Framsókn í tilvistarkreppu - holur hljómur Guðna

Guðni Ágústsson Heldur fannst mér holur hljómurinn í ræðu Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundi hér á Akureyri í dag. Það blasir við öllum að tilvistarkreppa Framsóknarflokksins er gríðarleg, flokkurinn hefur misst sérstöðu sína og er orðinn eins og landlaust rekald á útsjónum. Guðni virðist vera veikur formaður. Staða flokksins hefur ekki batnað í stjórnarandstöðu í tæpt hálft ár. Engin teikn eru á lofti um að staða Framsóknarflokksins hafi breyst til hins betra síðan að þjóðin hafnaði honum í vor.

Ræða Guðna í dag sýnir vel helsta vanda Framsóknarflokksins. Tómleiki ræðunnar sýnir umfram allt hversu mjög stjórnarandstöðuvistin er erfið Framsóknarflokknum. Þar eru fá mál til að slá sér upp með og farið í uppnefningar á pólitískum andstæðingum til að upphefja sjálfan sig. Það er reyndar ekki öfundsvert að vera í stjórnarandstöðu í þeirri stöðu sem uppi er. Segja má að stjórnarandstaðan sé áhrifalaus að mestu leyti; þrír flokkar hennar eru til samans með fimm þingmenn færri en Sjálfstæðisflokkurinn einn. Baráttuþrek hennar er enda veikt, eins og sést hefur.

Guðni Ágústsson er reyndur stjórnmálamaður, hefur verið lengi í pólitísku ati og tókst að verða formaður Framsóknarflokksins, þrátt fyrir að Halldór Ásgrímsson hefði barist gegn því er hann yfirgaf pólitíska sviðið. Guðni varð þó formaður á erfiðum tímum í sögu þessa elsta starfandi flokks landsins; eftir auðmýkjandi kosningaósigur og við upphaf endurbyggingar rústa flokksins. Hann virðist ekki hafa það sem til þarf til að rífa flokkinn upp ef marka má kannanir. Staða hans er erfið og við öllum blasir að Framsóknarflokkurinn er í gríðarlegri tilvistarkreppu og vandséð að úr rætist.

Þrátt fyrir stjórnarandstöðuvist er Framsóknarflokkurinn enn að mælast með innan við tíu prósentustig, rétt eins og meðan að flokkurinn hafði völd. Margir áttu von á að Framsókn tækist í stjórnarandstöðu að byggja sig upp. Landsmenn hafa þó ekki öðlast trú á flokknum og hann er í gríðarlega erfiðri stöðu að öllu leyti. Því er holur hljómur formannsins skiljanlegur.

Eflaust er einn vandi flokksins að hann hefur ekki endurnýjað sig í forystu. Eftir afhroðið í vor leiða tveir ráðherrar liðins valdatíma flokkinn. Hann nýtur ekki trausts landsmanna og hefur ekki hafið sig upp úr sögulegu afhroði. Að óbreyttu verður spurt að því hvenær að Guðni hrökklist frá formannsstólnum og hver taki við.

mbl.is Guðni: Forsætisráðherra er daufur og sinnulaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ath framsóknarflokkurinn hefur ekki fjölmiðla á hverjum fingri eins og samfylking og sjálfstæðisflokkurinn, á þvi erfiðara uppdráttar.

Jóhannes kristjánsson (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 15:33

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Framsókn á vissulega erfitt uppdráttar, en þar eru heimatilbúin vandræði mjög áberandi. Framsóknarflokkurinn á sér langa sögu að baki og finnur eflaust ljósið við enda ganganna einhverntímann en varla verður það þó fljótlega ef marka má stöðuna núna, eftir forsætisráðherraferil Halldórs Ásgrímssonar, sem skildi eftir flokkinn í sárum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.11.2007 kl. 19:43

3 Smámynd: Kristján Eldjárn Þorgeirsson

Eigum við ekki að leyfa kjörtímabilinu að fara almennilega af stað og sjá hvernig framsóknarflokknum reiðir af þetta kjörtímabil.  Það hefur ekkert reynt á stjórnarandstöðunna að neinu gagni það sem af er þingi, enda bara mánuður liðinn af þingstörfum, að undanskildu sumarþingi, sem fór að stærstum hluta í það að skóla til nýja þingmenn, og engin stórmál verið til umræðu ennþá. 

Kristján Eldjárn Þorgeirsson, 10.11.2007 kl. 22:25

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það er enn langt til kosninga, að óbreyttu. Það sem ég er að gera er að tala um stöðuna eins og hún blasir við Framsókn á þessum fundi. Hún er slæm, hvernig sem á er litið í landsmálunum. Þetta er ár sögulegs ósigurs og það mun eflaust taka einhvern tíma að vinna sig upp úr þeirri lægð. Það sem vekur þó mesta athygli er að ekkert hefur birt yfir á hálfu ári. Tek skýrt fram að óbreyttri stöðu flokksins eftir því sem líður á tímabilið verði spurt að því hvenær að Guðni hrökklist frá formannsstólnum og hver taki við. Það er eðlilegt. Annars finnst mér daufara yfir þinginu en ég taldi áður. Stjórnarandstaðan er veik og þá verður allt litlausara.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.11.2007 kl. 00:57

5 Smámynd: Óðinn Þórisson

ég hugsa að flestir telji það mjög líklegt að formannsskipti verði fyrir næstu kosningar - þeir verða að gera einhverjar stórar breytingar - Guðni og Valgerður eru gamli tíminn - björn ingi tekur slaginn -
það er illa komið fyrir miðjuflokki sem á ekki þingmann í reykjavík - er ekki bara tími framsóknar liðinn ? AMK. er það umhugsunarefni fyrir þennan miðjuflokk að vera orðinn minni en öfgafullur vinstriflokkur sem er á móti framförum

Óðinn Þórisson, 11.11.2007 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband