Ætlar Ómar Ragnarsson í framboð?

Ómar Ragnarsson

Ómar Ragnarsson, fréttamaður, hélt blaðamannafund í dag á Grand Hótel þar sem hann lýsti því yfir að hann myndi hér eftir taka afdráttarlausa afstöðu í umhverfismálum. Mun hann nú hafa í hyggju að tala opinskár um þann málaflokk en verið hefur og fór á blaðamannafundinum yfir afstöðu sinna til t.d. væntanlegrar stóriðju og virkjunar á Austurlandi og hugmyndum um fleiri stóriðjukosti. Mér finnst þetta að vissu leyti engin frétt, enda hefur afstaða Ómars að mínu mati ómast mjög vel í fréttamennsku hans, sem hefur verið svolítið einhliða oft á tíðum. Honum þykir vænt um landið og það er hans afstaða og honum er frjálst að tjá sínar skoðanir ef hann vill.

Mér finnst mistök hans liggja í því að hafa ekki hafið sína afgerandi baráttu þá bara fyrr og hætta með því að öllu leyti fréttamennsku um málaflokkinn. Það hefði verið hið eina rétta af hans hálfu, enda tel ég að við öll höfum vitað hina sönnu afstöðu hans. Ómar er landsmönnum öllum vel þekktur, hann hefur verið til fjölda ára ötull í fjölmiðlum, mikill flugmaður og náttúruunnandi en þekktastur þó væntanlega sem sjónvarpsmaður. Enginn vafi leikur á því að náttúra landsins er honum mikils virði. Í gegnum verk hans hefur komið fram hversu mjög hann ann íslenskri náttúru og sögu hennar. Dettur mér ekki í hug að gera lítið úr því verki, enda er ævistarf hans glæsilegt.

Það nægir að líta á Stikluþætti hans sem löngu eru orðnir klassískir og hafa öðlast mikinn sess í sjónvarpssögu landsins og aðra þætti hans á seinustu árum, Fólk og firnindi. Hefur Ómar seinustu árin sinnt mjög því áhugamáli sínu að fá fram umræðu um virkjunina og álverið fyrir austan. Kynnti hann þessi mál í mynd sinni: Á meðan land byggist, sem var gerð fyrir fjórum árum - árið 2002, og hélt því áfram í bók sinni, Kárahnjúkavirkjun - með og á móti, sem kom út fyrir tveim árum, þar sem hann fór yfir kosti og galla Kárahnjúkavirkjunar. Var bókin sett þannig upp að mál eru greind í opnur og á annarri blaðsíðunni er farið yfir jákvæða punkta málsins en á hinni þá neikvæðu.

Að mörgu leyti dáist ég af sannfæringarkrafti Ómars og því að hann tjái það sem hann telur réttast. En ég tel að hann hefði átt að gera það með heilum hug fyrir margt löngu. Það var mikill kraftur í Ómari á þessum blaðamannafundi og að mörgu leyti áhugavert að heyra hans skoðanir. Til dæmis fannst mér fyrrnefnd bók mjög fróðleg lesning og ætti að vera áhugaverð öllum þeim sem hafa kynnt sér málið, þekkja til náttúru landsins og Austfjarða. Lengi hefur mér verið annt um Austurland, enda á ættir mínar að rekja þangað að hluta og tel nauðsynlegt að standa vörð um mannlíf þar.

Ég er hinsvegar ósammála Ómari að mörgu leyti. Það er allt í lagi með það, enda allt í lagi að vera ósammála um meginatriði stjórnmála. Þó að ég virði Ómar er alveg ljóst að við erum ósammála um meginatriði. Við erum ekki sammála um það að virkjun við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð séu mikilvægur áfangi fyrir þjóðina. Það er enginn vafi á því að þessar framkvæmdir hafa eflt Austfirði og stöðu mála þar að öllu leyti. Það skiptir meginmáli að mínu mati.

Eftir stendur svo spurning dagsins: er Ómar Ragnarsson, fréttamaður, á leiðinni í framboð? Hann hljómaði eins og sanntrúaður stjórnmálamaður áherslna og skoðana á blaðamannafundinum í dag. Það hljóta margir að velta því fyrir sér hvort þessi 66 ára gamli fréttamaður ætli að gefa kost á sér í næstu þingkosningum eftir þennan blaðamannafund, sem auðvitað var sendur út í beinni útsendingu á NFS (er hún annars ekki ennþá til, "Kæri Jón"?).


mbl.is Ómar Ragnarsson kallar eftir þjóðarsátt um Kárahnjúkavirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar Ragnars er baráttuhundur og þrátt fyrir háan aldur er maðurinn í hörku formi og alls ekki af baki dottinn með það að fylgja hugsun sinni taktfast eftir og ætlar nú að ganga alla leið með málstað sinn sem honum vissulega er kær.

Ómar sem forseta.

Eysteinn (IP-tala skráð) 24.9.2006 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband