Forræðishyggja borgarstjórans í Reykjavík

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Það er ekki hægt annað en undrast þær kostulegu yfirlýsingar sem komið hafa frá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarstjóra, um vínbúðina í Austurstræti síðustu daga. Er ég algjörlega ósammála borgarstjóranum og satt best að segja hugleiði í hvaða pólitíska átt hann er að feta með því að tjá sig opinberlega með þessum hætti. Er þetta virkilega skoðun Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík? Er leiðtogi flokksins í borginni að tala máli allra sem honum fylgja í borgarstjórninni? Það væri ekki fráleitt að kanna það.

Persónulega finnst mér það ansi ódýrt og eiginlega lélegt að ætla að hengja eitthvað "ástand" í miðborginni á vínbúð sem opin er hluta dags en er ekki beint galopin á háannatíma helgarnætur þegar að fólk skemmtir sér. Það hefur einhvernveginn aldrei fallið vel í geð hjá mér að taka upp forræðishyggju með einum eða öðrum hætti. Það er móðgun við allt hugsandi fólk að setja fram jafnmikið rugl og borgarstjórinn hefur sett fram í þessu máli. Það er einu sinni svo að vilji fólk detta í það og skemmta sér verður það sér úti um vín og lætur ekki boð og bönn stjórna sér.

Þegar að ég heyrði fyrst af ummælum borgarstjórans þurfti ég eiginlega virkilega að leita á dagatalinu í tölvunni minni hvort að það væri ekki örugglega ágúst 2007 en ekki ágúst 1987 fyrir bjórbannið. Þvílík finnst mér vitleysan. Það er eins og vinstri grænn forræðishyggjupési sé borgarstjóri í Reykjavík. Skil ekki alveg ummæli Vilhjálms Þ. sé litið á að þetta er leiðtogi hægriflokks í borgarstjórn Reykjavíkur á árinu 2007. Ef þetta er virkilega pólitíkin sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson boðar er von að spurt sé fyrir hvað hann standi í stjórnmálum.

mbl.is Vill vínbúðina burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Sigurður

Mín skoðun er sú að borgarstjóri ætti að gráta það ef vínbúðin færi úr Austurstrætinu. Við það myndi þjónustustig miðbæjarins snarlækka.

p.s. Sá sem kokgleypir þessu spinni Snæhólms ætti að endurstilla auðtrúarmæli sinn.

Jón Sigurður, 20.8.2007 kl. 17:44

2 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Sæll Stefán Friðrik fyrir norðan!

Ég er í engu liði varðandi borgarstjórann eða flokkinn hans, en fylgist með fréttum og fer daglega um miðborg Reykjavíkur. Vilhjálmur hefur tjáð sig um að honum væri ósárt um að Vínbúðin í Austurstræti flyttist annað, en ekki mér vitanlega krafist þess. Ástæðuna skil ég þá, að við blasir ógæfufólk alla morgna á sölusvæði Vínbúðarinnar í miðborginni, sem er þar til þess að komast yfir vínföng með betli og áreiti. Þetta er dapurleg staðreynd. Þú ættir að leggja leið þína nokkra daga um Laugaveginn og Kvosina í Reykjavík, og mæla þetta ástand af eigin raun. Ástand sem er alveg óskylt næturlífinu.

Hitt er svo annað mál hvort þetta ógæfufólk sem telur einhverja tugi á að ráða því hvar vínbúðir eða barir eru - eða eru ekki. Það er mergurinn málsins að þessi hópur á betra skilið en vera látið reka á reiðanum í kerfinu.

Herbert Guðmundsson, 20.8.2007 kl. 17:52

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Ég er ósammála borgarstjóranum í þessu máli og tjái það alveg hreint út. Hér í miðbæ Akureyrar er verslun ÁTVR. Ætti þá að loka henni vegna þess að þar er svo mikið af fólki sem fer um alla daga og mögulega gæti orðið dagdrykkjufólk og misst fótanna. Held ekki. Finnst eftiráskýringar borgarstjórans ekki sannfærandi.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.8.2007 kl. 18:18

4 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Þessi núverandi borgarstjóri okkar er frekar fljóthugsa og fljótfær í ákvarðanatöku varðandi borgarmálefni hverju sinni og það hefur einatt verið kosnaðarsamt fyrir borgarbúa.

Það er ekki langt liðið frá því að Vilhjálmur ákvað að spilasalur Háspennu fengi ekki að opna í Mjóddinni. Þessi ákvörðun hans kostaði Borgina milljónir. Bruninn á húsum í Austurstræti og Lækjargötu varð einnig tilefni skjótra viðbragða borgarstjóra sem dressaði sig í búning skökkviliðsmanna og gaf út yfirlýsingar að Borgin kæmi að enduruppbyggingu þar.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 20.8.2007 kl. 18:22

5 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Sæll Stefán Friðrik fyrir norðan, aftur!

Um hvað ertu ósammála borgarstjóranum? Og hvaða eftiráskýringar hefur þú í huga?

Er sambærilegt ástand í miðbæ Akureyrar og á miðsvæði Reykjavíkur, vaðandi þetta vandamál?

Herbert Guðmundsson, 20.8.2007 kl. 18:33

6 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ég bý í kópavogi og hef kanski ekki of miklar áhyggur af borgarstjóranum í reykjavík en hann er varla að framfylgja stefnu sjálfstæðisflokksins með sínum málflutningi.

Óðinn Þórisson, 20.8.2007 kl. 20:05

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Stebbi, langaði að spyrja þig hvort þú hefðir séð hádegisviðtalið við Sif, hefð haft gaman af að heyra skoðun þína á því, fannst það frekar undarlegt, en kannski var ég í skrítnum gír. Mér fannst þetta semsagt hvorki fugl né fiskur og skildi ekki hvaða upplýsingum var verið að koma á framafæri og hverjum til hagsbóta. kær kveðja norður

Ásdís Sigurðardóttir, 20.8.2007 kl. 20:35

8 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Stebbi Fr...Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið flokkur forræðishyggju og það er ekkert nýtt. Ef það er að koma þér á óvart kemur það mér mjög á óvart því þú hefur verið þarna innanborðs nokkuð lengi. En flokkurinn hefur barist fyrir því fyrst og fremst að hafa forræðishyggju að leiðarljósi til að verja hagsmuni útvalinna. Vilhjálmur er að gera sitt besta en hann kann þetta bara ekki betur.

Jón Ingi Cæsarsson, 20.8.2007 kl. 20:38

9 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Herbert: Í mínum huga er þetta prinsippmál. Ef menn ætla að segja að þessi verslun sé ein og sér lykilvandamál eru menn að segja að allar verslanir séu vandamál og opna umræðu um þær allar. Mér finnst þetta ekki geðslegur málflutningur hjá borgarstjóra og finnst hann ekki boðlegur, komandi frá leiðtoga hægriflokks í borgarstjórn, en kannski er Villi ekki heill hægrimaður. Það getur meira en vel verið, skv. þessu. Ég sé vel að ég er ekki eini hægrimaðurinn sem undrast málflutning borgarstjórans og tel að það séu ekki allir sáttir við þetta tal hans, sérstaklega meðal flokksbræðra hans í borginni. Eftirátal hans um að hann hafi bara sagst ekki gráta að hann fari finnst mér kostulegt. Eins og sést af fyrirsögn fréttar mbl.is um málið er þetta túlkað sem svo að hann vilji búðina burt. Það er sami skilningur og ég og ótalmargir fleiri lögðu í málið.

Óðinn: Villi er fínasti maður, en hann er ekki að gera góða hluti í þessu máli. Tek undir orð þín.

Ásdís: Alveg sammála. Þetta viðtal Lóu við Siv var stórundarlegt. Hafði ekki séð það en horfði á það eftir þessi orð þín. Fannst þetta vera viðtal um ekki neitt. Var byrjað á að tala um hvað Siv væri að brasa og hún sagðist vilja veita ríkisstjórn hveitibrauðsdaga. Þeir eru að verða búnir og fróðlegt að sjá hvernig að Framsókn ætlar að act-a eftir það. Svo var farið í sleggjudóma um Gulla, eftirmann Sivjar, sem mér fannst frekar kostulegt enda átti ég ekki beinlínis von á að Siv myndi hrósa honum. Svo rann þetta viðtal út í duftið rólega. Ekki gott viðtal.

Jón Ingi: Ég hef aldrei litið á mig sem forræðishyggjumann og hef jafnan talað gegn henni. Gott dæmi var það um daginn þegar að bæjarstjórinn á Akureyri tók þá arfavitleysu ákvörðun að meina hluta sjálfráða fólks um aðgang að tjaldsvæðum bæjarins. Það var vond ákvörðun sem meirihluti bæjarstjórnar stóð ekki einu sinni heill að.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.8.2007 kl. 21:00

10 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Er algjörlega ósammála þér. Það er enginn misskilningur í málinu. Mér finnst Pawel á Deiglunni orða mjög vel skoðanir mínar og fleiri á þessu máli í góðum pistli í dag. Þó að Villi sé stjórnmálamaður í forystu innan míns flokks dettur mér ekki í hug að styðja tal hans í þessu máli og ég sé vel að fleirum en mér innan flokksins blöskrar framganga hans.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.8.2007 kl. 21:23

11 Smámynd: Haraldur Haraldsson

þetta er alveg rétt hjá Friðrik,svona tala ábyrgir  menn ekki í okkar flokki/HalliGamli

Haraldur Haraldsson, 20.8.2007 kl. 21:48

12 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Það fer eiginlega um mig aulahrollur að fylgjast með Villa í þessu máli.

Eru apótekin þá ekki næst úr miðbænum.... og svo matvörubúðir.  Ekki viljum við að rónanir eigi möguleika á því að kaupa sér spritt og bökunardropa, eða hvað?

Hafrún Kristjánsdóttir, 20.8.2007 kl. 23:43

13 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Ég hef þá skoðun að ef ógæfufólk ónáðar annað fólk, eða ef gæfufólk ónáðar ógæfufólk, þá beri yfirvöldum að skerast í leikinn þ.e. að löggæslan á að halda slíku í skefjum í hverju tilviki fyrir sig.  Lokun tiltekinna staða eða almenn boð og bönn eru svo fjarstæð að það tekur engu tali.  Og lokun vínbúða vegna þess að fámennur hópur viðskiptavinanna telst "ógæfufólk" er fráleit hugmynd. 

Mikið hefur verið talað um þá ákvörðun bæjaryfirvalda á Akureyri að banna 18-23 ára fólki að tjalda á tjaldstæðum bæjarins um Verslunarmannahelgina.  Var þetta rökstutt með því að lögreglan hefði haldð því fram að árið áður hefðu 80% þeirra sem hún hafði afskipti af verið á þessum aldri.  Ekki fylgdu nein gögn þessum ummælum um aldurssamsetningu hátíðargesta á síðasta ári, málafjölda eða eðli mála eða neitt annað.  Voru heildarmálinu 10 og þar af 8 þar sem 18-23 ára komu við sögu.  Voru 80% samkomugesta á þessum tiltekna aldri.  Voru tekin inn í tölurnar afskipti sem ekki leiddu til kæru, aðstoðarbeiðnir o.þ.h. eða var eingöngu stuðst við sakfellingar.  Reyndar hef ég fylgst með heimasíðum dómstólanna og þar er ekki að finna mörg sakamál sem komu upp á Akureyri um Verslunarmannahelgina árið 2006.  Hvernig sem þetta er vaxið þá var heilum árgöngum ungs, tápmikils, kurteiss og ábyrgs fólk úthýst frá Akureyri á síðustu stundu.  Öllum bar saman um að hátíðin hefði verið til fyrirmyndar enda var ekki nema þriðjungur þess fólks sem venjulega er hér.  En hvernig mátti það þá vera að lögreglan fyllti fangageymslurnar aðfararnótt mánudagsins?

Hvað væri sagt ef borgaryfirvöld í Georgíu í USA kæmust að þeirri niðurstöðu að 80% þeirra sem lögregla hefði haft afskipti af þann 4. júlí sl. hefðu verið svertingjar.  Þess vegna yrði öllum svertingjum bannað að koma til borgarinnar næst þegar haldið yrði upp á þjóðhátið Bandaríkjanna.  Ég er hræddur um að þetta gengi illa upp en þó eru þetta samskonar rök og bæjaryfirvöld á Akureyri notuðu.

Vandamál tengjast allri mannlegri hegðun.  Lögbrog fylgja allir atvinnustarfsemi.  Á þá að banna hana?   Allir þekkja til "grænmetissamráðsins" um árið og "olíusamráðsins" í framhaldi af því.  Á að banna framleiðslu og sölu á grænmeti eða olíum og eldsneyti?  Nei, auðvitað ekki.  Við eigum að stemma stigu við lögbrotunum sjálfum en ekki að útrýma umhverfinu sem þau þrífast í.  Til þess þyrftum við að útrýma mannlegu samfélagi og sennilega mannkyninu sjálfu.

Hreiðar Eiríksson, 20.8.2007 kl. 23:43

14 Smámynd: Jón Sigurður

Það sem er kannski sorglegast í þessu máli fyrir borgarstjórann er að hann þurfi að senda spunadreng sinn á vetfang til að útskýra orð sín.

Hví treysti gamli góði Villi sér ekki til að útskýra sjálfur sínar skoðanir og málflutning?

Jón Sigurður, 21.8.2007 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband