Samráðsblærinn vofir yfir Baugi og Krónunni

Matvörur Það hefur verið sláandi að fylgjast með fréttum af hugsanlegu samráði Bónus og Krónunnar. Blær samráðsins vofir yfir verslanakeðjunum, enda hafa margir sem unnið hafa hjá þeim tekið undir fréttir byggðar á heimildarmönnum fréttastofu Útvarps um samráð og skakkar verðkannanir. Held þó að viðtalið við starfsmann Baugs í fimm ár í kvöldfréttum Sjónvarps í gærkvöldi hafi verið þeirra áhugaverðast.

Það er algjörlega ljóst að það er grafalvarlegt mál ef sérstaklega ummæli þess manns eru rétt. Þar var gengið lengst í því að taka undir sögusagnirnar. Skiljanlega kom maðurinn ekki fram undir nafni, enda er hætt við því að líf mannsins breyttist fljótt í hreina martröð ef hann myndi tjá sig um þessi mál undir nafni. En það er alveg ljóst að það að svo margir taki undir sögusagnirnar er merki um að eitthvað mjög rangt hefur gerst hjá þessum verslanakeðjum, hversu ólöglegt sem það annars má vera.

Það blasir við að verðkannanir í þeirri mynd sem við höfum þekkt þær síðustu árin eru gjörsamlega marklausar. Það tekur enginn mark á þeim skáldskap framvegis. Það hvernig þær eru gerðar er bara móðgun við allt hugsandi fólk, neytendur í þessu landi. Að hlusta á Gylfa Arnbjörnsson lýsa því um daginn hvernig þetta er gert var alveg hlægilega kostulegt. Þetta er bara sýndarmennska hin mesta þessar kannanir og verslanakeðjurnar ganga bara á lagið að afvegaleiða umræðuna. Það er heiðarlegra að hætta með þessar svokölluðu verðkannanir en að standa fyrir leiktjaldaplotti eins og þetta er í dag.

Heilt yfir er þetta skelfilegt mál í alla staði. Það þarf að fara fram rannsókn á öllum þáttum þess. Umræðan er annars of umfangsmikil og með marga þræði inn í verslanakeðjurnar til að framhjá henni verði litið. Það verður ekki hægt að treysta þessum aðilum framar ef þeir verða ekki hreinsaðir af ávirðingum beint með rannsókn.

mbl.is Kerfisbundið haft áhrif á verðkannanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

ÉG segi eins og einn bloggfélagi minn Hrokinn, það er algerlega verið að taka okkur í þurrt rassgatið  og þeir komast upp með það þessir ljúfu...

Kveðja,

Inga Lára

Inga Lára Helgadóttir, 3.11.2007 kl. 23:44

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin. Það er mikilvægt að kanna þetta vel. Hinsvegar er ljóst að viss strengur landsmanna til þessara aðila hefur verið rofinn. Það verður erfitt að trúa nokkru frá þeim eins og staðan er orðin og þeir ekki verið hreinsaðir opinberlega af alvarlegum ásökunum sem þeirra eigin starfsmenn áður fyrr hafa staðfest með áberandi hætti.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.11.2007 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband