Anders Fogh áfram forsætisráðherra

Anders Fogh Ég fæ ekki betur séð en að útgönguspár í dönsku þingkosningunum í dag bendi allar til þess að Anders Fogh Rasmussen verði áfram forsætisráðherra Danmerkur. Stóra spurningin nú er þó hvort að stjórnin heldur velli óbreytt eða þarf að leita eftir samstarfi við Nýja aflið. Það veltur allt á því hvernig flokkarnir sem standa að ríkisstjórninni munu standa er talningu lýkur.

Það var áhætta hjá Fogh að boða til kosninga. Hann hefur áður þorað að taka áhættur á stjórnmálaferli sínum, boða til kosninga fyrir lok kjörtímabilsins. Sama gerði hann árið 2005. Þá hreinsaði hann loftið, kratar töpuðu styrk og Mogens Lykketoft datt upp fyrir í dönskum stjórnmálum.

Það sem mér finnst merkilegast við útgönguspárnar er hversu lítið kratar eru að bæta við sig í Danmörku. Þeir eru annaðhvort að tapa broti úr prósenti eða standa í staði. Það eru stórtíðindi, en kratar voru vanir að toppa og vera langstærsti flokkur landsins hér á árum áður. Það eru stórtíðindi fari svo sem spáð er að Venstre verði stærstur þriðju kosningarnar í röð.

Þetta verður spennandi kosningakvöld í Danmörku. Þó er Fogh að því er virðist með pálmann í höndunum. Helle Thorning Schmidt sem gat orðið fyrsti kvenforsætisráðherra Danmerkur þarf sennilega að bíta í það súra að missa af tækifærinu til að ná völdum en sennilega fær hún að leiða kratana aftur í gegnum kosningar.

mbl.is Útgönguspár benda til sigurs dönsku stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Helgi Rögnvaldsson

Já, líf og fjör í pólitíkinni í Danmörku.  Það er mjög gaman að fylgjast með því hver munurinn er á umfjöllun fjölmiðlana fyrir kosningar hérna úti og heima á Íslandi.  Mér finnst fjölmiðlarnir hérna mun hvassari og hreinlega krefja stjórnmálamenn um svar, svoleiðis er það nú ekki heima.  Um daginn var kappræða á milli Helle og Anders þar sem að þau bentu á margt sem að þeim fannst gott og slæmt, auðvitað voru þau ekki sammála um allt, en svo notaði DR smá hluta af fréttatímanum daginn eftir til að athuga hvort þeirra sagði í raun satt og hvort að þau hefðu sett fram staðhæfingar sem voru einfaldlega rangar.  Þetta finnst mér vanta mjög mikið í umfjöllun fjölmiðlana á Íslandi því að bæði Helle og Anders voru ekki alveg 100% örugg á því sem þau settu fram.  En sigurvegari þessara kosninga er án efa Villy Søvndal og SF, flokkurinn hans virðist ætla að rjúka úr 7% í 13%, voru með 11 þingmenn í síðustu kosningum en eru núna með 24.  Þetta þýðir að SF gæti orðið þriðji stærsti flokkurinn í DK á eftir Venstre og krötunum, en Danske Folkeparti er einnig með um 13%.

Ólafur Helgi Rögnvaldsson, 13.11.2007 kl. 19:32

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentið Óli. Þetta eru spennandi kosningar og áhugavert að sjá úrslitin er yfir lýkur. Held já að danska pressan sé miklu hvassari og aðgangsharðari en hérna heima. Finnst hún stundum einum of meinlaus í hitamálum. Samt hefur þetta þó aðeins verið að skána eftir að Egill byrjaði með Silfrið og spjallþættirnir á kvöldin byrjuðu, en samt einum of mjúkt.

heyrumst

mbk. Stebbi

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.11.2007 kl. 20:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband