Siv kjörin þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Siv Friðleifsdóttir Það kemur ekki að óvörum að heyra af því að Siv Friðleifsdóttir, fráfarandi heilbrigðisráðherra, hafi verið kjörin þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hún hefur auðvitað langa þingreynslu að baki, hefur setið á þingi frá árinu 1995 og verið ráðherra nær samfellt frá 1999. Aðeins Valgerður Sverrisdóttir, fráfarandi utanríkisráðherra, og Guðni Ágústsson, varaformaður flokksins og fráfarandi landbúnaðarráðherra, hafa lengri þingreynslu innan flokksins en Siv.

Á móti kemur að Siv hefur aldrei verið þingmaður í stjórnarandstöðu á sínum þingferli, sem bæði Valgerður og Guðni upplifðu hinsvegar á Viðeyjarstjórnarárunum. Það verða því þáttaskil fyrir hana að verða óbreyttur þingmaður í stjórnarandstöðu þegar að hún missir lyklavöldin í heilbrigðisráðuneytinu á morgun. Hún hefur eins og fyrr segir verið áhrifamikil í stjórnmálum. Hún var mjög virk í starfi þingsins 1995-1999 og varð umhverfisráðherra vorið 1999 en missti þann stól í hrókeringunum sem fylgdu dýrkeyptri forsætisráðherratign Halldórs Ásgrímssonar. Hún varð svo aftur ráðherra árið 2006 eftir að hafa verið formaður þingnefnda um skeið.

Siv er auðvitað í mjög sterkri stöðu að mörgu leyti innan flokksins, þó varla verði talað um sterka stöðu svosem heilt yfir þegar að Framsóknarflokkurinn á í hlut þessa dagana. Hún er nú skyndilega orðin eini þingmaður Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu, en flokkurinn missti þrjú af fjórum þingsætum sínum á svæðinu í kosningunum 12. maí. Það er öllum ljóst að flokkurinn er í molum á þessu svæði, en Siv má teljast heppin að hafa náð aftur naumlega inn á þing með maísólinni að morgni eftir kjördag.

Það eru spennandi tímar innan Framsóknarflokksins. Varla eru þeir þó gleðilegir. Formaðurinn er á útleið á næstu dögum og enn einn forystuhasar framundan. Það verður ekki síðra átakasumar um völdin innan flokksins þetta sumarið en var í fyrrasumar, þegar að Halldór steig niður af sínum stalli. Nú er flokkurinn hinsvegar valdalaus í landsmálum og lamaður að mjög mörgu leyti. Algjör naflaskoðun og grunnendurskoðun blasir þar við.

Siv stefnir eflaust á lykilstöðu í þeim forystukapal. Það verður fróðlegt hvort að þingflokksformennskan verði henni einhver stökkpallur í þeim efnum.

mbl.is Siv kjörin formaður þingflokks Framsóknarflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband