Varnarsamkomulag undirritað í Washington

Geir H. Haarde og dr. Condoleezza Rice

Dr. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, hafa nú undirritað samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um framtíðartilhögun varna Íslands. Með því er búið að ganga frá öllum lausum endum í þeim málum og ný framtíð tekur við í kjölfarið. Reyndar er hún þegar orðin staðreynd, enda er auðvitað herinn farinn af Miðnesheiði og langri sögu Bandaríkjahers á Íslandi því liðin undir lok. Ég hef ekkert farið leynt með það að mér fannst framkoma Bandaríkjastjórnar við okkur er einhliða var tilkynnt um endalok herstöðvarinnar í mars fyrir neðan allar hellur og ekki þeim til sóma.

Varnarsamningurinn var endaspil í stöðu sem við gátum ekki snúið okkur í vil. Það er bara eins og það er. Ég var ánægður með að heyra skoðun Davíðs Oddssonar, fyrrum forsætisráðherra, á þessu máli í fréttatímanum hjá Stöð 2 í kvöld. Við erum algjörlega sammála. Við áttum ekki að láta bjóða okkur neinn afgang heldur að berja hnefanum í borðið. Það má vel vera að við hefðum ekki fengið neitt betra með því en með því hefðum við getað sýnt okkar rétta andlit. Íslendingar eiga að vera menn til að geta af hörku verið eigin herrar og verið ófeimnir að láta til sín taka. Mér hefur fundist það vera því miður skilningsleysi fyrir okkar þarfir í forsetatíð George W. Bush og svo mikið er víst að ekki hefur verið hlustað neitt á okkar hlið. Þetta varð allavega erfiðara eftir að Davíð hætti.

Það er enginn vafi á því að sá sem ber ábyrgð á framkomunni við okkur er Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Mér finnst hann eiga lítið skilið af virðingu úr okkar herbúðum og frekar dapurlegt er nú að sá maður sé enn á ráðherrastóli í Pentagon. Það færi vel á því að Bush léti hann gossa fyrir þingkosningarnar til að reyna að bjarga því sem bjargað verður hjá repúblikönum í erfiðri stöðu núna. Rumsfeld átti reyndar að gossa fannst mér sumarið 2004 þegar að fram komu upplýsingar og síðar sannanir um pyntingar stríðsfanga í Írak. Það var óverjandi mál og þá átti að láta ráðherrann fara. Ég ætla að vona að hann hrökklist frá fyrir lok forsetaferils Bush.

Valgerður Sverrisdóttir og dr. Condoleezza Rice

Mér skilst að Condi Rice ætli að koma til Íslands bráðlega í opinbera heimsókn. Það eru svo sannarlega gleðitíðindi, enda kominn tími til að hún komi hingað og kynni sér stöðu mála. Það hefði betur gerst meðan að viðræðurnar stóðu um varnarmálin. Vissulega eru málefni Íslands lítill dropi í úthafi alþjóðastjórnmála. En það hafa lengi verið vinatengsl með þjóðunum og þau eiga stjórnarherrar vestra að virða meira en gert hefur verið á síðustu þrem árunum. Mér fannst t.d. mjög vandræðalegt fyrir ráðherrana okkar þegar að Condi talaði um Írland en ekki Ísland á viðkvæmum punkti blaðamannafundar hennar og forsætisráðherrans. Allavega mín skoðun.

Ég hef alltaf verið talsmaður vestræns samstarfs, góðs samstarfs Íslands og Bandaríkjanna. Mér finnst það skipta almennt séð miklu máli. En það verður að vera samstarf útfrá gagnkvæmri virðingu, það getur ekki bara verið einhliða úr okkar átt, finnst mér. Það verður aldrei neitt úr neinu sem einhliða telst. Einhliða brot á tvíhliða varnarsamningi sem við urðum vitni að lögðu flein í þetta farsæla samstarf sem tekur tíma að laga. Það verður fróðlegt að fylgjast með samskiptum þjóðanna næstu árin, þann tíma sem George W. Bush á eftir á forsetastóli, en nú styttist óðum í forsetaskipti vestanhafs.

mbl.is Rice þekkist boð Valgerðar um að koma í heimsókn til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband