Simpson-kvikmyndin frumsýnd í kvöld í Vermont

Simpson-fjölskyldanÍ kvöld verður kvikmyndin um Simpson-fjölskylduna frumsýnd í Springfield í Vermont. Lengi hefur verið beðið eftir kvikmynd um fjölskylduna og eftirvænting aðdáendanna eftir henni orðinn nokkur. Fjöldi bæja með nafnið Springfield börðust um að fá frumsýningarréttinn á myndinni, en staðsetning fjölskyldunnar var valin á sínum tíma í Springfield vegna þess að það var það staðarnafn sem var í flestum ríkjum landsins. Vermont varð fyrir valinu, þó ég hafi reyndar alltaf tengt Springfield við Illinois.

Það eru að verða tveir áratugir liðnir frá því að fyrsti þátturinn um hina óborganlegu og stórskemmtilegu fjölskyldu var sýndur í bandarísku sjónvarpi. Það var í desember 1989. Er þátturinn orðinn lífseigasti gamanþáttur í sögu bandarísks sjónvarps og nýtur enn gríðarlegra vinsælda. Er hann enn sýndur á besta sýningartíma og hefur haldið stöðu sinni og áhorfendatölum í gegnum þykkt og þunnt í öll þessi ár. Engin merki eru um það að sýningar á þáttunum hætti á komandi árum, vinsældirnar eru enn miklar og eftirspurn eftir ævintýrum fjölskyldunnar haldast óbreyttar.

Er óhætt að fullyrða að fáir ef nokkrir af forystumönnum Fox-sjónvarpsstöðvarinnar hafi átt von á þessum miklu vinsældum er þátturinn hóf göngu sína og hafi spáð fyrir um þau áhrif sem hann hefur haft í gegnum tíðina. Fyrstu þættirnir sem sýndir voru í desember 1989 og janúar 1990 áttu einungis að verða prufuþættir, til að kanna hvort þeir myndu ná einhverjum vinsældum. Þeir slógu í gegn og eftir það var ákveðið að klára 24 þátta seríu fram á árið 1990 til að kanna hvort eftirspurn yrði eftir frekari þáttum um fjölskylduna. Söguna þekkja allir, þættirnir ganga enn og vinsældirnar hafa eins og fyrr segir ekkert dalað.

Þátturinn hefur náð athygli almennings og verið miðpunktur í lífi fólks allan tímann og hafa á þessum tveim áratugum eignast breiðan áhorfenda- og aðdáendahóp. 400. þátturinn var sýndur núna í maí 2007. Homer, Marge, Bart, Lisa og Maggie eru svo sannarlega fjölskylduvinir heimsbúa allra, enda er þátturinn sýndur um allan heim. Samningur um gerð þáttanna stendur til ársloka 2009 á tuttugasta afmælisárinu. Verður þá tekin ákvörðun um frekari þáttagerð.

Simpson-fjölskyldan varð til í kolli Matt Groening árið 1987 og vann hann hugmyndina ítarlega áður en framleiðsla hófst formlega. Groening hefur eins og vænta má auðgast mjög á gerð þáttanna og er enn í dag einn af aðalhandritshöfundum þeirra og yfirstjórnendum. Hef ég fylgst með þáttunum vel allt frá byrjun, óneitanlega er Simpson-fjölskyldan eitt af því sem mín kynslóð og þær sem á eftir hafa komið hafa alist upp við.

Simpson-fjölskyldan er án vafa eitt af táknum tíunda áratugar 20. aldarinnar. Það verður gaman að sjá myndina og fróðlegt eiginleg að sjá hvort að framtíð Simpson-fjölskyldunnar verði í kvikmyndaformi eða hvort þetta er aðeins tilraun. Það ræðst væntanlega mikið af viðtökum myndarinnar, sem ég tel öruggt að verði smellur, enda hefur fjölskyldan haldið velli árum saman og er enn mjög vinsæl.

Simpson-stefið margfræga eftir Danny Elfman er í spilaranum hér á vefnum.


mbl.is Simpsons kvikmyndin heimsfrumsýnd í Springfield
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband