Í minningu Einars Odds

EOK (1942-2007)Andlátsfregn Einars Odds Kristjánssonar, alþingismanns, snart mig mjög djúpt, rétt eins og landsmenn alla. Fráfall hans er mjög sorglegt. Einar Oddur var mjög líflegur stjórnmálamaður og var áberandi í sínum verkum fyrir kjósendur sína, sem og landsmenn alla, til hinstu stundar. Það er dapurlegt að hann sé horfinn af hinu pólitíska sviði, með svo snöggum hætti, allt of snöggum, enda voru mörg verk enn óunninn. Einar Oddur var lykilmaður í mörgum málaflokkum og einn ötulasti talsmaður flokksins á þeim vettvangi. Hans verður sárt saknað.

Það er með mig eins og alla aðra sem heyrðu andlátsfregnina að ég vildi ekki trúa henni. Mér fannst það algjörlega óhugsandi að þessi mikli eldhugi hefði yfirgefið þennan heim. Það þurfti að segja mér hana tvisvar til að ég tryði henni. Í huga mér hefur Einar Oddur verið leiftrandi öflugur á öllum sviðum síns stjórnmálastarfs. Hann var jafnöflugur á sínum síðasta landsfundi og ég minnist hans á þeim fyrsta sem ég sótti. Alla tíð var hann hrókur alls fagnaðar. Hann lá aldrei á skoðunum sínum og tjáði sig óhikað um málefnin sem voru í deiglunni. Það var hans stíll, það var hans karakter.

Það getur enginn komið í staðinn fyrir Einar Odd Kristjánsson. Hann var að mínu mati sá þingmaður flokksins á seinni árum, að Halldóri Blöndal undanskildum, sem var mesti og líflegasti karakterinn. Ég hafði eiginlega aldrei áhyggjur af því í kosningunum 2003 og 2007 að hann myndi falla af þingi, þó að eflaust hafi margir óttast það, sérstaklega í kosningunum hinum fyrri, eftir erfiðan undanfara kosninganna innan raða flokksins í Norðvesturkjördæmi. Einar Oddur var þannig stjórnmálamaður að flokksmenn vildu allt af mörkum vinna til að tryggja sess hans. Hann var stjórnmálamaður af því tagi sem allir vildu allt fyrir gera. Hann hreif fólk með sér, talaði kjarnyrt mál sem náði til fólksins.

Það var að mínu mati einna eftirminnilegast frá síðustu kosninganótt að heyra kjarnyrta rödd Einars Odds að vestan, þar sem hann beið úrslitanna, fjalla um fyrstu tölur, sem gerðu ráð fyrir að hann væri búinn að missa þingsætið. Hann óttaðist ekkert og vissi sem var að sætið var öruggt, staðan myndi breytast. Það fór enda svo og það var mjög ánægjulegt að heyra í honum frá Sólbakka í beinni útsendingu að vestan, árla morguns, sigurreifan og glaðbeittan er úrslit lágu fyrir. Það er mjög dapurlegt að hann hafi ekki getað helgað sig áhugamálum sínum og notið efri áranna með fjölskyldunni þegar að löngum og annasömum vinnudegi verkanna myndi ljúka.

Það er mjög eftirminnilegt hversu öflugur Einar Oddur Kristjánsson var í tjáningu um mál sem lágu fyrir þinginu. Einar Oddur var sannur Vestfirðingur í framgöngu og tali. Hann hafði mjög sterka nærveru sem stjórnmálamaður. Hann var umfram allt skynsamur stjórnmálamaður, sem hafði sannar hugsjónir fram að færa, hvikaði aldrei frá þeim og var ötull málsvari skynseminnar á svo innilega mörgum sviðum. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að heyra hann tala um ríkisfjármál og stöðuna á vettvangi sjávarútvegs og málefni landsbyggðarinnar. Hann var sannur talsmaður landsbyggðarinnar, vann heill hennar sem mestan og var ötull talsmaður okkar hér.

Það er kaldhæðnislegt að síðasta þingræða Einars Odds Kristjánssonar hafi fjallað um andstöðu hans við tillögur frá ríkisstjórninni. Þar var hann, sem svo mörgum sinnum áður, rödd skynseminnar, hinnar einu sönnu. Hann leiftraði þá, sem ávallt áður, af mælsku og krafti. Það hvarflaði að engum á þeirri stund að þar væri svanasöngur hins öfluga Flateyrings í umræðum í þingsölum. Ég hef áður hér vikið að því þegar að hann tjáði sig óhikað og afgerandi um öryggisráðsumsóknina. Þá talaði hann af krafti, ekkert hik var að finna. Það var boðskapur sem ómaði skoðanir mjög margra innan Sjálfstæðisflokksins. 

Ég viðurkenni fúslega að mér þótti innilega vænt um Einar Odd. Ég held að allir sem hafa kynnst honum hafi hugsað til hans með hlýju. Hann var þeirrar gerðar að hann var sannur lífskúnstner sem talaði mál fólksins, náði til þess og heillaði með framgöngu sinni. Það má vel vera að einhverjir hafi orðið ósammála honum á langri vegferð stjórnmálanna en það gleymdist allt þegar að rökræðum lauk. Hann átti streng í brjósti svo margra.

Það er mikill héraðsbrestur við fráfall Einars Odds Kristjánssonar. Hann var sá þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hafði mest áhrif, utan ráðherranna, jafnvel oft á tíðum þó meiri áhrif en þeir, enda talaði hann óhikað og óþvingað þegar að hann tók til máls. Hann var vinsæll valkostur í umræðuþætti um stjórnmál. Þar naut hann sín að mínu mati best. Hann var fimur og snjall rökræðumaður, sagði sitt en svaraði með öflugum rökum og sterku tali. Hans verður sárlega minnst við ótímabært fráfall sitt.

Ég skrifaði hér langa færslu áður um Einar Odd. Fannst hún samt ekki segja allt sem ég vildi segja. Það varð að bæta við. Það er þó einfalt mál að við í Sjálfstæðisflokknum höfum mikið misst með Einari Oddi. Það kemur enginn í stað hans. Það er bara þannig. Það er svo sannarlega skarð fyrir skildi í liðsheild okkar.


mbl.is Einar Oddur Kristjánsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Þú skrifar afar fallegan texta og ég treysti mér til að taka undir hvert orð sem þú skrifar hér um Einar Odd. Hann var stórbrotinn persóna, maður sem varð að virða hvernig sem allt snerist. Hann var hrein og beinn, maður fólksins.

Ragnheiður , 16.7.2007 kl. 15:19

2 Smámynd: Kjartan Vídó

Sæll Stebbi..
Einar Oddur er einhver líflegasti karakter sem kosinn hefur verið á Alþingi Íslendinga, það var alltaf gaman að tala við Einar og maður hlustaði af mikilli eftirtekkt og virðingu. Hann fór oft á móti straumnum og alltaf stóð hann við sína sannfæringu og það mættu fleiri gera á Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur misst góðan liðsmann sem sóttist ekki eftir titlum og viðurkenningum frá flokknum. Hans verður sárt saknað í þingflokknum því öflugur talsmaður flokksins og ég kallaði hann oft verndara skattgreiðenda í fjárlaganefnd.

Kjartan Vídó, 17.7.2007 kl. 08:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband