Hveitibrauðsdögum vinsællar ríkisstjórnar lokið

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir Hveitibrauðsdögum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lauk í gær, en þá hafði stjórnin setið í 100 daga. Mánuður er í dag þar til að þing kemur saman, en þar mun væntanlega fyrst reyna á styrk stjórnarinnar og hvernig hún tekst á við stórmál. Vangaveltur eru vissulega um hversu öflug stjórnin verði, en áberandi hefur verið hversu mikið hefur verið um skeytasendingar milli þingmanna stjórnarflokkanna, t.d. síðustu daga milli Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, og Sigurðar Kára Kristjánssonar vegna vatnalaganna.

Skv. nýjustu könnun Gallups styðja 80% landsmanna ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þetta er einn mesti stuðningur við ríkisstjórn hérlendis í skoðanakönnunum til þessa og greinilegt að hún hefur afgerandi umboð til verka og stuðningur landsmanna við hana er afdráttarlaus, altént á þessum tímapunkti. Hún hefur gott veganesti til verkanna. Vald hennar er mikið og t.d. er hún svo sterk á Alþingi að hún getur veitt afbrigði við þingmál án liðsinnis frá stjórnarandstöðunni.

Ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens mældist með um 80% stuðning í upphafi er hún var mynduð fyrir tæpum þrem áratugum, í febrúar 1980, en síðar seig mjög á ógæfuhliðina. Telst sá stuðningur sá mesti við ríkisstjórn í sögu landsins fram að þessu, en taka skal þó fram að sú mæling var í könnunum Dagblaðsins á þeim tíma og áður en Gallup-kannanir voru komnar til sögunnar í þeirri mynd sem nú þekkist hérlendis. Sú stjórn var mynduð við mjög umdeildar aðstæður og eftir langvinna stjórnarkreppu. Vinsælustu stjórnir til þessa í mælingum Gallups eru ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar á tíunda áratugnum.

Staða ríkisstjórnarinnar er eins og fyrr segir mjög afgerandi og þessi mæling segir allt sem segja þarf um hversu góðan byr hún hefur frá landsmönnum. Það er ekki öfundsvert að vera í stjórnarandstöðu við þessar aðstæður og óhætt að segja að reyna muni á stjórnarandstöðuflokkanna í þeirri erfiðu stöðu sem uppi er fyrir þá og sést afgerandi með þessari Gallup-könnun. Stjórnin er svo voldug að hún hefur þingið algjörlega í hendi sér. Best sást það skömmu fyrir þinglok með kosningum í landskjörstjórn og kjörstjórnir í kjördæmum, en af fimm sætum hefur stjórnarmeirihlutinn fjögur til ráðstöfunar.

Stjórnarandstaðan er því vissulega að vakna upp við hlutskipti sitt. Samt sem áður mun hún eflaust bíta vel frá sér á næsta þingvetri þó staða flokkanna sem hana mynda sé veik. Við öll sem fylgjumst með stjórnmálum vonumst auðvitað eftir því, enda er ekkert gaman af stjórnmálum ef stjórnarandstaðan er veik og máttlaus og hún verður því að stíga vel í lappirnar og sanna sig. Þar tekur við erfið vinna við að yfirstíga gremju milli aðila og fróðlegt að sjá hvernig það gengur.

Reyndar fylgir könnun frá Gallup með þessari mælingu á stjórnina. Þar kemur fátt að óvörum. Stjórnarflokkarnir halda sínu og eru að mælast með 70% fylgi, ótrúlega sterk staða sem kemur ekki að óvörum sé litið á sterka stöðu ríkisstjórnarinnar. Stóru tíðindin eru þau að Framsóknarflokkurinn er ekkert að græða milli mánaða, þrátt fyrir formannsskipti og kjör nýs varaformanns. Hann mælist innan við 10%. Þar eru framundan erfiðir tímar við uppbyggingu, svo mikið er ljóst.

Finnst reyndar fréttamat mbl.is stórundarlegt þegar kemur að þessari könnun. Þar stendur í fyrirsögn að stuðningur við stjórnina dali. Vissulega minnkar mælingin um 3% á milli mánaða, en það virkar hjákátlegt sem fyrirsagnaefni þegar á það er litið að stjórnin mælist með 80% stuðning, sem er söguleg mæling í okkar stjórnmálasögu. Fyrirsögnin hefði því auðvitað átt að snúast að því að aðeins 20% landsmanna styðja ekki stjórnina. 

Það væri hvaða stjórn sem er hreykin af því í lýðræðisríki að njóta 80% stuðnings kjósenda í könnun. Það sýnir sterka stöðu stjórnvalda. En nú er hveitibrauðsdögunum lokið og alvaran tekur við. Það er spennandi þingvetur framundan og nú reynir á ríkisstjórnina og verk hennar.

mbl.is Stuðningur við ríkisstjórnina dalar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband