Meirihlutinn springur - Dagur B. borgarstjóri

Meirihluti myndaður í maí 2006 Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavík er sprunginn. Myndaður hefur verið nýr meirihluti Framsóknarflokks, Samfylkingar, VG og F-listans og mun Dagur B. Eggertsson verða nýr borgarstjóri í Reykjavík. Skjótt skipast veður í lofti. Innan við sólarhring eftir átakafund í borgarstjórn þar sem augljóst var að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var einangraður hefur honum verið sparkað úr embætti.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík svaf gjörsamlega á verðinum. Það var augljóst í gær að þreifingar voru hafnar á milli minnihlutaaflanna, sérstaklega Dags B. Eggertssonar og Björns Inga Hrafnssonar og greinilega var allt sett upp með þeim hætti að allt væri galopið. Þannig talaði altént Björn Ingi svo eftir var tekið. Sjálfstæðismenn sem hefðu getað stokkað stöðu mála upp og hefðu getað verið með pálmann í höndunum misstu málið úr höndum sér.

Heldur er þetta háðugleg endalok á stjórnmálaferli hins svokallaða gamla góða Villa. Það var orðið vel ljóst á síðustu dögum að grundvöllur hans væri brostinn í embætti borgarstjóra og það hefði verið heiðarlegast og best fyrir sjálfstæðismennina sex að halda í aðrar áttir þegar á því var tækifæri. Þetta spil hefur allt undið mjög hratt upp á sig og hlýtur að vera gríðarlegt áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn.

Eftir tólf ára minnihlutasetu hafði Sjálfstæðisflokkurinn öll tækifæri til að standa sig vel og vinna af krafti. Hann missti þau spil algjörlega úr höndunum og þarf að endurvinna sér styrk og trúverðugleika. Þetta hlýtur að teljast háðugleg útreið fyrir nánustu stuðningsmenn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, sem trúðu því að hann gæti leitt flokkinn út úr þessari krísu.

mbl.is Nýr meirihluti myndaður í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er leiður endi á stjórnmálaferli VÞV en hann hlýtur að snúa sér að öðru en borgarmálefnum. Margt gott í Villa en hann er í hlutverki Sesars. Bara til áréttingar... þá breytist ekki meirihlutasamstarf flokkana hér á Akureyri eða á Alþingi. Óska Degi velfarnar til starfa en minni hann á að stóll borgarstjóra er háll og hvikull.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 17:14

2 Smámynd: Páll Jóhannesson

Þetta er afleiðing þess að Gísli Marteinn Baldursson og félagar í sjálfstæðisflokknum í Reykjavík máluðu Vilhjálm út í horn. Það er fyrst og síðast orsök þess að meirihlutinn sprakk, ekki framkoma Björns Inga, hann var heill í öllu ferlinu ólíkt Vilhjálmi og félögum.

Páll Jóhannesson, 12.10.2007 kl. 15:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband