Tími Jóhönnu kemur... eftir þrettán ára bið

Jóhanna Sigurðardóttir Fyrir þrettán árum, á stund ósigurs á flokksþingi Alþýðuflokksins í Reykjanesbæ eftir tap fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni í formannskjöri lét Jóhanna Sigurðardóttir þau fleygu orð falla með hnefann á lofti að sinn tími myndi koma. Nú er hann kominn. Á morgun verður Jóhanna aftur ráðherra í ríkisstjórn og tekur aftur til starfa á sömu skrifstofu sem hún yfirgaf fyrir þrettán árum er hún yfirgaf ríkisstjórn og sagði skilið við Alþýðuflokkinn eftir uppgjörið mikla við Jón Baldvin, sem hún tókst á við árum saman innan flokksins.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur nú setið lengst allra þingmanna á Alþingi Íslendinga. Hún stýrir í næstu viku fyrsta þingfundi nýkjörins Alþingis í því ljósi. Jóhanna er mjög reynslumikill forystumaður innan þings og verið litríkur stjórnmálamaður alla tíð. Hún hefur setið samfleytt á þingi frá árinu 1978, árið eftir að ég fæddist, og verið alla tíð mjög áberandi í þingstörfum og lagt sig alla í verkefni stjórnmálanna og verið hugsjónapólitíkus. Það er alltaf þörf á þeim. Persónulega fagna ég endurkomu hennar og tel hana réttan einstakling á réttum stað í nýju velferðarráðuneyti.

Ég var svona að fara yfir það í huganum hvenær að mér fannst Jóhanna ná hápunkti sínum sem stjórnmálamaður, væntanlega fram að þessari endurkomu í ríkisstjórn. Það var sennilega þegar að henni tókst að sigra prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík í janúar 1999. Einhvernveginn tókst henni það sem allir töldu ómögulegt eftir eiginlega misheppnaða stofnun Þjóðvaka og hið skaðlega tap fyrir Jóni Baldvin í formannskjöri Alþýðuflokksins árið 1994 að byggja sig upp að nýju sem forystukonu á vinstrivængnum. Með því tókst henni að sópa vinstrinu að baki sér. Hún gekk að nýju í Alþýðuflokkinn í aðdraganda prófkjörsins og lagði hann að fótum sér með alveg stórglæsilegum hætti. Það var hennar toppur. Það er mjög einfalt mál.

Ég tel að það sé Samfylkingunni mjög heilladrjúgt að fela Jóhönnu ráðherraembætti aftur. Hún er mikil kjarnakona, reynd og öflug kona með farsælan pólitískan bakgrunn. Hún hefur aldrei verið nein hornkona á sínum ferli, heldur alltaf þorað að tala af krafti og verið fjarri því hikandi í sínum málefnum. Hún hefur alltaf verið talsmaður þeirra sem minna mega sín og verið öflug í sinni pólitík. Það verður gaman að sjá hana aftur í ríkisstjórn og miðpunkti þeirra verka sem hún eflaust metur mest.

mbl.is Jóhanna snýr aftur í félagsmálaráðuneytið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Vel mælt og drengilega Stefan þetta er kjarnakona!!!!Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 24.5.2007 kl. 00:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband