Pratibha Patil kjörin forseti Indlands

Pratibha PatilPratibha Patil hefur verið kjörin forseti Indlands, fyrst kvenna. Það kemur ekki að óvörum að hún nái kjöri, enda hefur hún í áratugi verið pólitískur fulltrúi Kongress-flokksins og verið trú Gandhi-fjölskyldunni alla tíð. Hún hefur verið héraðsstjóri Rajasthan frá árinu 2004 og sat þar áður árum saman á indverska þinginu og héraðsþingi fyrir Kongress-flokkinn. Patil tekur við forsetaembættinu af Abdul Kalam, sem kom m.a. í opinbera heimsókn til Íslands á forsetaferli sínum.

Patil komst til áhrifa innan Kongress-flokksins á leiðtogaferli Indiru Gandhi, sem er enn eina konan sem hefur orðið forsætisráðherra Indlands. Segja má því að hún hafi verið pólitísk lærimóðir hennar og í senn trúnaðarkona, en tryggð Patil við Gandhi-fjölskylduna hefur ávallt verið sterk. Indira Gandhi var lykilstjórnmálamaður í indverskri sögu, varð ekki aðeins fyrst kvenna forsætisráðherra heldur líka komin af valdaættum. Hún var dóttir Jawaharlal Nehru, fyrsta forsætisráðherra Indlands, og varð forsætisráðherra sjálf tveim árum eftir dauða föður síns og sat á valdastóli nær óslitið allt þar til að hún var myrt í október 1984.

Nehru/Gandhi-ættin hefur verið valdamikil ætt í indverskum stjórnmálum og voru þrír ættliðir hennar við völd áratugum saman. Þegar að Indira var myrt tók enda sonur hennar Rajiv við embættinu, strax innan sólarhrings. Hann missti völdin árið 1989 og var myrtur í sprengjuárás í kosningabaráttunni 1991. Þrátt fyrir dauða þeirra mæðgina héldust völdin áfram á hendi ættarinnar með forystu hinnar ítölsku Soniu Gandhi, ekkju Rajivs. Það leikur enginn vafi á því að Sonia er valdamesti stjórnmálamaður Indlands, sú sem heldur um pólitísku þræðina í landinu. Það sést vel af valinu á Patil sem forsetaefni vinstriblokkarinnar og ennfremur af sterkri stöðu hennar í kjörinu. 

Kongress-flokkurinn vann mikinn og mjög óvæntan kosningasigur á Indlandi sumarið 2004 undir forystu Soniu Gandhi. Vajpayee tapaði kosningunum mjög óvænt og varð frá að hverfa. Sonia varð ráðandi forystukona innan Kongress-flokksins þegar að Rajiv var myrtur en sótti sér þó ekki leiðtogavald innan flokksins fyrr en árið 1998, þó mjög hafi verið lagt að henni að taka við flokknum árið 1991 eftir morðið á Rajiv. Sigurinn í kosningunum 2004 tryggði Soniu stöðu til að verða forsætisráðherra Indlands, rétt eins og tengdamóðir hennar og eiginmaður áður. Mjög óvænt ákvað hún að afþakka embættið. Þess í stað varð Manmohan Singh, tryggur stuðningsmaður Soniu, forsætisráðherra.

Ein stærsta ástæða þess að Sonia hafnaði forsætisráðherraembættinu var að hún óttaðist mjög um örlög sín yrði hún forsætisráðherra, hafandi séð eiginmann sinn og tengdamóður bæði myrt í hringiðu forystuhlutverks í stjórnmálum. Þess í stað hefur Sonia Gandhi drottnað yfir indverskum stjórnmálum í gegnum aðra lykilmenn sem hafa í einu og öllu farið eftir hennar vilja. Staða Soniu er mjög sterk og kjör Patil, sem einnar nánustu pólitísku samstarfskonu hennar og afgerandi stuðningsmann Gandhi-fjölskyldunnar áratugum saman, á forsetastól staðfestir það.

Sigur Pratibhu er þó auðvitað mikill sigur fyrst og fremst fyrir indverskar konur, enda er hún aðeins annar þjóðkjörni forystumaður Indlands frá sjálfstæðinu 1948, og vonandi mun kjör hennar marka tímamót í lykilmálefnum kvenna á Indlandi.


mbl.is Patil kjörin næsti forseti Indlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband