Sigurjón talar hreint út - átakafundur frjálslyndra

Guðjón Arnar Átakafundur stuðningsmanna Frjálslynda flokksins stendur nú yfir á Grand Hótel ef marka má fréttir. Þar mun verða talað hreint út um samskiptavanda almennra flokksmanna við forystuna og ólguna sem skapast hefur vegna ráðningar framkvæmdastjóra. Sigurjón Þórðarson, fyrrum alþingismaður, hefur nú sagt opinberlega að Guðjón Arnar Kristjánsson hafi lofað sér framkvæmdastjórastöðu flokksins í aðdraganda kosninga næði hann ekki endurkjöri hér í Norðausturkjördæmi.

Lengi vel vildi Sigurjón ekki tala um ágreininginn vegna ráðningar framkvæmdastjóra en hefur rofið þögnina vegna þessa máls. Það er nokkuð um liðið frá því að ég fékk frá áreiðanlegum heimildum fregnir um þennan ágreining og sagði frá honum hér á vefsíðunni síðsumars. Allt sem þar var sagt hefur reynst rétt og hefur síðar verið staðfest af Sigurjóni sjálfum í fjölmiðlum. Sögusagnir hafa verið um að framkvæmdastjórn Frjálslynda flokksins hafi gengið frá ráðningu Magnúsar Reynis Guðmundssonar í stöðuna fyrir tíu dögum en flokksforystan hefur ekki viljað opinbera það formlega, sem sýnir ólgu málsins.

Sigurjón Þórðarson hefur gefist upp á þægilegheitum í þessu máli eftir stigmagnandi ólgu milli flokksforystunnar og grasrótar flokksmanna sem styðja Sigurjón. Það er greinilegt að tekist er á, að mestu hefur það verið bakvið tjöldin en ólgan er að koma æ betur upp á yfirborðið og farið er að tala í fjölmiðlum um þessi mál með mun hvassari hætti en áður. Það vekur athygli að Sigurjón tali svo áberandi um stöðu mála, eins og mun hafa verið í Fréttablaðinu í morgun og í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Fundurinn sem fyrr um ræðir átti fyrst að vera á Sægreifanum en þess í stað verður hann á Grand Hótel. Það verður fróðlegt að heyra af honum og ekki síður hvort að forysta flokksins mæti til fundar til að tala við almenna flokksmenn. Frjálslyndi flokkurinn er löngu þekktur fyrir eigin sundurlyndi og innan við ár er síðan að stofnandi flokksins og dóttir hans, Margrét Sverrisdóttir, yfirgáfu hann. Varla virðist horfa til bjartari tíðar ef marka má þessa ólgu sem við blasir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Almennir flokksmenn eru að hittast til að ræða þessi mál. Það er ólga þar alveg greinilega. Það er fjallað um þetta í þessari frétt.

Þetta er vandræðalegt mál fyrir Frjálslynda flokkinn. Sigurjón hefur verið mjög áberandi í innra starfi hans og unnið honum mikið gagn. Hann fór með flokkinn hér í Norðausturkjördæmi í meira fylgi en margir höfðu spáð og hefur haft sterka stöðu á Norðurlandi vestra. Hefur verið með vinnusamari mönnum í forystusveit hans.

Þetta er rosalegt klúður þetta mál. Sigurjóni er lofað framkvæmdastjórastöðu í flokknum. Var það ekki svikið? Sögurnar segja það. Auðvitað eru átök. Það sést af yfirlýsingum Sigurjóns sem talar um svik forystunnar í sinn garð. Þetta er sama gamla afneitunin og var þegar að mál Margrétar Sverrisdóttur reið yfir. Allir eiga að vera að breiða út ósannar sögur um þennan flokk. En þessar sögur eru mjög sannar. Það sést vel af átökum aðila innan flokksins á bloggsíðum, þar sem m.a. ritari flokksins hefur tekist á við almenna flokksmenn í kommentum.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.9.2007 kl. 23:05

2 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það vita allir í hvaða tjóni ff er og ætla ég ekki að minnast á þann skrípaleik sem þeirra landsfundar var - kæmi mér ekki á óvart að Guðjón Arnar gengi aftur í Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar.

Óðinn Þórisson, 22.9.2007 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband