Gæslan fær nýja þyrlu í stað TF-Sifjar

Nýja þyrlan Það er ástæða til að óska Landhelgisgæslunni til hamingju með nýja þyrlu sína. Það hefur sést vel síðustu árin að mikilvægt er að hlúa vel að Gæslunni. Það er full þörf á að bæta flotann og hefur verið unnið vel í þeim efnum. Það sem skiptir máli nú er að dreifa björgunarþyrlum um landið, en ekki loka þær inni á einum stað í Reykjavík.

Höfum við á landsbyggðinni talað með áberandi hætti á pólitískum vettvangi fyrir mikilvægri uppstokkun í þeim efnum, sérstaklega hvað varðar að björgunarþyrla sé til taks á Akureyri. Hefur hugur pólitískra fulltrúa hér verið ljós lengi, en bæjarstjórn Akureyrar hefur oft ályktað um þessi mál. Hefur pólitískur vilji alþingismanna í Norðausturkjördæmi komið vel fram í þingsölum, síðast í umræðu á Alþingi fyrir nokkrum vikum.

Það er mikilvægt að Gæslan sé vel búin og vel hlúð að henni, enda er hún okkur öllum svo mikilvæg á örlagastundum þar sem hver mínúta getur skipt máli varðandi björgun fólks. Nýja þyrlan kemur í stað TF-Sifjar sem fórst í Straumsvík í sumar, þar sem tókst að bjarga öllum sem um borð voru með giftusamlegum hætti. TF-Sif markaði stór skref í sögu Landhelgisgæslunnar og það er alveg ljóst að ný þyrla verður okkur ekki síður mikilvæg og TF-Sif.

mbl.is Ný þyrla Landhelgisgæslunnar komin til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Þór Strand

Allir vilja þyrlu en hvað þurfum við?  Fyrir hverja vél sem er tilbúin til útkalls þarf að eiga minnst 2 og sumir segja þrjár vélar þannig að ef það eiga að vera þyrlur áfjórum stöðum þá þarf að eiga 12 vélar og 12 - 16 áhafnir þetta þýðir um 150 menn á launum þegar upp er staðið svo hvar ætlum við að enda?

Einar Þór Strand, 10.11.2007 kl. 21:54

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Andri: Gaman að heyra í þér. Já, það á ekki að loka þær allar á einum stað. Þarf að ræða þessi mál þó fordómalaust. Finnst margir hafa lokað á það mjög geyst að færa þetta til og halda í einn punkt sem heilagan. Það gengur ekki upp. Það er ljóst að öll lengri flug til björgunar norður og austur af landinu verða mun erfiðari en verið hefur frá suðvesturhorninu.

Eins og allir vita er hér fyrir norðan miðstöð sjúkraflugs á Íslandi. Á Akureyri er í senn allt til staðar: hátæknisjúkrahús, sólarhringsvakt á flugvelli og sérþjálfað teymi vegna sjúkraflugs. Enginn vafi er því á að björgunarþyrla stassjóneruð á Akureyri myndi auka öryggi vegna sjúkraflugsins mun frekar en nú er. Það er viðeigandi við þau þáttaskil sem nú blasa við og ljóst er að fjölga verður björgunarþyrlum að hafa eina þyrlu til staðar hér á Akureyri.

Einar: Á Akureyri er þegar til staðar flugteymi og þar er miðstöð sjúkraflugs eins og ég vík að hér fyrr í kommentinu. Spurningin snýst bara um að hafa þyrlu á staðnum, við höfum talað um eina.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.11.2007 kl. 00:44

3 identicon

Stefán og aðrir,

Vinsamlega athugið það að viðhald sem fylgir einu slíku tæki (þyrlu) er margfaldur miðað við venjulega flugvél. Bæði kostnaðarlega og líka í tíma og mannahaldi ásamt varahlutalager og aðstöðu. Að ætla að staðsetja þyrlu á Akureyri er fásinna meðan ekki fæst nægilegt fjármagn til þess að reka flugdeild LHG svo vel sé. Að ætla að fljúga þyrlunum fram og til baka frá Reykjavík nokkrum sinnum í viku til þess að sinna viðhaldi þeirra mundi drepa flugdeild LHG endanlega kostnaðarlega. Að setja upp litla viðhaldsstöð á Akureyri er heldur ekki góður kostur þar sem þyrlunum þyrfti hvort eð er að fljúga til Reykjavíkur fyrir skoðanir sem ekki eru framkvæmanlegar í slíkri útstöð.

Það má reikna með að það þyrfti að hafa alltaf a.m.k. tvær áhafnir staðsettar á Akureyri og þá þriðju til skiptanna. Þ.e.a.s. þegar það eru skiptidagar. Líklega þyrfti þá að ráða 3-5 áhafnir í viðbót til þess að sinna 24 tíma vakt. Það kostar heilmikið að ferja flugmennina og aðra áhafnameðlimi á milli með farþegaflugi, borga dagpeninga á staðnum og greiða fyrir þá húsnæði og bíl því þeir þurfa jú að komast út á völl. Svo á eftir að manna læknavaktina og það gengur ekki of vel í Reykjavík fyrir utan kostnaðinn.

Mér finnst að þið ættuð aðeins að hugsa málið betur áður en þið látið svona óábyrgar kröfur frá ykkur. Mér finnst óábyrgt að krefjast þess að LHG útvíkki starfsemi sem er undirfjármögnuð nú þegar.

Stefán (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 11:59

4 identicon

Það að hafa þyrlflotann staðsettann á útnesi eins og Reykjanesi í (220 km frá miðju landsins) eða útnára eins og Reykjavíkurflugvelli (190 km frá miðju landsins) er ekki skynsamlegt. Þá er mun nær lagi að staðsetja flugflotann á Akureyri sem er um 80 km frá miðju landsins.

http://atlas.lmi.is/gamli/www.lmi.is/landmaelingar.nsf/pages/goproweb0360.html

Með þessu þá myndu óþarfa útköllum þyrlu í kringum stórreykjavíkursvæðið fækka stórlega og minnka kostnað sem Stefán (athugasemd 11.11.2007 kl. 11:59 ) virðist hafa miklar áhyggjur af. 

Kveðja Óskar A.

Óskar A. (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 20:43

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Stefán: Það gerir ekkert til að ræða þessi mál. Hina almennu pólitísku umræðu um málið hefur vantað stórlega. Sumir halda í afstöðuna um að hafa allt í einu húsi sem trúarbrögð sem mér líkar ekki við. Finnst mikilvægt að tala hreint út og fá þá umræðu. Það má vel vera að fólk sé ósammála, en mér finnst það ekki óeðlilegt að tala heiðarlega um málið.

Óskar: Þakka þér kommentið. Sammála þér.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.11.2007 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband