Áratugur frá andláti Díönu, prinsessu af Wales

Díana prinsessa af Wales Áratugur er liðinn frá því að Díana, prinsessa af Wales, fórst í hörmulegu bílslysi í París. Mikið hefur verið rætt og ritað um ævi og örlög Díönu prinsessu, bæði fyrir og eftir sviplegt andlát hennar. Óhætt er að fullyrða að hún hafi verið ein mest áberandi og myndaða kona 20. aldarinnar og sett svip sinn á samtíð sína með mjög miklum hætti. Hún var sannkölluð fjölmiðlastjarna sem skreytti bresku konungsfjölskylduna og var áberandi bæði fyrir og eftir að hún varð hluti hennar.

Díana heillaði allan almenning um leið og hún var kynnt fyrst fyrir fjölmiðlum fyrir 26 árum og var athyglisvert mótvægi við Karl, Bretaprins, sem hún giftist hinn 29. júlí 1981. Sögulega séð verður hennar sennilega helst minnst fyrir að hafa gifst ríkiserfingjanum og að vera móðir væntanlegs konungs Bretlands, Vilhjálms, Bretaprins. Brúðkaup Díönu og Karls í St. Paul's dómkirkjunni í London í júlí 1981 var á þeim tíma kallað brúðkaup aldarinnar. Hjónaband þeirra virtist í upphafi ætla að styrkja konungdæmið í Bretlandi og verða hamingjusamt. Eignuðust þau synina William og Harry á fyrri hluta níunda áratugarins. Brestir komu þó fljótt í hjónabandið og þau skildu að borði og sæng í desember 1992, 11 árum eftir giftinguna.

Lögskilnaður þeirra varð svo að veruleika í ágúst 1996 og hélt Díana titli sínum sem prinsessan af Wales, en ekki sem hátign. Díana, prinsessa, gerði grein fyrir sinni hlið fallandi hjónabands síns í frægri bók árið 1992. Á þeim tíma var ekki gefið upp að hún væri heimildarmaður bókarinnar en Andrew Morton ljóstraði loks formlega upp um það eftir lát hennar. Þó varð öllum ljóst að Díana sjálf hefði veitt viðtöl vegna bókarinnar og hún hafði leyft nánustu vinum sínum að tjá sig um hjónaband hennar og árin ellefu í hjónabandinu við Karl. Í bókinni kom fyrst fram opinberlega að Díana hefði verið haldin átröskunarsjúkdómnum búlimíu og jafnvel reynt að svipta sig lífi vegna þunglyndis.

Fyrir nokkrum árum voru fyrst birtar opinberlega hljóðupptökur af samtölum Díönu við Andrew Morton, ævisöguhöfund hennar, en samtölin voru hljóðrituð árið 1991, ári fyrir útgáfu bókarinnar. Árið 1995 tjáði hún sig svo opinberlega í fyrsta skipti um hjónabandið í viðtali í þættinum Panorama og lét ekkert eftir liggja í frásögnum. Bæði bókin og sjónvarpsviðtalið sýndi ævintýraprinsessuna í nýju ljósi. Á bakvið brosin og gleðina sem á yfirborðinu voru sýnileg í fjölmiðlum var eymd og sársauki. Þetta kom vel fram seinustu æviár hennar. Í raun má segja að uppljóstrun þessara þátta hafi sýnt Díönu í öðru ljósi og haft áhrif á það hvernig sagan metur hana.

Allir sem upplifðu sunnudaginn 31. ágúst 1997 muna eftir því hversu mjög andlát hennar kom á óvart. Segja má að flesta hafi sett hljóða við fregnina um dauða hennar. Það gerði ég allavega. Þó að ég hafi farið að sofa þessa nótt vitandi um slysið taldi ég að hún myndi hafa það af. Hún var lifandi táknmynd ferskleikans, talin mest verndaða kona heims þrátt fyrir breytta stöðu sína. Ekkert átti að geta hent hana. En það er ekkert öruggt í þessari tilveru. Fráfall hennar snerti marga. Það er sennilega best að segja sem svo að andlát hennar hafi sett mark sitt á almenning allan.

Um London var blómahafið ótrúlegt þennan dag og þá sem á eftir fylgdu, fólk kom með blóm í miðborg London við heimili hennar í Kensington-höll og við Buckingham-höll til minningar um hana, og sorgin var ólýsanleg. Vikan sem leið frá sviplegu fráfalli hennar til jarðarfararinnar var ólýsanlegur tími sorgar og hluttekningar almennra borgara í garð konu sem fallið hafði frá - konu sem flest þeirra höfðu aldrei talað við en töldu sig þekkja af kynnum sínum af henni í fjölmiðlum og í fjarlægð meðan hún var eiginkona ríkisarfa Bretlands og móðir væntanlegs konungs Bretlands. Og hún skók heilt konungsveldi eftir dauða sinn. Staða hennar varð staðfest heldur betur.

Í kvöld sýndi Ríkissjónvarpið ítarlega leikna heimildarmynd um síðustu vikurnar á ævi prinsessunnar. Virkilega vel gerð mynd og áhugaverð. Lýsir því sem tók við þá tvo mánuði sem hún lifði eftir síðasta afmælisdag sinn. Þar kom enn eitthvað nýtt fram sem varpar ljósi á hin sorglegu endalok. Hélt ég að það væri varla hægt lengur. Hef ég sennilega lesið yfir tíu bækur um þennan atburð, séð heimildarmyndir og lesið á netinu margt um dauða prinsessunnar og þáttaskilin sem fylgdu því, þegar að konungsfjölskyldan var sökuð um að sýna ekki sorg með áberandi hætti og drottningin var beygð er yfir lauk - þurfti m.a. að minnast prinsessunnar í sögulegu ávarpi.

Þetta voru svo sannarlega sögulegir tímar. Í myndinni fór Genevieve O'Reilly vel með hlutverk prinsessunnar og var sérstaklega áhugavert að heyra viðtölin inn á milli leiknu hlutanna. Heilt yfir var þetta ágætis sjónarhorn á þessa atburði, sem enn er skrifað svo mikið um og spáð í frá öllum sjónarhornum. Prinsessunnar var minnst í dag með látlausum en virðulegum hætti. Sess hennar er enn afgerandi, þó tímarnir hafi vissulega breyst. Ég sá myndklippur frá minningarathöfn um hana á Sky í kvöld. Þar flutti Harry prins þá einlægustu og fallegustu ræðu sem ég hef heyrt um prinsessuna - sönn og hjartnæm ræða.

Það er enn velt fyrir sér því hvað gerðist í París laust eftir miðnætti sunnudagsins 31. ágúst 1997 þegar að prinsessan og Dodi voru hundelt um göturnar og þar til að áreksturinn átti sér stað. Enn eru samsæriskenningar og vangaveltur að koma til sögunnar, enn fleiri sjónarhorn. Það heiðarlegasta sem fjölmiðlar myndu nú gera væri að láta málinu lokið. Fjölmiðlaprinsessan er öll, það er langt síðan. Þessu tímabili er lokið. Hún á það skilið að fá að hvíla í friði, þó hennar verði ávallt minnst þegar að nafn hennar ber á góma eða mynd hennar sést. Hún var einfaldlega það einstök.

mbl.is Lát Díönu ólýsanlegt áfall segir Harry prins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góð grein Stefán ,eins og þer er einum lagið/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 1.9.2007 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband