnmálum.

Eftir kosningar verður valið í verkefni sem skipta máli. Það eru allar líkur á því að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn. Landsmenn hafa falið honum lykilhlutverk í þeim efnum. Það verður að koma fram með skýrum hætti að Björn njóti áralangra verka sinna og forystu á vegum flokksins. Hann hefur alla tíð lagt heill og hag Sjálfstæðisflokksins í fyrsta sæti og sinnt kjarna flokksins vel. Það skiptir að mínu mati miklu máli.

Það verður Sjálfstæðisflokknum mjög til vansa verði þetta mál og auglýsing auðmanns úti í bæ þess valdandi að Björn Bjarnason hafi ekki stuðning til að fá embætti af því kalíber sem hann hefur sinnt árum saman. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að hann eigi áfram að gegna embættum á vegum flokksins í því stjórnarsamstarfi sem Sjálfstæðisflokkurinn mun taka þátt í eftir þessar alþingiskosningar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Sæll Stefán,
Þessi pistill þinn er mjög í anda pistils, sem Björn Ingi skrifaði.
Ég setti mínar vangaveltur á blogg vegna þess, en það er skoðun mín að skilaboð kjósenda eigi að virða. Mér er ómögulegt að ætla að fimmtungur kjósenda flokksins í kjördæminu sé að hlaupa eftir einni auglýsingu frá Jóhannesi í Bónus.
Kveðja,

Sigurður Ingi Jónsson, 16.5.2007 kl. 01:01

2 Smámynd: Gústaf Níelsson

Björn Bjarnason er ekki frábrugðinn öðrum dauðlegum mönnum - hann hefur bæði kosti og galla. Er menn uppskera oftast eins og þeir sá.

Gústaf Níelsson, 16.5.2007 kl. 01:03

3 identicon

Ég tek undir með Sigurði Inga. Bloggaði einmitt sjálf í tilefni af pistli Binga. Finnst ykkur Sjálfstæðismönnum rétt að senda samflokksmönnum ykkar þau skilaboð að þeir séu bara einhverjir róbótar sem Jóhannes getur ýtt á takka á þegar og ef honum sýnist og þess vegna sé ekkert að marka þessar útstrikanir? Ef svo er þá finnst mér þið 1) vanvirða þá kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem sendu þessi skilaboð 2) ekki sjá skóginn fyrir einu tré eins og ég bendi á í pistlinum mínum.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 01:22

4 identicon

Ég tek algerlega undir þetta Stefán.

Björn Bjarnason hefur staðið sig frábærlega í Dóms og kirkjumálaráðuneytinu og ólíklegt er að margir gætu staðið sig þar betur.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 01:28

5 Smámynd: Einar Jón

Til hvers eru útstrikanir, ef ekki er hlustað á þær?

Óháð því af hvaða ástæðu það er, sendu rúmlega 1 af hverjum 5 kjósendum Sjálfstæðismanna í kjördæminu þau skilaboð að BB eigi ekki að fá embætti af því kalíber sem hann hefur sinnt árum saman.

Næstum 3000 manns sendu þessi skilaboð. Á bara að gefa skít í þá, af því að þeir eru sennilega handbendi kjötfarssala úti í bæ og geta ekki haft sjálfsstæðar skoðanir? Hvað segir það um álit sjálfsstæðismanna á kjósendum sínum?

Einar Jón, 16.5.2007 kl. 01:47

6 identicon

Pétur: Málið snýst ekki um þá kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem eru ánægðir með Björn heldur hina 3.000 kjósendurna sem eru svo óánægðir að þeir kusu að koma því á framfæri með þessum hætti. Við Sigurður Ingi, sem tökum ekki undir sjónarmiðin sem endurspeglast í færslu Björns Inga og Stefáns erum ekki sjálf að ráðast gegn Birni Bjarnasyni, við erum að gagnrýna viðhorf ykkar til kjósendanna sem strikuðu hann út.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 01:53

7 Smámynd: Magnús Paul Korntop

Björn Bjarnason var strikaður út af 20% kjósenda flokksins og nú ætla Sjálfstæðismenn að fara fram á það að þessi maður fái embætti,er hann ekki búinn að gera nóg af sér í ráðherratíð sinni samanber áhugi hans á her í landinu?
Sjálfstæðisflokkurinn hunsar alltaf vilja kjósenda og valtar yfir allt og alla.
BURT MEÐ BJÖRN BJARNASON.

Magnús Paul Korntop, 16.5.2007 kl. 03:06

8 identicon

Anna: Þið sem eruð óánægð með störf Björn Bjarnasonar hafið ekki fært nein rök fyrir óánægju ykkar þau. 

Þessir sem strikuðu út Björn, strikuðu hann út til að þóknast ríkisbubba sem hefur persónulegar ástæður, en afbrigðilegar þó, til að hatast við hann. Þeir byggðu ákvörðun sína á lygum eða órökréttum forsendum.

Á meðan Björn Bjarnason stundar störf sín vel og samkvæmt hugmyndfræðinni sem Sjálfstæðisflokkurinn byggir á, hljóta Sjálfstæðismenn að styðja hann áfram.

Magnús Paul Korntop: Það að hafa áhuga á því að stofna íslenskan her er ekki á nokkurn hátt neikvæður hlutur. Annars þyrftu menn að hatast við nær alla þá sem börðust fyrir sjálfstæði Íslands á 19. öld, Jón Sigurðsson meðtalinn.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 03:25

9 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ég er sammála þér Stefán að Björn verði áfram í ríkisstjórn - hann hefur staðið sig afar vel og ein auglýsing frá auðmanni á ekki að breyta einu eða neinu.

Óðinn Þórisson, 16.5.2007 kl. 07:26

10 Smámynd: Páll Heimisson

Ég er innilega sammála þér Stebbi! Hann Björn Bjarnason hefur staðið sig frábærlega sem ráðherra og sést það best hvernig lögreglan og fleiri hafa fylkst sér að baki honum og verkum hans. 

 Ég skil ekki fólk sem heldur öðru fram en að auglýsing Jóhannesar hafi haft mikil áhrif! Þetta er einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu og það þarf enginn að segja mér að fólki hafi dottið þetta í hug núna og að auglýsing Jóhannesar hafi ekki haft mikil áhrif! Er fólk þá virkilega að halda því fram að það hafi aldrei neinir umdeildir menn setið fyrr á Alþingi?

Auk þess held ég að fólki sé hollt að hafa í huga að nú hefur fengist niðurstaða í hluta af Baugsmálinu svokallaða þar sem talið var að sitthvað ólöglegt hefði verið aðhafst! Hvernig dettur fólki þá í hug að Jóhannes hafi bara skellt inn þessari auglýsingu með velferð Íslands að leiðarljósi!

Og rétt í lokinn að þá má alveg eins líta svo á að hinir 4/5 sem strikuðu EKKI út Björn hafi þar með lýst yfir stuðningi við hann og verk hans og því er eðlilegt í lýðræðisþjóðfélagi að rödd meirihlutans fái brautargengi ! Því er ekki spurning um að Björn eigi að fá að halda áfram sínum góðu störfum í þágu lands og þjóðar!

Páll Heimisson, 16.5.2007 kl. 07:34

11 identicon

Pétur segir í kommenti hér að ofan og vísar þar til orða minna:

Anna: Þið sem eruð óánægð með störf Björn Bjarnasonar hafið ekki fært nein rök fyrir óánægju ykkar þau. 

Halló! Hvar stendur að ÉG sé óánægð með störf Björns? Ég þarf ekki að færa rök fyrir neinni óánægju vegna þess að ég er ekki að lýsa óánægju með Björn Bjarnason. Þú sérð það ef þú lest kommentin mín aftur.

Ef þú skoðar bloggið mitt hef ég t.d. þvert á móti hælt Birni fyrir störf hans sem menntamálaráðherra. Ég taldi hann aftur á móti með hugsanlegum embættisveitingum (sem reyndar varð ekki af fyrir kosningar) tefla pólitískri framtíð sinni í hættu.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 08:32

12 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Tek hjartanlega undir með þér Stefán að Björn á að vera áfram ráðherra. Maðurinn er hamhleypa til verka og þeir málaflokkar sem hann hefur veitt forystu hafa notið þess vel. Hann sýndi mikið frumkvæði í því að koma á frjálsræði og sjálfstæði framhaldsskóla þegar hann var menntamálaráðherra og í tíð hans sem dómsmálaráðherra hefur lögreglan og landhelgisgæslan eflst mikið.

Ég var að vinna í skólakerfinu þegar hann hætti sem menntamálaráðherra og Tómas Ingi Olrich tók við. Stjórnendur í skólakerfinu töluðu um þau skipti sem handbremsu. Ekkert gerðist. Slík voru þau viðbrigði að Björn hætti sem ráðherra.

Viljum við vísa slíkum manni í burt af því að Jóhannes í Bónus er óhress með hann? Og að fólk skuli taka undir með Jóhannesi í framhaldi af einu mest fjölmiðlahæpaða máli seinni tíma? Hvað með það fólk sem kaus Björn í sitt sæti í prófkjörinu? Hvað með 4 af 5 sem ekki hlýddu kalli Jóhannesar?

Aftur á móti er einn lærdómur af þessu máli fyrir Björn Bjarnason blessaðan. Jón H.B. Snorrason á EKKI að verða ríkissaksóknari. 

Sigurjón Sveinsson, 16.5.2007 kl. 09:01

13 identicon

Brynjar Níelsen bróðir Gústafs hér að hofan sækir um stöðuna ásamt Jóni H B. Það verður áhugavert að heyra Gústaf tala um það að menn uppskeri eins og þeir sá eftir þá stöðuveitingu. Menn uppskera ekki alltaf eins og þeir sá Gústaf. Því miður! En á efsta degi svarar hver og einn fyrir sig: Heldur þú t.d. enn að skjólstæðingur bróður þíns Jón Gerald sé sá sem þú talaðir um á Útvarpi Sögu áður en þú hættir? vonandi ekki.

Auðvitað er skömm af því er Björn fengi ekki að klára það sem hann er að gera hér í öryggismálum. Nema Jói vilji taka þau að sér líka. Þeir keyptu að vísu Securitas en seldu það svo víst aftur til Pálma minnir mig.

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 09:01

14 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Annars tók Friðjón út embættisveitingar Björns hér. Þessi úttekt sýnir svart á hvítu að orð Jóhannesar um umdeildar stöðuveitingar Björns eru einungis bundin við skipan Ólafs Barkar í stöðu hæstaréttardómara. Hinar standa eftir sem trúverðuglegar.

Björn Bjarnason er eins og Framsóknarflokkurinn. Það virðist vera "í lagi" að sparka í hann að ósekju. Þetta er eins og með afskiptaleysi vegna eineltis.

Sigurjón Sveinsson, 16.5.2007 kl. 09:05

15 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Hjartanlega sammála þér Stefán.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 16.5.2007 kl. 09:10

16 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það er svakalegt, Stefán, að sjá þig hvetja til lögbrota. Er ekki ólöglegt í sjálfu sér að hvetja til lagabrota? Auglýsing auðmannsins kann að hafa verið ósiðleg, en hún var lögleg. Útstrikanir kjósenda voru ákvörðun kjósenda, ekki auðmannsins, og auðvitað fullkomlega löglegar og siðlegar. Að hvetja til brota á kosningalögum er bæði ólöglegt og ósiðlegt, Stefán. Hversu mikil sem aðdáunin á Birni er.

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.5.2007 kl. 09:39

17 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Fáir ráðherrar hafa staðið sig eins vel og Björn Bjarnason í gegnum tíðin og verður eftir sjá af honum úr Dóms- og Kirkjumálaráðuneytunum. Hins vegar ef hann verður færður niður listann vegna útstrikana þá er alveg fráleitt að gera hann að ráðherra aftur. Það ber að virða vilja kjósenda.

Það má líka líta á það þannig að ef sjálfsstæðisflokkurinn ætlar ekki að staðna við það að fara nú í fimmta kjörtímabilið í röð í ríkisstjórn þá verða að verða einhverjar mannabreytingar.

Ágúst Dalkvist, 16.5.2007 kl. 11:04

18 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Tek undir með þér Stefán. Björn er maður sem gengur óhræddur í sín verk, en þarf greinilega oft að hlýða boðum að ofan, sbr embættisveitingar hans. Hugmyndir hans um greiningardeild lýsir honum vel. Allir sem sem ég hef hitt sem koma eitthvað að öryggismálum í okkar samfélagið telja svona greiningardeild algerlega nauðsynlega. Björn veit það en veit um leið að umræðan er erfið, en hann stendur sína plikt. Ef Sjálfstæðisflokkurinn fer í stjórn og fær heilbrigðisráðuneytið, er hann tilvalinn í það.

Gestur Guðjónsson, 16.5.2007 kl. 11:14

19 Smámynd: Júlíus Valsson

Í gamla daga hrópuðu menn á götum "Niður með Auðvaldið!". Ég vissi nú reyndar aldrei almennilega, hvað þetta Auðvald var í raunni. Einhver ríkur karl í Ameríku?
Nú eru ríku karlarnir á Íslandi farnir að hafa áhrif á skoðanir okkar bæði á mönnum og málefnum m.a. með heilsíðuauglýsingum í Mogganum. Enginn hrópar lengur "Niður með Auðvaldið!" Eihverjir hrópa hins vegar "Niður með Björn!". Nú skil ég loksins, af hverju menn voru á sínum tíma svona hræddir við Auðvaldið. Þeir höfðu líklega rétt fyrir sér.         

Júlíus Valsson, 16.5.2007 kl. 11:28

20 identicon

Björn er eins og flestir.. hann hefur góðar og miður góðar hliðar. Hann hefur gert mistök og hann hefur gert góða og þarfa hluti. Þegar upp er staðið og á heildina litið hefur Björn staðið sig betur en nokkur annar ráðherra. Hann er hörkuduglegur og bestur er hann í embættum þar sem virkilega þarf að taka til hendinni. Það er mikil eftirstjá eftir honum ef hann yrði látinn af sem ráðherra. Ég myndi vilja sjá hann í heilbrigðisráðuneytinu.

Björg F (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 12:04

21 Smámynd: Jóhann H.

Bíðum við.  Leyfum Birni að verðlauna Jón H.B. fyrst með stöðuveitingu fyrir vel unnin störf í þágu Sjálfstæðisflokksins.  Síðan má láta hann róa. 

Árni Johnsen yrði vel sæmdur af djobbinu enda þekkja fáir betur innviði dómskerfisins betur af þingliði Flokksins en hann.  Enn þá að minnsta kosti...

Jóhann H., 16.5.2007 kl. 12:31

22 Smámynd: Benedikt Halldórsson

...sammála þér Stefán, sjá þessa MYND um málið!

Benedikt Halldórsson, 16.5.2007 kl. 13:46

23 Smámynd: Ólafur Þór Gunnarsson

Rétt er það, Björn hefur staðið sig vel í embætti. Hitt er líka rétt að honum var hafnað af um 20% kjósenda flokksins og það ber að virða. Auglýsing Jóhannesar var siðlaus en það breytir ekki því að kjósendur færðu hann niður á lista.

Í Alvöru talað 

Ólafur Þór Gunnarsson, 16.5.2007 kl. 14:27

24 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Ég get skrifað upp á þennan pistil Stefáns um Björn Bjarnason. Erlingur þarf að nefna dæmi um meinta pólitíska spillingu því andstæðingar Björns hafa ekki getað stutt þessa fullyrðu með dæmum. Það er betra að spara stóru orðin þegar rætt er um svo vandaðar persónur eins og Björn Bjarnason.

Jón Baldur Lorange, 16.5.2007 kl. 16:33

25 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Þú ert ekki nógu gamall til að muna eftir stuðningi hans við stríðið í Víetnam.

Jón Sigurgeirsson , 16.5.2007 kl. 16:35

26 Smámynd: Einar Jón

Menn virðast skiptast í þrennt.

Fólk sem finnst BB djöfull í mannsmynd og vill losna við hann (t.d. Keli). 

Fólk sem heldur að BB sé mannlegur, en vill að vilji kjósenda sé virtur (Sigurður Ingi).

Fólk sem finnst BB engill sem Jóhannes er vondur við, og vill að vilji kjósenda sé hundsaður. Þeir virðast margir halda að kjósendur séu óvitar sem gera bara eins og þeim er sagt (Óðinn).

Getur einhver úr síðastnefnda hópnum (annar en Pétur Guðmundur) sagt mér hvers vegna þið hafið svona lítið álit á kjósendum Sjálfstæðisflokks?

Einar Jón, 16.5.2007 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband