Endalausar kjaftasögur í McCann-málinu

McCann-hjónin Það er að verða erfitt að koma tölu á allar kjaftasögurnar sem hafa grasserað í máli Madeleine McCann. Áður voru foreldrarnir sakaðir um að hafa valdið dauða hennar en nú er spunnið sig áfram og komið með kjaftasögur um að lögreglan vinni með þá hugdettu að stelpan hafi verið jörðuð á Spáni vikum eftir meintan dauða sinn. Finnst þessar endalausu kjaftasögur satt best að segja þreytandi og gera málið enn ruglaðra en ella.

Þetta mál er reyndar allt í heildina að verða hálfgerð óraunveruleikasaga hin mesta. Ef ekki væri hin napra hlið þessa máls sem við höfum öll séð í fréttum og það hversu nístandi sönn sagan er í grunninn væri freistandi að halda að þetta væri allt eitt leikrit frá a-ö. Eftir því sem ég heyrði á Sky í kvöld telur lögreglan að Madeleine McCann hafi verið jörðuð á Spáni 3. ágúst sl, þrem mánuðum eftir hvarf hennar. Er þar talað um tveggja tíma mögulega fjarveru þeirra á Spánarferðalaginu.

Það getur varla verið að lögregla sem viðhefur almennileg vinnubrögð vinni með þetta sem möguleika. Þetta hljómar mjög óraunverulegt. Ofan á allt annað er frekar fjarstæðukennt að saka McCann-hjónin um þetta á þessum tímapunkti, en þau hafa verið hundelt af fjölmiðlum nær allan þann tíma sem þetta mál hefur verið í heimspressunni. En margt hefur svosem verið sagt í kjaftasögum síðustu vikna og ekki er það allt satt. Þetta er saga af þeim kalíber að ansi langt virðist gengið í skáldsögugírnum og kannski hafa þeir sem komu henni af stað horft á einum of marga spennuþætti.

Það er sorglegt að enn sé þetta mál á hálfgerðum byrjunarreit. Það vekur mikla athygli hvað portúgalska lögreglan virðist blankó í rannsókn sinni - þaðan kemur fátt nýtt. Enn hefur lögreglan ekkert í höndunum sem sannar neina atburðarás með marktækum hætti; ekkert lík hefur fundist og atburðarásin sem þeir hafa unnið með er mjög brothætt svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þar er fátt fast í hendi en þess þá meira laust í reipunum.

mbl.is Tilgáta um að Madeleine hafi verið jörðuð á Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Huh!
Það getur varla verið að lögregla sem viðhefur almennileg vinnubrögð vinni með þetta sem möguleika. Þetta hljómar mjög óraunverulegt. Ofan á allt annað er frekar fjarstæðukennt að saka McCann-hjónin um þetta á þessum tímapunkti, en þau hafa verið hundelt af fjölmiðlum nær allan þann tíma sem þetta mál hefur verið í heimspressunni

Þú ættir kannski að bjóða fram krafta þína:) En svona í alvöru Stefán... heldurðu að það sé ekki óhætt að vera nokkuð viss um að þeir, þe lögreglan, viti eitthvað sem þú veist ekki. Einhverjar forsendur sem þeir vinna útfrá og er lógísk þó svo að þér finnist þetta skrítið :)  

Heiða B. Heiðars, 29.9.2007 kl. 02:42

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Tek undir með Heiðu.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 29.9.2007 kl. 08:17

3 Smámynd: Óðinn Þórisson

Því miður held ég að portúgalska lögreglan hafi því miður klúðrað rannsókninni og örlög Madeleine verði aldrei upplýst.

Óðinn Þórisson, 29.9.2007 kl. 09:32

4 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Það er ekki verið að leika með neinar kjaftasögur,og það er ekki verið að koma sökinni yfir á hjónin,þau hafa réttastöðu grunaðs,og þegar svona er þá hlýtur það að vera eðlilegt að rannsaka gjörðir og ferðir þanns sem grunaður er, sem er gert í þeirra tilviki.Á einum mánuði höfðu hjónin ekið bíl sínum 2750 km,sem er nokkuð mikið.Þau fóru til Huelva sem er í um 250 km fjarlægð frá Praia da Luz þar sem þau dvöldu,og þau fór á tímasetningu þegar mestu hátíðarhöld sumarsins stóðu yfir,allt lokað nema barir og veitingastaðir,Portúgalska lögreglan segist ekki vera með neitt mál í höndunum fyrr en þau hafa fundið Madeleine á lífi eða látna.

María Anna P Kristjánsdóttir, 29.9.2007 kl. 10:12

5 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Það er ekki verið að leika með kjaftasögur,hjónin hafa réttarstöðu sem grunuð og er því ekki óeðlilegt að þau séu rannsökuð,hvað þau gera og hvert þau fara.Á einum mánuði höfðu hjónin ekið 2750 km sem þykir nokkuð mikið.Þau völdu að fara til Huelva sem er í u.þ.b. 250 km fjarlægð frá Praia da Luz,þau fóru á tímapunkti sem mestu hátíðarhöld sumarsins stóðu yfir,allt fullt af fólki allstaðar að,en allt lokað nema veitingarstaðir og barir.Lögreglan í Portúgal sem fer með málið segir að þeir verði að finna Madeleine litlu hvort sem er á lífi eða látin,ef barnið finnst ekki hafa þeir ekkert til að vinna úr.Ekker mál.

María Anna P Kristjánsdóttir, 29.9.2007 kl. 10:25

6 identicon

Og svo finnst mér vert að benda á það, að hjónin eru algjörlega ástæðan fyrir því að vera svona hundelt. Það voru þau sem fóru svona rosalega sterkt inn í pressuna til að auglýsa hvarfið. 

Hvað haldið þið annars að séu mörg börn sem eru týnd? Sem er "rænt"? Af hverju hefur þetta mál verið svona mikið í fjölmiðlum? Af hverju fer faðirinn til Bandaríkjanna til að ræða um málið? Af hverju fá McCann hjónin áheyrn hjá páfanum??? Allar þessar bresku stjörnur og auðkýfingar hafa lýst yfir stuðningi og það er vel - en upphaf fjölmiðlafársins kemur algjörlega frá hjónunum.

Saklaus þar til sekt er sönnuð - það er mottó, en um leið og það hljómar ótrúlega andstyggilega, þá munu hjónin aldrei losna undan kjaftasögunum ef Madeleine finnst ekki, lífs eða liðin. Mér finnst rétt að athuga allar gloppur í máli eins og þessu. Portúgalska lögreglan hefur sannarlega gert mistök (í byrjun málsins), en hafa aðgerðir hjónanna verið samvinnuþýðar? Eru hjónin að reyna að breiða yfir eitthvað? Er portúgalska lögreglan að reyna að breiða yfir eitthvað?

Á meðan unnið er að öllum mögulegum svörum, þá gerum við okkur grein fyrir því að kenningar munu koma og fara jafnharðan. Málið er orðið virkilega þreytt í hugum sumra, og athyglin að því rosaleg - sérstaklega með tilliti til þeirra sem hafa sannarlega líka "týnt" börnunum sínum.

Maður biður til alls þess sem gott er, að Maddy litla finnist heil á húfi, en líkurnar minnka með degi hverjum - og allir möguleikar opnir ... þetta ku vera lítill heimur svona þegar kemur til tækninnar og ferðamöguleika, en þegar verið er að leita að 4 ára stelpu, þá er nálin orðin svo lítil og heystakkurinn stór. 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 29.9.2007 kl. 10:26

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Það er staðreynd að portúgalska lögreglan klúðraði rannsókninni á frumstigi. Því verður varla breytt hversu mikil mistök voru þá gerð. Það var ekki fyrr en lögregluyfirvöld í Bretlandi komu að málinu sem það komst eitthvað áfram. Hinsvegar eru þessar kjaftasögur í fjölmiðlum hvimleiðar. Þær hafa ekki alltaf reynst sannar, gott dæmi eru kjaftasögurnar um DNA-sýnin sem voru mjög orðum auknar. En það er enginn að kvarta yfir því svosem að málið sé kannað. En á meðan að ekkert lík er í höndunum, trúverðug grunnsaga um hvað gerðist og heil mynd af því hvernig foreldrarnir fóru að því að halda líkinu leyndu finnst mér þetta ótrúverðugt. Finnst það mjög fjarlægt að þau hefðu getað haldið líkinu leyndu í þrjá mánuði.

Stefán Friðrik Stefánsson, 29.9.2007 kl. 10:59

8 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Það er alltaf verið að segja að portúgalska lögreglan hafi gert mistök,málið hefur verið rannsakað sem mannsrán frá fyrsta degi,vegna þess að foreldrarnir hafa alltaf sagt að henni hafi verið rænt,hvað átti portúgalska lögreglan að gera rannsaka málið  strax sem morð,ég er nú ansi hrædd um að þá hefði lögreglan verið vanhæf.Ég skal vel viðurkenna að portúgalska lögreglan hefur ekki mikla reynslu í svona málum enda eru þau mjög fá á þessum slóðum,það var vegna þessa sem lögreglan sjálf bað um aðstoð  frá Bretum þar sem málið varð alltaf flóknara með hverjum degi sem leið.

María Anna P Kristjánsdóttir, 29.9.2007 kl. 12:07

9 Smámynd: Marta B Helgadóttir

100% sammála hverju orði hjá honum Dodda hérna. 

Marta B Helgadóttir, 29.9.2007 kl. 13:31

10 Smámynd: Sigurbjörg Sigurðardóttir

En fyrigefið,þó þau séu læknar kvernig áttu þau að geta geimt líkið í 3 mánuði,og í þessum hita.Voru þau með faldna fristikistu?? Ég bara spyr,maður verður að nota skinsemina.

Sigurbjörg Sigurðardóttir, 29.9.2007 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband