Sól Framsóknar hnígur til viðar í höfuðborginni

Björn Ingi og AlfreðÁ innan við ári hefur sól Framsóknarflokksins í Reykjavík hnigið til viðar. Höfuðborgaruppbyggingin mikla í flokknum sem skipulögð var í formannstíð Halldórs Ásgrímssonar er hrunin og eftir eru aðeins rústir. Flokkurinn á engan þingmann í höfuðborginni en átti þrjá á síðasta kjörtímabili, þar af tvö ráðherrasæti lengst af þeim tíma og um tíma sjálft embætti forsætisráðherra.

Eftir fjórtán ára meirihlutaþátttöku framsóknarmanna í Reykjavík, lengst af innan R-listans sem flokkurinn var burðarásinn í alla tíð, þar sem leiðtogar flokksins höfðu lykiláhrif við stjórn borgarinnar er Framsókn nú með öllu valdalaus. Eftir að hafa í mörg ár leitt nefndir í borgarkerfinu situr hann aðeins eftir með nefnasetu í borgarráði og stjórn Faxaflóahafna, auk áheyrnarfulltrúa í nefndum, sem hafa ekki atkvæðisrétt. Óskar Bergsson sem borgarfulltrúi er því varla öfundsverður af stöðu sinni og mjög einangraður á vaktinni.

Brotthvarf Björns Inga er mikið áfall fyrir flokkinn, en það er skiljanlegt að hann hafi ekki viljað verða áhrifalaus í minnihluta. Hann var orðinn einangraður með öllu í stöðu sinni, hafði málað sig út í horn í valdatafli sínu og hneykslismálin fóru illa með hann. Honum var þó slátrað innan frá með herferð síðustu daga, þar sem Guðjón Ólafur reyndist bæði vígfimari og klókari andstæðingur en Binga órðai fyrir.

Brotthvarf hans er enn eitt áfallið fyrir Framsókn í Reykjavík og eitt skýrasta dæmið um að höfuðborgaruppbygging Halldórs, sem var eitt lykilmála formannsferils hans, er með öllu hrunin til grunna.

Upptalning Egils Helgasonar á vef sínum yfir kjörna fulltrúa er athyglisverð:

"Björn Ingi er farinn. Anna Kristinsdóttir er farin. Guðjón Ólafur Jónsson er persona non grata í flokknum. Ásrún Kristjánsdóttir er líka hætt. Jónína Bjartmarz er í Kína. Jón Sigurðsson staldraði stutt við í pólitík. Finnur er horfinn, Árni Magnússon líka. Halldór Ásgrímsson er í Köben.

Af fjórum efstu frambjóðendum í síðustu borgarstjórnarkosningum eru tveir farnir. Af fjórum efstu frambjóðendum í Reykjavík norður og suður í alþingiskosningunum er aðeins einn sem má telja fúnkerandi flokksmann: Sæunni Stefándsóttur, ritari Framsóknar.

Flokkurinn á engan alþingismann í borginni, en í borgarstjórninni sendur Óskar Bergsson einmana vaktina."

Við þessa upptalningu mætti bæta við Ólafi Erni Haraldssyni, fyrrum þingmanni Framsóknar, sem hrökklaðist frá metorðum í flokknum vegna þess að hann komst upp á kant við forystu flokksins, en var síðar komið fyrir í forstjórastöðu hjá Ratsjárstofnun, en var hent þar út í fyrra af utanríkisráðherra Samfylkingar.

Eftir stendur að þetta er eiginlega kaldhæðnislegt hrun Framsóknarflokksins í Reykjavík, í raun aðeins á tveim árum, frá því að Halldór og Árni hrökkluðust út. Jón Sigurðsson náði aldrei að skipta máli þarna en fall hans var samt ansi hátt. Það er fjarstæða að kenna fjölmiðlum um þetta hrun eins og Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur gert, að ég tel með hálfum huga, því honum getur varla verið alvara.

Það eru innanmein sem eru að drepa þennan flokk í höfuðborginni. Hann er valdalaus og í molum. Það er eins og enginn vilji byggja hann upp og þegar að hann kemst á hnén taka flokksmenn sjálfir upp sveðjuna og höggva til flokkskjarnans. Það eru fá dæmi um aðra eins eyðileggingarherferð innan frá í stjórnmálaflokki árum saman.

Halldór Ásgrímsson ætlaði sér að byggja flokkinn upp í höfuðborginni. Þrír pólitískir krónprinsar hans; Björn Ingi, Finnur og Árni Magg, voru í forystusessi flokksins í borginni en allir fóru þeir úr pólitík við lítinn orðstír. Halldór sjálfur færði sig í borgina en veslaðist upp þar, allt þar til að hann gafst upp og fór af velli mæddur og bugaður.

Það er ekki hægt að segja annað en að þetta séu kuldaleg örlög fyrir einn flokk - vandséð er að hann geti risið upp úr þessari sjálfstortímingarherferð sinni.


mbl.is Mikið áfall fyrir Framsóknarflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Ég hef fylgst með stjórnmálum síðan ég var lítil stelpa og ég man vel eftir deilunum í kringum Óla Jó, Tunnan valt og úr henni allt, og svo framvegis. Afi minn og amma voru mikið framsóknarfólk þar sem Tíminn var lesinn með nánast sömu andakt og Biblían. En þrátt fyrir það hef ég aldrei getað skilið, og hef þó reynt, af hverju nokkur maður ætti að kjósa Framsókn. Þessi flokkur var þekktur fyrir að vera opinn í báða enda og virtist eingöngu hafa þann tilgang að hafa völd, enda hafa liðsmenn hans komið sér vel fyrir í valdakerfinu. Uppþotið í kringum Jónínu Bjartmarz sýndi að þetta hefur ekkert breyst, hvort sem hún átti þátt í því eða ekki þá vita allir að það var verið að hygla henni, hvort sem hún bað um það eða ekki. Staða Framsóknarflokksins á miðjunni hefur skilað honum miklum völdum, hann hefur setið í bæði hægri- og vinstristjórnum eins og að drekka vatn. En núna hefur Samfylkingin tekið við þessu hlutverki og þá hefur Framsókn ekki lengur þessa oddastöðu og er því valdalaus eins og hver annar örflokkur.

Málefnin hafa algerlega drukknað í öllu havaríinu, hver man eftir einhverju sérstöku málefni Framsóknarflokksins sem hefur komist á blað? Ég man ekki eftir neinu. Þeir hafa helst vakið athygli fyrir snilldarlegar auglýsingaherferðir þar sem formaðurinn át samloku í vinnuskúr en enginn man hvað hann sagði.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 26.1.2008 kl. 16:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband