Þorvaldur Ingvarsson í leiðtogaframboð

Þorvaldur Ingvarsson

Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, sendi út fréttatilkynningu fyrir stundu þar sem hann tilkynnir að hann gefi kost á sér í fyrsta sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Þorvaldur nam læknisfræði við Háskóla Íslands en hélt til framhaldsnáms í bæklunarlækningum í Svíþjóð og lauk doktorsprófi við Háskólann í Lundi. Hann hefur öðlast víðtæka reynslu innan heilbrigðisgeirans, starfað sem læknir og stundað jafnhliða því sérfræðistörf, kennslu og stjórnun. Hann hefur verið framkvæmdastjóri lækninga við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri frá árinu 1998.

Þorvaldur Ingvarsson skipaði sjötta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum 2003. Hann hefur verið formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar allt frá haustinu 2003 og setið í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri frá þeim tíma. Þorvaldur hefur lengi talað um þingframboð sitt og hefur nú ákveðið sig í þeim efnum. Þegar í sumar sagði hann í viðtali við blaðið Vikudag hér á Akureyri að hann myndi gefa kost á sér í efstu sæti og tiltók þá þegar 1. - 3. sætið.

Þessi framboðsyfirlýsing Þorvaldar Ingvarssonar hleypir lífi í framboðsmál okkar sjálfstæðismanna í kjördæminu. Búast má við að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, muni síðar í dag tilkynna ennfremur um leiðtogaframboð sitt. Kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi verður haldið um næstu helgi og verður þá ákveðið hvernig skipan efstu sæta framboðslistans verður ákveðin. Tillaga stjórnar kjördæmisráðsins er að fram muni fara prófkjör.

Ég spáði því í færslu minni á vefnum á laugardag að bæði Þorvaldur og Kristján tilkynntu leiðtogaframboð í dag, mánudag, og það mun ganga eftir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband